Home Blog Page 202

Selirnir efla starfið

Leiðtogaþjálfun og önnur áhugaverð námskeið er meðal þess sem kynnt verður á hugmyndaþingi sem haldið verður í skátaheimili Kópa miðvikudaginn 13. nóvember kl. 20:00. Allir áhugasamir um skátastarf fullorðinna í Kópavogi eru velkomnir.

Það eru Selirnir, félag foreldra og annarra fullvaxta Kópa, sem býður í þennan selskap. ,, Við viljum ræða um skátastarfið frá okkar sjónarhorni sem foreldrar og eldri skátar, kynna hugmyndir um samvinnu og þátttöku í skátastarfi,“ segir Björk Norðdahl, en hún leiðir hóp sem vill efla þátttöku fullorðinna í skátastarfi.

Í gegnum skátastarfið bjóðast margvíslegir möguleikar á ferðum, skátamótum og einnig leiðtogaþjálfun. Björk bendir á handfast dæmi því til sönnunar: ,, Okkur stendur til dæmis til boða að sækja ókeypis námskeið í mannauðsstjórnun sem haldið verður laugardaginn 16. nóvember“.

,,Þegar fullorðnir koma inn í starfið skapast meiri möguleikar á að efla gæði starfsins og fjölbreytni,“ segir Björk. Sagt verður frá reynslu skátafélaga af slíku starfi. Áhugasamir um þetta starf geta skoða Facebook síðu Selanna

Hópurinn sem stendur að undirbúningi hugmyndaþingsins setti saman fjórar hugmyndir sem dæmi um þá möguleika sem eru. Þær væri hægt að útfæra svo með ýmsum hætti. Líklega verða þessar hugmyndir til að kalla fram aðrar og betri þegar fólk hittist. Hér má skoða þessi hugmyndablöð

Haustlitaferð eldri skáta

Árleg haustlitaferð eldri skáta verður farin laugardaginn 21. sept. kl. 10 frá Skátamiðstöðinni Hraunbæ 123 í Reykjavík, við hliðina á Bónus. Farið verður um slóðir Akranesskáta á Skaganum, í Skorradal og staldrað við í skátaskálanum, þar sem Svanna- og Rekka- sveitin tekur á móti okkur. Þaðan er haldið í Botnsdal, með viðkomu og í herminja-safninu að Hlöðum.

Þ:átttökugjald er aðeins kr. 4.500 og innifalið í því er rútuferðin, léttur hádegisverður og aðgangseyrir í herminjasafnið.

Áætluð koma aftur er klukkan 17.

Fararstjóri er Svavar Sigurðsson sem kemur úr röðum Rekka- og svannasveit Skáta-félagi Akraness. Í síðari hluta ferðarinnar verður Atli Smári Ingvarsson félagsforingi Skf. Smiðjuhópsins fararstjóri.

Dagskrá Haustlitaferðar – laugardaginn 21. september 2013:

  • 10:00: Brottför frá Skátamiðstöðinni, Hraunbæ 123.
  • 10:45: Komið upp á Akranes og skátaheimili og skátastaðir skoðaðir.
  • 11:30: Farið upp að Akrafjalli þar sem skátaskálinn var.
  • 12:30: Komið upp í Skorradal, skoðað og nokkrir skátasöngvar sungnir.
  • 13:30: Haldið að Hlöðum, Herminjasafn skoðað og skátasöngvar sungnir.
  • 15:00: Haldið í Botnsdal og litið yfir mótssvæðið.
  • 17:00: Komið aftur í Skátamiðstöðina í Hraunbæ.

Skráning fer fram á www.skatar.is og í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ, sími 550 9800.

Ný vefsíða fyrir þitt skátafélag?

Ókeypis vefsíða fyrir skátafélögin!

Samhliða vinnu við gerð kynningarvefsins www.skatarnir.is hefur verið unnið að gerð vefsíðu fyrir skátafélögin. Það hefur færst í aukst að skátafélögin hafa leitað til skrifstofu BÍS og óskað eftir aðstoð við gerð vefsíðu og nú hefur þessari þörf verið mætt. Hópur á vegum Upplýsingaráðs BÍS hefur skoðað heimasíður skátafélaganna í sumar og í kjölfarið unnið að gerð vefsíðu sem gæti verið „dæmigerð“.

Þessi „dæmi-síða“ hefur verið sett upp á léninu: http://demo6.tecnordix.is og býðst öllum skátafélögum að taka þessa vefsíðu í notkun sér að kostnaðarlausu.

Vefsíðan er unnin í vefumsjónarkerfinu WordPress sem er útbreytt og aðgengilegt vefumsjónarkerfi.

Þau skátafélög sem vilja nýta sér þetta tilboð eru hvött til leita sér nánari upplýsinga með því að hafa samband við skrifstofu BÍS í síma 550 9800 eða senda tölvupóst á netfangið gudmundur@skatar.is.

Bland í poka – kemur þú með?

Frábær helgi full af örnámskeiðum helgina 1.-3. nóvember. Haldið að Laugum í Sælingsdal fyrir alla áhugasama róverskáta og eldri.

Sveitarforingjar, stjórnir, baklönd, sjálfboðaliðar….. allir eru hvattir til að skella sér á þessa skemmtilegu helgi.

Hvernig væri að skella sér í endurnýtingarsmiðju eða koma öðrum á óvart í kökubakstri?

Hvað þarf að hafa meðferðis á landsmót eða bara i dagsferð?

Sjáðu tindinn, þarna fór ég, eða listin að sækja um styrki……

Byrja daginn á ferð í heita pottinn…. og enda daginn þar líka.

Að auki frábær félagsskapur heila helgi sem er bara fyrir þig……. Engir skátar með heimþrá eða illt í maganum.

Skráðu þig núna því aðeins er um 75 rúm að ræða þannig að fyrstur kemur fyrstur fær rúmstæði.

Hvað er „Messenger of Peace“?

WOSM með stuðningi konungs Sádí Arabíu hrintu af stað verkefninu Messenger of Peace á árinu. Verkefninu er ætlað að hvetja alla skáta til að taka þátt í einhverskonar verkefnum sem stuðlað geta að friði. Verkefnin geta verið stór og smá en eru skátarnir hvattir til að einbeita sér fyrst að nærumhverfi sínu. Bandalag íslenskra skáta átti þrjá fulltrúa á friðarmótinu í Sádí Arabíu þar sem verkefnið var formlega sett af stað, einn þeirra var Liljar Már frá Segli. Liljar á nú sæti í Norrænum samstarfshópi sem sér um að kynna verkefni fyrir skátabandalögum
á Norðurlöndunum. Það er mikill fengur fyrir okkur í Segli að eiga fulltrúa í slíkum starfshópum

Hvernig eru góð samskipti við fjölmiðla?

Sent út sem fjarfundur! Tilraun hjá okkur á Skátamiðstöðinni til að þjónusta betur skátafélög úti á landi.

Þeir sem fylgjast með fræðslukvöldinu á internetinu – vinsamlegast skráið ykkur líka hér!

Hlekkur fyrir fjarfund

Hafið samband við Ásu Sigurlaugu, í s: 864-2068, í kvöld ef vandamál verða með að fylgjast með okkur á internetinu.

Til að ná til almennings og skáta er mikilvægt að hlúa vel að samskiptum við fjölmiðla og sinna okkar eigin miðlum. Hvernig sjá fjölmiðlarnir okkur – hvar stöndum við okkur vel og í hvaða þáttum þurfum við að bæta okkur?

Allir 16 ára og eldri eru velkomnir – ekki er skilyrði að vera skáti.

Ókeypis fyrir alla!

1) Góð samskipti við fjölmiðla? – Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg leiðbeinir um hvernig hægt er að gera fjölmiðla að samherjum og fá birtar fréttir úr skátastarfi, um það hvers konar hegðun dregur að athygli fjölmiðla og hvað ber að varast í samskiptum við þá.

2) Með augum fréttastofunnar: Er skátastarf fréttnæmt? – Malin Brand, fréttakona á Mbl og áður á fréttastofu RÚV lýsir því hvernig skátarnir eru í augum fjölmiðla. Hún svarar spurningum og gefur góð ráð um fréttamennsku frá sjónarhóli blaðamannsins.

3) Hvernig skrifum við góða frétt? – Elín Ester Magnúsdóttir altmúligkona á Mogganum leiðir okkur í gegnum hvað það sé sem gerir frétt að góðri frétt: „Öngullinn“ sem grípur athygli lesandans; mikilvægustu upplýsingarnar; hver er tilgangurinn með fréttinni?

Skátarnir vilja blása til sóknar um bætta kynningu á starfi sínu. Vefurinn skatarnir.is opnaði í ágúst og unnið er að endurnýjun vefsins skatar.is, auk þess sem mörg skátafélög tóku boði Skátamiðstöðvar um nýja vefi. Á vegum upplýsingaráðs er unnið að ímyndarmótun og breyttri ásýnd skáta. Skátar eru hvattir til að sýna frumkvæði í kynningu á starfi sínu og miðla því til fjölmiðla.

Fræðslukvöldum BÍS er ætlað að gefa skátafélögum á Íslandi verkfæri til að efla skátastarf og leiða saman skáta, velunnara og áhugafólk um skátastarf til að eiga skemmtilega kvöldstund í þeim tilgangi að auðvelda skátafélögum að vinna að markmiðum skátahreyfingarinnar.

Allir 16 ára og eldri eru velkomnir á Fræðslukvöld BÍS. Skátafélög eru sérstaklega hvött til að láta foreldra og aðra úr stuðningsneti sínu vita af Fræðslukvöldunum og hvetja þá til að koma með.

Skráning hér

Nánari upplýsingar gefur

Ása Sigurlaug Harðardóttir, verkefnastjóri fullorðinsfræðslu BÍS

S: 550-9800

Netf: asa@skatar.is