Útivist við krefjandi aðstæður

Hópur úr dróttskátasveitum landsins og unglingadeildum Landsbjargar fór í 10 km göngu á Hellisheiði um liðna helgi og gistu í tjaldi. Ferðin er hluti af verkefninu Vetraráskorun sem Skátarnir og Landsbjörg standa að, en markmið þess er að gera þátttakendur færa um að bjarga sér í krefjandi vetrarferðum.

Hópurinn gekk frá Hellisheiðavirkjun upp í Innstadal þar sem var tjaldað. Daginn eftir var haldið heim á leið í þungu færi og miklum vindi og skafrenningi. Fararstjórarnir Gísli Bragason og Finnbogi Jónasson segja að ferðin hafi reynt á úthald og  skipulag í vetrarferðum þar sem skátar tókust á  við kulda, snjó og vind. Dagleg verkefni eins og að tjalda og elda verða erfið viðfangs við slíkar aðstæður.

Crean Vetraráskorunin

Vetraráskorunin er samstarfsverkefni írskra og íslenskra skáta. Hún er kennd við írska pólfarann Crean, sem m.a. tók þátt í heimsskautsferð Scott fyrir um öld síðan.

Þetta er í þriðja sinn sem boðið er upp á þessa dagskrá hérlendis og tekur hún nokkra mánuði. Í lok nóvember var haldið helgarnámskeið í útiferðamennsku, um liðna helgi var gönguferð og í febrúar verður vikulöng ferð með írsku þátttakendunum. Þá verður dvalið í Skátamiðstöðinni á Úlfljótsvatni og á Hellisheiði.

Auk ferðanna vinna þátttakendur verkefni á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðs­setningar og samfélagsvinnu. Gerðar eru ákveðnar kröfur eru um verkefnaskil, þátttöku og áhuga.   Markmið Vetraráskorunarinnar er eins og áður segir að gera þátttakendur færa um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Þeir læra undirstöðuatriði fjallaferða og vetrarferðamennsku. Meðal annars er kennd skyndihjálp á fjöllum,  rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, góðir siðir í skálum og ferðareglur í hópferðum og veðurfræði á fjöllum.

Eftirsótt áskorun

Tuttugu manns á aldrinum 14 – 16 ára taka þátt núna og segir Guðmundur Finnbogason, verkefnisstjóri Vetraráskorunar Crean, að færri hafi komist að en vildu. Umsækjendur þurfa töluvert að hafa fyrir að komast í hópinn með umsóknum og síðan auðvitað að sanna sig þegar á hólminn er komið.

1 UMSÖGN

Skilja eftir svar