
Sex vaskir skátar hlupu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka síðastliðinn laugardag og stóðu sig með prýði. Þau söfnuðu áheitum til styrktar margra góðra málefna og safnaði hópurinn samtals 180.000 krónum.

Sex vaskir skátar hlupu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka síðastliðinn laugardag og stóðu sig með prýði. Þau söfnuðu áheitum til styrktar margra góðra málefna og safnaði hópurinn samtals 180.000 krónum.
Skátarnir taka þátt í Gleðigöngu Hinsegindaga í ár líkt og við höfum gert frá árinu 2014. Verkefnið hefur frá upphafi verið að frumkvæði einstaklinga úr röðum skátanna og stutt af landssamtökum skátanna. Það er alltaf mikil stemming og gleði yfir undirbúningi og framkvæmd hjá skátunum í tengslum við gönguna.
Í grunngildum BÍS stendur „Skátahreyfingin er opin fyrir alla sem fylgja markmiðum hennar, Grunngildum og Skátaaðferðinni, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna. Lokaákvörðunin um að taka þátt eða ekki er í höndum hvers og eins. Skátahreyfingin er ekki hreyfing fyrir útvalda.“
Þátttaka okkar í gleðigöngunni er til að undirstrika þessa stefnu og í von um að allir upplifi sig velkomna í skátastarfi.
Þema skátavagnsins í ár er ‚Rataðu út‘. Oft hefur það reynst mörgu hinsegin fólki erfitt að komast út úr skápnum og opinbera hinseginleika sinn fyrir fjölskyldu, vinum eða almenningi. Skátarnir vilja veita ungu fólki þann vettvang og stuðning sem það þarf til að finna sjálft sig. Í skátunum eru það meðmæli að vera öðruvísi og fjölbreytileikinn upphafinn í allri sinni mynd.
Gangan í ár hefst klukkan 14:00, laugardaginn 17. ágúst og gengið er frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuveg og endað á Sóleyjargötu við Hljómskálagarðinn þar sem taka við glæsilegir útitónleikar að göngu lokinni.
Við hlökkum mikið til að taka þátt og vonumst til þess að hitta sem flesta skáta niðri í bæ á laugardaginn að fagna fjölbreytileikanum með okkur!
Nú fer Alheimsmót skáta að bresta á. Spennan í hópnum magnast með hverjum deginum og allt er að verða tilbúið.
Eins og flestir skátar á Íslandi vita þá er mótið haldið í Vestur Virginíu í Bandaríkjunum.
Canada, Mexíkó og Bandaríkin standa sameiginlega að mótinu. Rúmlega 50.000 skátar frá 152 löndum munu sækja mótið sem er 24. alheimsmót skáta.
Frá Íslandi fara 172 skátar og eru 120 þeirra á þátttakendaaldri.
Gífurlega mikið er lagt í dagskrá á mótinu en m.a. verður hægt að fara í flúðasiglingar, klettaklifur, fræðast um mannréttindi og sjálfbærni, prófa risa BMX braut, brettasvæði og svo má ekki gleyma zip-line en þar er ferðast neðan í línu eins kílómetra vegalengd á um 80 km/klst hraða í um 100 metra hæð. Dagskráin stendur þannig vel undir einkunnarorðum mótsins sem eru friður, vinátta og ævintýri. Skátar frá öllum heimshornum koma saman til að fræðast og opna nýja heima og sýna skilning á mismunandi menningu hvaðanæva af úr heiminum í gegnum leik og starf. Þema mótsins er ,,Unlock new world“.
Mótssvæðið er á stærð við Akureyri eða á tæplega 4300 hektara svæði á Summit Bechtel Reserve en svæðið er gert sérstaklega fyrir skáta af skátum fyrir stórmót.
Búið er að ráða nýjan þjónustufulltrúa til BÍS sem mun taka sæti Unnar Lífar þegar hún fer frá okkur í ágúst. Viðkomandi kemur úr Fossbúum og heitir Hulda Mjöll Þorleifsdóttir.
Hún mun hefja störf 22. júlí.
Hulda hefur verið í hinum öfluga foreldrahóp Fossbúa og þekkir því ágætlega til skátastarfs. Hulda starfaði áður hjá Matvælastofnun/MAST á Selfossi.
Við bjóðum Huldu Mjöll hjartanlega velkomna til starfa.