Bandalag íslenskra skáta (BÍS) eru landssamtök skáta og skátafélaga á Íslandi. BÍS er formlegur aðili að báðum heimsbandalögum skáta,  WAGGGS og WOSM, og ber þannig ábyrgð á að skátastarf á Íslandi sé í samræmi við grunngildi skátahreyfingarinnar. BÍS rekur Skátamiðstöðina sem staðsett er í Reykjavík og er þjónustumiðstöð fyrir skátafélögin í landinu, auk þess að vera aðalmálsvari skátahreyfingarinnar gagnvart erlendum og innlendum aðilum eins og stjórnvöldum, öðrum félagasamtökum og einstaklingum.

Skátaþing er haldið árlega og kýs það sjö manna stjórn BÍS sem ber ábyrgð á starfi bandalagsins. Með stjórninni starfa fagráð sem einnig eru kosin á Skátaþingi. Auk fagráðanna starfa á vegum BÍS margir langtíma og skammtíma vinnuhópar, eins og Úlfljótsvatnsráð sem ber ábyrgð á starfsemi skáta á Úlfljótsvatni, Gilwell-teymi sem er ábyrgt fyrir leiðtogaþjálfun fullorðinna sjálfboðaliða og mótsstjórnir sem standa fyrir Landsmótum skáta á nokkurra ára fresti. BÍS stendur fyrir viðamikilli útgáfu- og fræðslustarfsemi auk margs konar viðburða fyrir starfandi skáta á ólíkum aldursstigum.

Bandalag íslenskra skáta (BÍS) eða Skátahreyfingin, er landssamband íslenskra skáta.

Markmið Skátahreyfingarinnar 

Markmið skátahreyfingarinnar er að stuðla að uppeldi og þroska barna, unglinga og ungs fólks á þann veg að þeir einstaklingar sem „skátauppeldis” njóta verði sjálfstæðir og sjálfum sér nógir, en jafnframt virkir og ábyrgir samfélagsþegnar. – Samfélagsþegnar sem taka þátt í að bæta þann heim sem við búum í, náttúrulegt og menningarlegt umhverfi og samfélag manna, bæði það sem næst okkur er og á alþjóðavísu.

Hlutverk Skátahreyfingarinnar 

Hlutverk skátahreyfingarinnar er að gera heiminn betri.

Leiðtogi í eigin lífi 

Skátastarf er leiðtogaþjálfun – ekki í þeim skilningi að í skátastarfi séu einstaklingar einungis þjálfaðir til að stjórna öðrum heldur til að vinna með öðrum að settu marki og ekki síst að vera leiðtogar í eigin lífi.

Framtíðarsýn Skátahreyfingarinnar til ársins 2020
Árið 2020 verður skátahreyfingin á Íslandi orðin þekkt af stjórnvöldum og almenningi í landinu sem ein fremsta uppeldishreyfing á Íslandi með yfir 5000 starfandi skátum í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins, sem deila sameiginlegum gildum og hafa áhrif til góðs í samfélagi sínu og í heiminum öllum.
Lykilmálaflokkar eru:
  1. Efling ungs fólks til virkrar þátttöku og áhrifa
  2. Uppeldis- og menntunaraðferðir
  3. Fjölmenning og aðild minnihlutahópa
  4. Samfélagsleg áhrif
  5. Samskipti og almannatengsl
  6. Stjórnskipulag og stjórnsýsla

:: Hér má finna stefnumótunina í heild sinni til ársins 2020, sem samþykkt var á Skátaþingi 2015.