Vetraráskorun Crean: Hundasleðar og snjóhúsagerð

Hópur írskra og íslenska skáta tekur þessa vikuna þátt í Vetraráskorun skáta – eða Vetraráskorun Crean eins og hún er einnig kölluð, en verkefnið er kennt við írska pólfarann Tom Crean, sem meðal annars tók þátt í heimsskautsferðum Scott fyrir um öld síðan. Þetta er í þriðja sinn sem þetta samstarfsverkefni íslenskra skáta, írskra skáta og Landsbjargar. fer fram hérlendis.

Alls taka 43 krakkar á aldrinum 14 – 16 ára þátt að þessu sinni, auk fararstjóra, leiðsögumanna og hjálparliðs.  Skátarnir á Íslandi og Landsbjörg halda utan um dagskrána hér á landi undir stjórn Guðmundar Finnbogasonar.

Hápunktur vetraráskorunarinnar

Írsku skátarnir komu til landsins í gærkvöldi og munu dvelja hér með íslensku skátunum í viku. Sameinaður hópurinn dvelur nú á Úlfljótsvatni en á fimmtudag verður haldið á Hellisheiði þar sem gist verður í snjóhúsum og fjallaskálum.  Á dagskrá vikunnar eru meðal annars rötun við erfiðar aðstæður, fyrsta hjálp á fjöllum, snjóhúsagerð, dvöl í hellum, tjaldbúðir á fjöllum og bátsferð. Auk alls þessa fá þátttakendur heimsókn frá Leifi Erni Svavarssyni Everestfara og heimsókn frá fulltrúum Hundasleðafélags íslands.

Þessi vika er hápunktur vetraráskorunarinnar en hóparnir hafa æft hver í sínu landi og byggt sig upp fyrir þessa samverustund. Íslenski hópurinn var á helgarnámskeiði í  lok nóvember í útiferðamennsku og um miðjan janúar fóru hann í gönguferð á Hellisheiði og gisti í tjöldum.

Skátamál sögðu frá ferðinni >  Skoða útivist við krefjandi aðstæður  http://skatamal.is/utivist-vid-krefjandi-adstaedur

Færri komast að en vilja

Auk ferðanna hafa þátttakendur unnið verkefni á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðs­setningar og samfélagsvinnu. Gerðar eru miklar kröfur eru um verkefnaskil, þátttöku og áhuga.   Markmið Vetraráskorunarinnar eru að gera þátttakendur færa um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Þeir læra undirstöðuatriði fjallaferða og vetrarferðamennsku. Meðal annars er kennd skyndihjálp á fjöllum,  rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, góðir siðir í skálum og ferðareglur í hópferðum og veðurfræði á fjöllum.

Tuttugu manns á aldrinum 14 – 16 ára eru í íslenska hópnum og segir Guðmundur Finnbogason, verkefnisstjóri Vetraráskorunar Crean, að færri hafi komist að en vildu. Umsækjendur þurfa töluvert að hafa fyrir að komast í hópinn með umsóknum og síðan auðvitað að sanna sig þegar á hólminn er komið.

Við fylgjumst með!

Þessu frábæra verkefni verður fylgt ítarlega eftir hér á Skátamál.is næstu dagana og því hvetjum við þig til að fylgjast vel með. Skátamál.is hafa einnig sett upp sérstaka Facebook-síðu þar sem þátttakendur munu deila með okkur hinum skemmtilegu efni – fylgjumst með því!

:: Skoða vefsíðu Crean á Skátamál
:: Skoða Facebook-síðu Vetraráskorunar Crean

/ Jón Halldór / Myndefni: GP

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar