Þótt að þeir 450 íslenskir sjálfboðaliðar sem eru við störf vegna Moot fái upplýsingar um gang mála í rauntíma í gegnum Moot-appið og fjölskyldur 100 íslensku þátttakendanna fylgist daglega með sínu fólki, er ekki þar með sagt að allir skátar séu endilega með á hreinu hvað er í gangi hverju sinni á þessu stærsta skátamóti sögunnar.

Skátamál.is hafa því tekið saman lista yfir helstu upplýsingaveitur ásamt fróðleik um stöðu mála í von um að þær upplýsingar gagnist þeim fjölmörgu sem langar að fylgjast með.

Heimsóknardagur á sunnudaginn

Fyrir þá sem vilja koma á Úlfljótsvatn og upplifa skátaævintýrið í sinni glæsilegustu mynd er aðeins í boði að heimsækja mótið á heimsóknardeginum sunnudaginn 30. júlí á milli kl. 09:00-17:00. Aðeins verður hægt að taka á móti takmörkuðum fjölda gesta og þeir þurfa að kaupa sér miða fyrirfram.

Miðlar mótsins

World Scout Moot 2017 hefur á sínum snærum öflugt teymi sem sinnir samskiptamálum. Á þeirra könnu er útgáfa mótsblaðs og viðhald og rekstur Moot-appsins sem er fáanlegt fyrir iPhone og Android stýrikerfi. Appið er öllum opið og kemur í stað hefðbundinnar mótsbókar. Sami hópur annast um myndatökur, myndbandagerð og upplýsingagjöf og miðlun á samfélagsmiðlum og vefsvæðum auk fleiri verkefna.

Samhliða þessu annast hópurinn tímabundið um vefmiðla Bandalags íslenskra skáta. Hér að neðan eru tenglar á þessa miðla og þar er að finna margvíslegan fróðleik um mótið og skátastarf.

Frábært efni frá dagskrársvæðunum

Síðustu daga hafa mótsgestir dvalið á 11 dagskrársvæðum um land allt og þátttakendur hafa upplifað ótrúleg ævintýri og lagt af mörkum allt að 20.000 vinnustundir í sjálfboðna vinnu fyrir nærumhverfi sitt.

Hvert svæði hefur miðlað myndum, myndböndum og frásögnum inn á sínum lokuðu Facebook-síðm og við hjá Skátamálum höfum birt eitthvað brot af því.

Fjölmiðlar mjög áhugasamir

Aldrei áður hefur skátastarf fengið jafn mikla athygli í fjölmiðlum og nú. Við höfðum metnað til þess að hafa hér á Skátamál.is yfirlit yfir umfjöllunina en misstum það algjörlega úr böndunum um miðja vikuna og erum hætt að reyna að birta ykkur yfirlit yfir þann mikla og jákvæða fréttaflutning sem hefur verið af okkar starfi síðustu daga – sorrý.

Næstu skref

Í dag verður ys og þys á Úlfljótsvatni þegar allir hóparnir koma saman. Þeir fyrstu leggja af stað fótgangandi frá Hveragerði kl. 08:00 og hægt og bítandi mun tjaldbúðin þéttast og ná hámarki síðdegis í dag þegar ríflega 5.000 skátar munu þekja svæðið með glaðværð og góðum kveðjum.

Í kvöld stefnir í að mótsgestir sprengi utan af sér varðeldalautina okkar góðu sem þjónað hefur svo vel um árabil. Þá fer fram sérstök hátíðardagskrá í tilefni þáttaskila í dagskrá mótsins en frá og með morgundeginum munu allir þátttakendur dvelja saman á Úlfljótsvatni þar til yfir lýkur, eða fram að mótsslitum miðvikudaginn 2. ágúst.

Svo er það auðvitað heimsóknardagurinn á sunnudaginn þar sem verður mikið um dýrðir. Hver þjóð mun þá kynna fyrir gestum ýmislegt markvert úr sinni menningu sem verður hreint ævintýri að upplifa.

Ef þú hefur áhuga á að upplifa skátaævintýrið í sinni tærustu mynd ættir þú að tryggja þér miða í hvelli. Því miður getum við aðeins tekið á móti takmörkuðum fjölda gesta.

Ljósmyndir: Rósa Guðbjörg

/gp