12717692_1528916890736284_6350352822040839348_nFyrsta skátapepp ársins verður eftir tvær vikur, síðustu helgina í febrúar og kallast það Hörkupepp  og telur Berglind „pepp“ það verða það kaldasta til þessa.  Pepp-hópurinn er búinn að leggja upp með frábærlega glaða og krefjandi dagskrá. Þar sem Skátapeppið í haust sprengdi alla skala í þátttöku verður að takmarka fjölda og gildir reglan „fyrstur kemur – fyrstur fær.“

Hörkupepp er opið fyrir dróttskáta í 10. bekk og rekkaskáta. Það takmarkar sjálfkrafa fjöldann að miða við 15 ára og eldri og  Harpa „pepp“ býst því við færri skátum en á síðasta skátapepp þegar Skátapepparar lyftu íbúatölu Grundarfjarðar yfir 1000 manna múrinn.

Föstudagur, laugardagur og sunnudagur verður besti dagurinn

Sigurgeir „pepp“ sagði í óspurðum fréttum að hann væri spenntastur fyrir föstudeginum, laugardeginum OG sunnudeginum. Á laugardeginum stefnir í heilmikið útivistarævintýri og ætlar hin þolimóða Anna Marta „pepp“ að gæta þess að enginn muni leggjast í rekkju á laugardagskvöldinu án þess að hafa tileinkað sér nýja kunnáttu í vetrarferðamennsku.

Marta „pepp“ ætlar að telja öllum trú um notagildi skátaklútsins og Sif „pepp“ vonar að á Hörkupeppinu verði allir glaðir þó vindar blási á móti í mikilli útiveru. Helgarferðir, helgarútilegur og vetrarferðamennska eru þau þrjú orð sem Kári „pepp“ ætlar að nota í sem flestum setningum og Gréta „pepp“ ætlar að minna alla á hvað það felur í sér að vera sveitarforingi.

Peppaðir með réttan búnað

Skilyrði fyrir þátttöku er að vera með viðeigandi útbúnað. Sjá útbúnaðarlista hér fyrir neðan. Kjarni dagskrárinnar er vetrarferðamennska og mun dagskrá að miklum hluta fara fram utandyra, en reynsla af vetrarferðamennsku er samt ekki skilyrði.

Skátapepp er foringjaþjálfun fyrir drótt-og rekkaskáta.

Peppupplýsingar með skráningatengli er í viðburðadagatalinu.