Umsjón með sumarstarfi barna

Skátafélagið Vífill í Garðabæ auglýsir eftir umsjónarmanni sumarnámskeiða félagsins. Félagið hefur rekið útilífs- og ævintýranámskeið fyrir börn á aldrinum 5 – 14 ára í 25 ár og eru þau jafnan vinsæl og vel sótt.
Námskeiðin standa yfir í átta vikur á tímabilinu 10. júní og fram til 15. ágúst. Umsjónarmaður þarf að geta hafið störf eigi síðar en í lok maí. Hann er faglegur stjórnandi námskeiðanna og stýrir hópi ungmenna sem við þau starfa. Æskilegt er að umsjónarmaður sé 25 ára eða eldri.

Helstu verkefni eru:
að skipuleggja og reka skemmtilega og ögrandi dagskrá fyrir þátttakendur
að skipuleggja og halda utanum vinnu leiðbeinenda og gera vinnuskýrslur
að halda utanum þátttakendur og greiðslur fyrir námskeiðin
að sjá til þess að nauðsynleg efni og áhöld séu til staðar
að gæta þess að fyllsta öryggis sé gætt í starfi með börnunum
að vera tengiliður við yfirmenn sumarstarfs hjá Garðabæ
annað er tengist rekstri og framkvæmd námskeiðanna

Hæfniskröfur og menntun:
góð samskiptahæfni og áhugi á að vinna með börnum og ungmennum
þekking og reynsla af skáta- og tómstundastarfi
skipulagshæfileikar, snyrtimennska, hugmyndauðgi og glaðværð
menntun á sviði uppeldis- og tómstundafræða er æskileg
reynsla af stjórnun og starfsmannahaldi er æskileg

Til greina kemur að tveir einstaklingar deili með sér starfinu og skipti með sér verkum í samráði við stjórn Vífils.
Umsóknir skal senda á vifill@vifill.is . Nánari upplýsingar veitir starfsmaður félagsins í síma 899-0089 eða í tölvupósti.
Umsóknarfrestur er til 22. mars.