Skátarnir hafa einsett sér að efla upplýsingamiðlun sína og þar verða vefir skátafélaganna í stóru hlutverki. Nokkur skátafélög hafa opnað nýja vefi eða eru við það að opna þá. Gangi björtustu vonir eftir gætu allt að 15 félög verið komin með nýja vefi eftir veturinn.

Bandalag íslenskra skáta færði skátafélögunum vefgrunn til að vinna með áfram á sínum forsendum og nú reynir á þá sem halda um málin hjá félögunum. Þeir sem standa að vefjum skátafélaganna ætla að hittast í næstu viku og stilla saman strengi í vefstólunum því margt er samofið í lausnunum sem notaðar eru.

Tilbúnir vefir, vefir í vinnslu og reiðubúin skátafélög

Skjöldungar hafa sett nýjan vef í loftið og Vífill kemur með sinn á næstu dögum.

Félög sem hafa fengið uppsett WordPress og BÍS sniðmátið ásamt gögnum á vinnslusvæði eru:
1. Faxi
2. Heiðabúar
3. Kópar
4. Svanir
5. Vífill
6. Árbúar
7. Mosverjar

Félög sem búin að lýsa áhuga á að fá vefsíður eru:
8. Klakkur
9. Skf. Borgarness
10. Skf. Akraness
11. Garðbúar
12. Útilífsmiðstöðin að Hömrum
13. Hafernir

Guðmundur Pálsson vefmeistari hefur lagt skátafélögum lið eftir þeirra óskum og hafa sum þeirra tekið meistarann á orðinu og samið við hann um að klára málið með endanlegri uppsetningu og jafnvel aðstoð um hýsingu, því einhvers staðar þarf nú dýrðin að finnast á Alnetinu. „Auðvitað viljum við að félögin bjargi sér sjálf, en það eru margvísleg atriði sem þau þurfa hjálp með, en stefnan er að kenna og styrkja félögin,“ segir Guðmundur.

WordPress sliderar og plugins

Þeir sem halda utan um vefmál skátafélaganna og Bandalags íslenskra skáta ætla að hittast á miðvikudagskvöld í næstu viku og setjast á vef- og rökstóla. Allir velkomnir, heitt verður á könnunni og meðlæti í boði Skjöldunga, en fundurinn er haldinn í skátaheimili þeirra í Sólheimum 21a og hefst hann kl. 20:00 miðvikudagskvöldið 1. október.

Þeir sem vilja mæta eru beðnir um að láta vita af sér með skráningu á Facebook-viðburði: Fræðslukvöld um WordPress

Drög að efni fundarins…
1. Sliderar og breytingar á þeim.
2. uppfærslur á wordpress og plugins
3. vistun vefsíða – t-póstur
4. myndasíður
5. útlit og virkni vefsíða, widgeds ofl.
6. önnur mál….
Allir eru hvattir til að hafa tölvu sína meðferðis.

Þeir sem eru að skoða málin með vefsíður síns félags eru einnig hvattir til að mæta og kynnast því sem helst brennur á vefstjórum skátafélaganna. Þarna verður ekki þverfótað fyrir góðum ráðum.