Finnlandsferð alþjóðaráðs

Alþjóðaráð Bandalags íslenskra skáta er skipað fimm skátum sem kosnir eru á skátaþingi. Fjórir meðlimir eru kosnir ár hvert en formaður á þriggja ára fresti. Ráðið ber m.a. ábyrgð á því að kynna alþjóðastarf fyrir íslenskum skátum, standa fyrir ferðum á skátamót erlendis, kynna íslenskt skátastarf erlendis og sér jafnframt um ýmsa viðburði.

Í skátabandalögum annarra landa eru teymi eða ráð með svipuð hlutverk. Alþjóðaráð sótti í vor um styrk í styrkjakerfi Erasmus+ fyrir vettvangsheimsókn og fund með alþjóðaráðum Finnlands og Noregs í Finnlandi. Styrkurinn fékkst og því hélt ráðið til Finnlands í september sl. auk formanns ungamennaráðs.

Miklir styrkmöguleikar fyrir íslenska skáta
Fjölmargir skátar hafa á undanförnum árum hlotið Erasmus+ styrk. Á vefsíðu Evrópu unga fólksins (www.euf.is) er hægt að lesa nánar um tækifærin. Helst hafa skátar hlotið styrk til ungmennaskipta, EVS sjálfboðaliðaverkefni og yfirfærslu þekkingar.  Allar rekka- og róverskátasveitir ættu að kynna sér styrkjakerfið hið fyrsta!

gamanrutumynd

Uppbygging og hlutverk ráða
Eitt af markmiðum fundarins í Finnlandi var að kynnast uppbyggingu alþjóðaráða í Noregi og Finnlandi, deila reynslu og dæmum um góð vinnubrögð hvers lands. Í framhaldi af fundinum hyggst ráðið breyta um starfshætti í ákveðinn prufutíma og meta árangurinn að þeim tíma loknum. Helst ber að nefna breytta hlutverkaskiptingu ráðsmanna og skiptingu fagsviða innan þess. Auk þess breytingu á hugsunarhætti um að nálgast fagþekkingu utan kosinna ráðsmanna. Það er von ráðsins að þetta verði til að auka skilvirkni og efla stuðning við alþjóðastarf.

Efling ungs fólks til áhrifa
Finnland kynnti þjálfunarnámskrá sína fyrir ungt fólk sem vill taka þátt í stjórnskipulegum ákvörðunum á alþjóðlegum vettvangi. Fyrrverandi þátttakendur kynntu námskrána og námskeiðin auk þess að segja frá persónulegri upplifun sinni. Alþjóðaráð hyggst nýta efnið til að þjálfa unga þátttakendur BÍS áður en þeir sækja mögulega fundi eða námskeið erlendis. Þar hefur mátt bæta í efni fyrir þátttakendur sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Á fundinn kom Heidi Jokinen, heimsstjórn WAGGGS, og ræddi við okkur um hvernig bæta mætti áhrif ungra meðlima hreyfingarinnar í stjórnskipulagi WAGGGS. Gerðar voru tillögur sem sendar verða á undirbúningsnefnd næsta heimsþings í þeim tilgangi.

Fyrrverandi þátttakendur í World Scout Youth Forum WOSM kynntu reynslu sína og hvernig undirbúningi væri best hagað í hverju landi. Einnig voru gerðar tillögur um minniháttar breytingar á högum þingsins sem sendar verða til umsjónarmanna þess.

hopmynd-2

Mikilvæg reynsla möguleg fyrir tilstuðlan Erasmus+
Fyrir ungt ráð með þrjá nýlega ráðsmeðlimi var ferðin gríðarlega mikilvæg reynsla. Mikill lærdómur á stuttum tíma um uppbyggingu og áherslur WOSM & WAGGGS. Við hlökkum svo til að prufa nýja starfsaðferðir og hlutverkaskiptingu ráðsins.

Að lokum er rétt að ítreka að Erasmus+ bíður upp á fjölmarga möguleika fyrir hópa, skátasveitir, skátafélög eða aðra til að afla sér styrkja í samstarfsverkefnum við aðrar evrópuþjóðir. Hægt er að fræðast frekar um styrki á vefsíðunni www.euf.is. Einnig er mögulegt að hafa samband við Júlíus Aðalsteinsson í Skátamiðstöðinni s.550 9800 til að fá frekari upplýsingar.

hopmynd-1