Vindurinn skoraður á hólm

Það gustaði vel um þátttakendur í Vetraráskorun Crean í dag sem spyrntu hressilega á móti vindasömum Kára. Reyndar gustaði svo hressilega að breyta þurfti ferðaáætlun lítillega vegna veðurs, en skátarnir létu það ekki hafa áhrif á góða skapið.

Mögulega var það fyrirboði, en dagurinn byrjaði með fræðslustund um veður áður en farið var út í hreina loftið í gönguferð sem ljúka átti með heimsókn í Skinnhúfuhelli. Þegar komið var undir höfðann komu veðurguðirnir með ákaflega sannfærandi fræðslu um vindstyrk og þegar bakpoki tókst á loft var ákveðið að breyta ferðaáætlun.

Síðdegis í dag tóku svo við fyrirlestrar frá Landsbjörgu um fjallaferðamennsku og Leifur Örn Svavarsson Everestfari var nú í kvöld að segja frá reynslu sinni.
Á morgun er fyrirhugað að leggja á Hellisheiði og síðar í kvöld búa þátttakendur undir þann áfanga þessarar viðburðaríku viku. Að sjálfsögðu verður ekki telft í neina tvísýnu og eru leiðbeinendur og björgunarsveitarmenn sem fylgja þessum 14 – 16 ára skátum og ungliðum björgunarsveita vakandi yfir aðstæðum.

Sjá nánar um Vetraráskorun Crean

Sjá myndir á Facebook sem útsendarar Skátamála tóku í dag:

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar