Það er óhætt að fullyrða að þýsku skátahjónin Sandra og Guido Ertel séu á meðal tryggustu sjálfboðaliðanna þegar kemur að mótshaldi skáta hérlendis en þau hafa verið í starfsliði allra landsmóta Bandalags íslenskra skáta frá árinu 1993. Þau eru einnig á meðal ríflega 600 erlendu sjálfboðaliða í starfsliði World Scout Moot 2017.

Alls eru sjálfboðaliðar í starfsliði World Scout Moot rúmlega eitt þúsund talsins, 450 íslenskir og ríflega 600 erlendir.

Vosbúð í vatnasafaríi

„Fyrsta mótið okkar er mjög eftirminnanlegt en það var haldið í Kjarnaskógi við Akureyri árið 1993” rifjar Guido upp. „Við vorum óheppin með veður. Það var kalt, hvasst og það rigndi mikið. Við vorum í starfsmannahópnum sem sá um vatnasafaríið en eins og gefur að skilja var ekki mikil aðsókn í þá dagskrá” segir Sandra hlægjandi.

Þessi fyrsta upplifun þeirra hjóna af skátamóti á Íslandi var því nokkuð sérstök en það aftraði þeim ekki frá að koma aftur og hafa þau verið í starfsliði allra landsmóta frá þeim tíma. Sandra missti reyndar eitt mót úr vegna veikinda.

Giftu sig á Íslandi

Sandra og Guido elska Ísland og hafa ferðast vítt og breytt um landið bæði að vetri og sumri en fyrir utan ferðir sínar til landsins vegna skátamótanna hafa þau komið þrisvar að vetri til.

Aðspurð um hvort það séu einhverjir staðir á landinu sem þau eftir að heimsækja segja þau það ekki vera. Hins vegar sé orðið tímabært að heimsækja aftur Vestmannaeyjar, Vestfirði og Austurland því nokkuð sé um liðið frá því þau fóru um þá staði.

Þau hafa sterkar tilfinningar til margra staða hér á landi og má þeirra á meðal nefna Þingvelli en þar fór brúðkaup þeirra fram fyrir nokkrum árum.

Þekkja betur til en margir heimamenn

Hlutverk þeirra hjóna hér á World Scout Moot er að starfa í upplýsingatjaldinu, leiðbeina þátttakendum og leysa úr fyrirspurnum eftir bestu getu. „Þetta er þriðja mótið sem við störfum í upplýsingatjaldinu hér á Úlfljótsvatni. Við þekkjum svæðið orðið mjög vel um allt umhverfi Úlfljótsvatns, kannski betur en sumir heimamenn” grínast Guido.