Ungt fólk verður eftir næsta Skátaþing komið með meiri áhrif  en áður því kosið verður í fastaráð Bandalags íslenskra skáta (BÍS) eftir lögum sem samþykkt voru á Skátaþingi fyrir ári síðan. Samkvæmt nýju lögunum á að minnsta kosti einn fulltrúi í hverju fastaráði að vera á aldrinum 18-25 ára, auk þess sem allir í ungmennaráði eiga að vera á aldrinum 16-25 ára.

Skátaþing 2016 verður haldið dagana 11.-13. mars í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Þingið er opið öllum skátum en nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku eigi síðar en föstudaginn 4. mars.  Tillögur um fólk í fastaráð og til stjórnar óskast sendar eigi síðar en föstudaginn 19. febrúar kl. 12:00. Framboðum og tillögum má skila til uppstillingarnefndar með tölvupósti á netfangið uppstillingarnefnd@gmail.com

BB-myndir5
Það mæðir mikið á starfsmönnum Skátaþings hverju sinni. Júlíus og Dagbjört hafa verið í eldlínunni á Skátaþingum undanfarin ár, jafna í áratugi

Skátaþingin skemmtilegri þegar unga kynslóðin fjölmennir

„Það eru því mörg tækifæri fyrir unga skáta til þess að hafa áhrif á starfsemi BÍS,“ segir Júlíus Aðalsteinsson, félagsmálastjóri BÍS, en hann hefur umsjón með undirbúningi þingsins. Hann vill koma á framfæri hvatningu stjórnar BÍS, sem hvetur ungt fólk til þess að fjölmenna á þingið og taka virkan þátt í störfum þess. Uppstillingarnefnd BÍS hefur hafið störf og hvetur hún einnig unga skáta að gefa kost á sér til starfa í stjórn og fastaráðum.

„Ég vona að ungir skátar taki áskorun stjórnarinnar og fjölmenni á Skátaþing því þau geta verið mjög skemmtileg, sérstaklega þegar unga kynslóðin fjölmennir. Sjálfum fannst mér mjög skemmtilegt að taka þátt í Skátaþingi þegar ég var tæplega 17 ára gamall, svo skemmtilegt að ég er enn fastagestur,“ segir Júlíus. „Þá vona ég að sem felstir bjóði sig fram í stjórn og ráð BÍS þannig að uppstillingarnefnd þurfi ekki að fara um bæinn og grátbiðja fólk að taka að sér verkefnin“.

Samtal á Skátaþingi. Þinghlé eru vel nýtt.
Samtal á Skátaþingi. Þinghlé eru vel nýtt.

Kosið um fjórar stöður í stjórn og árviss endurnýjun í fastaráðum

Kosið verður um fjórar stöður í stjórn BÍS en það eru embætti skátahöfðingja og gjaldkera til þriggja ára og stöður formanna ungmennaráðs og upplýsingaráðs til eins árs.

Þá verður eins og lög gera ráð fyrir kosið í öll fastaráð og eru það fjórir fulltrúar í hvert til eins árs í senn. Þessi starfsráð eru alþjóðaráð, dagskrárráð, félagaráð, fjármálaráð, fræðsluráð, ungmennaráð og upplýsingaráð.

Endurskoðandi verður kjörinn og verða einstaklingar sem geta boðið sig til þess embættis að hafa löggildingu sem slikur. Einnig verður kjörinn félagslegur skoðunarmaður. Í bæði embættin er kosið árlega ti eins árs.

Í Skátarétt verða kjörnir tveir fulltrúar til þriggja ára og í uppstillingarnefnd verða kjörnir þrír fulltrúar til tveggja ára.  Þá er árlega kosinn fulltrúi BÍS til setu í Úlfljótsvatnsráði til eins árs.

Vegna hins nýja ákvæðis um að minnst einn fulltrúi í fastaráði skuli vera á aldrinum 18 – 25 ára má búast við að sjá ný andlit í framvarðasveit skáta eins og áður segir.

Í uppstillingarnefnd eru Ásta Ágústsdóttir, Björn Hilmarsson, Helga Rós Einarsdóttir, Sigurður Viktor Úlfarsson og Andri Týr Kristleifsson.

 

Tengt efni: