Home Blog Page 201

Vetraráskorun Crean

Bandalag íslenskra skáta auglýsir eftir umsóknum um þátttöku í Crean-vetraráskoruninni árið 2014. Tveggja vikna útivistarævintýri og áskorun fyrir ungt fólk á aldrinum 14-15 ára (fæddir 1998-1999).

Verkefnið er samstarfsverkefni BÍS, Landsbjargar og Scouting Ireland. Frá Írlandi koma allt að 20 skátar sem farið hafa í gegnum langt umsóknar- og matsferli. Frá Landsbjörgu koma allt að 10 þátttakendur og frá BÍS allt að 10 þátttakendur.

Markmið verkefnisins er að þátttakendur verði færir um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Þeir læra undirstöðuatriði fjallaferða og vetrarferðamennsku. Meðal annars skyndihjálp á fjöllum, vetrarferðamennsku, rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, skálahegðun og ferðareglur í hópferðum, veðurfræði á fjöllum, og ýmislegt annað sem talið er skipta máli.

Verkefnið skiptist í vetrarferðir og verkefni unnin í frítíma.

Ferðirnar eru:

 • 22.-24. nóvember – í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Inni og útiverkefni í vetrarferðamennsku.
 • 10.-12. janúar – í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Gönguferð og verkefni í vetrarferðamennsku.
 • Vika í febrúar (nánari tímasetning síðar líklega 9.-16. feb) – Úlfljótsvatn og Hellisheiði. Verkefni og vetrarferð. Vikutími þar sem þátttakendur gætu þurft að taka frí í skóla.

Þátttakendur þurfa að mæta í allar ferðirnar.

Auk ferðanna þurfa þátttakendur að vinna heimaverkefni í formi leiðarbóka. Verkefnin eru á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðasetninga og samfélagsvinnu. Vinna þarf öll verkefnin á tilsettum tíma til að geta haldið áfram í verkefninu. Verkefnisstjórnin áskilur sér rétt til að enda þátttöku ef að þátttakendur eru ekki að standa skil á verkefnum eða sýna að þeir hafa ekki getu eða vilja til að ljúka verkefninu.

Kostnaður við ferðina er 39.000 á mann. Innifalið í því er allur matur í öllum ferðunum, gistingar og ferðir til og frá Skátamiðstöðinni. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér í Hraunbæ 123 og heim aftur.
Þátttakendur þurfa að hafa allan helsta búnað til vetrarferða s.s. góðan skjólfatnað, svefnpoka sem þolir vetrarveður, bakpoka og gönguskó. Ekki er nauðsynlegt að eiga klifurbúnað, ísaxir, brodda, skíði, tjöld eða eldunarútbúnað.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda kemst að í verkefninu. Umsóknir og umsagnir ráða úrslitum um hverjir eru teknir inn. Það er því mikilvægt að leggja mikið í umsóknina.

Umsækjendur þurfa jafnframt að gera sér grein fyrir að ætlast er til 100% þátttöku bæði í ferðum og í verkefnavinnu.

Umsókn:

Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í Crean- vetraráskorun þurfa að skrá sig í gegnum viðburðaskráningakerfi skátanna fyrir 1. nóvember.

Í gluggann sem heitir „upplýsingar til stjórnenda viðburðar“ þarftu að skrifa aðeins um þessi atriði:

 • Verkefni innan skátahreyfingarinnar.
 • Bæði foringjastörf (ef einhver) og verkefni s.s. ferðir og útilegur (Jamboree, fjallaferðir og annað slíkt).
 • Hvers vegna villtu taka þátt í Crean-vetraráskoruninni?
 • Hvernig telur þú að verkefnið muni nýtast þér í framtíðinni?
 • Hvernig muntu nýta það sem þú lærir fyrir skátana?

Skila þarf:
Leyfisbréfi frá foreldrum sem fæst hjá BÍS (taka þarf fram að umsækjandi fái frí í skóla sé það nauðsynlegt)
Umsögn frá skátaforingja og félagsforingja

Jón Ingvar viðburðastjóri Bís tekur við fylgigögnum í tölvupósti, jon@skatar.iseða útprentuðum á pappír og veitir frekari upplýsingar.

Viðburðarstjórnun og skipulagning skátastarfs

Gilwell-nemar sérhæfa sig eftir því hvort þeir eru á sveitarforingjaleið eða stjórnunarleið. Fjórða skrefið er næstsíðasta skrefið í Gilwell-leiðtogaþjálfun. (1. og 2. skref eru nauðsynlegir undanfarar).

Sveitarforingjaleið
Þátttakandinn:
– Skipuleggur dagskrárhring fyrir skátasveit
– Lærir aðferðir til að fá skáta til að hafa frumkvæði og taka þátt í ákvörðunum í skátastarfi
– Lærir á táknræna umgjörð skátastarfs
– Lærir leiðir til að hvetja skátana til skapandi verkefna
– Tekur virkan þátt í sameiginlegu mati Gilwell-þátttakenda

Stjórnunarleið
Þátttakandinn:
– Skipuleggur verkefni eða viðburð sem ætlaður er stórum hópum skáta frá mörgum skátafélögum
– Lærir á uppbyggingu skátahreyfingarinnar á Íslandi og á alþjóðavettvangi
– Lærir á fjáröflun, skipulagningu og stjórnun á stærri viðburðum og verkefnum við skátastarf, markaðsvinnu, rekstrarmál og skýrslugerð
– Lærir á helstu atburði sem skátum á Íslandi bjóðast utan við hefðbundið skátastarf í hverri skátasveit
– Tekur virkan þátt í sameiginlegu mati Gilwell-þátttakenda

Fullorðnir sjálfboðaliðar með góða leiðtogahæfni eru kjölfestan í skátastarfi. Gilwell-leiðtogaþjálfun eykur færni fyrir þetta mikilvæga hlutverk. Þar öðlastu þekkingu og færni til að leiða starfið á þeim fjölbreytta vettvangi sem skátastarf er. Gilwell-leiðtogaþjálfun eykur sjálfstraust og nýtist vel í atvinnulífinu.

Góður leiðtogi er ekki sá sem stjórnar eða leiðir aðra einhliða „eins og herforingi“. Góður leiðtogi getur unnið í teymi með öðrum og laðað fram það besta bæði hjá einstaklingum og hópum – og góður leiðtogi er líka „leiðtogi í eigin lífi“.
Skráning hér

Fyrir nánari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við undirritaða,
Ása Sigurlaug Harðardóttir, Verkefnastjóri fullorðinsfræðslu

80 skátar í heita pottinum

Smiðjuhópurinn og Miðjuhópurinn stóðu fyrir Smiðjudögum um helgina í Hveragerði. Tæplega 200 dróttskátar mættu til leiks og mikið fjörið. Mótið var að venju sett í sundlauginni og þar var haldið heljarinnar sundlaugapartý. Fjöldamet var slegið í heita pottinum, en 80 skátar náðu að troða sér í pottinn sem alla jafna tekur um 10 manns.

Laugardag var svo boðið upp á smiðjur og skemmtilegheit. M.a. Bananapíanó og brjóstsykursgerð.

JOTI/JOTA var hluti af dagskrá smiðjudaga eins og venja er.

Frekari myndir og lýsingar má sjá á fésbóksíðu miðjuhópsins: https://www.facebook.com/midjuhopurinn?fref=ts

Einnig má sjá frétt á Vísi um viðburðinn: http://www.visir.is/80-skatar-settu-nytt-met-i-heitum-potti/article/2013131018921

Fjölmiðlum varpað úr úr Skátamiðstöð

Nýbreytni var tekin uppá fræðslukvöldi í liðinni viku, en þá var fjarfundabúnaður notaður í fyrsta sinn. Flutt voru erindi um góð samskipti við fjölmiðla og var þeim varpað út frá Skátamiðstöðinni með fjarfundarbúnaði.

Tilraunin heppnaðist vel. Margir nýttu sér að tengjast, allt frá Mosfellssveit til Osló. Að þessu sinni var ekki opnað fyrir umræðu frá þátttakendum yfir netið, en það gæti orðið næsta skref. Umræður í skátamiðstöðinni voru hins vegar líflegar, en þangað mættu 15 manns. Góð þátttaka var frá stjórnum skátafélaganna.

Vilja bæta kynningu

Þrír fyrirlesarar komu með innlegg á fræðslukvöldinu og fjölluðu erindi þeirra meðal annars um hvernig við vekjum áhuga fjölmiðla á fréttum af skátastarfi, hvað það sé sem einkennir góða frétt og hvernig byggjum við upp gott samband við fjölmiðlafólk .

Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi og meðlimur í upplýsingaráði BÍS fjallaði um miðlun til fjölmiðla og önnur samskipti við fjölmiðlafólk. Hvað eigum við að leggja áherslu á og hvað ber að varast.

Malin Brand, fréttakona á Mbl og áður á fréttastofu RÚV, svaraði spurningunni hvort skátastarf væri fréttnæmt, séð með augum fréttastofunnar og gaf góð ráð um fréttamennsku frá sjónarhólifréttamannsins.

Elín Ester Magnúsdóttir,altmúligkona á Mogganum, leiðbeindi um fréttaskrif og fór yfir hvað gerir frétt að góðri frétt sem grípiathygli lesandans. Hvernig við meðhöndlum mikilvægustu upplýsingarnar og nauðsyn þess að hafa skýran tilgang með fréttinni?

Markmið í veganesti

Þema fræðslukvöldsins er í takt við áherslur skátahreyfingarinnar um bætta kynningu á starfinu. Fyrr á árinu var blásið til sóknar í vefmálum og í ágúst var tekinn í notkun vefurinn skatarnir.is og nú er unnið að endurnýjun vefsins skatar.is, auk þess sem mörg skátafélög eru að búa til nýja vefi. Á vegum upplýsingaráðsBÍS er unnið að ímyndarmótun og breyttri ásýnd skáta. Skátar eru hvattir til að sýna frumkvæði í kynningu á starfi sínu og miðla fréttum og efni til fjölmiðla.

Í lok fræðslukvöld settu þátttakendur sér markmið uppljómaðir af kraftastemningu kvöldsins og var nokkur sóknarhugur í forsvarsmönnum skátafélaganna. Spennandi verður að sjá þegar afraksturinn fer að skila sér í fjölmiðla og út á vefi skátafélaganna.

Fræðslukvöldin efla skátastarfið

Fræðslukvöldum BÍS er ætlað að efla skátastarf og leiða saman skáta, velunnara og áhugafólk til að eiga skemmtilega kvöldstund í þeim tilgangi að auðvelda skátafélögum að vinna að markmiðum sínum. skátahreyfingarinnar.Allir 16 ára og eldri eru velkomnir og eru skátafélög hvött til að bjóða foreldrum og öðrum velunnurum til fræðslukvöldanna.

Næsta fræðslukvöld fjallar um Markaðssetningu á netinu (Facebook, Instagram, Twitter) og verður 21. nóvember.

ÍTAREFNI – fræðsluerindi:

· Jón Halldór Jónasson, upplýsingafræðingur: Góð samskipti við fjölmiðla

· Malin Brand, fréttakona á Morgunblaðinu:Með augum fréttastofunnar: Er skátastarf fréttnæmt? [ tengill]

· Elín Ester Magnúsdóttir altmúligkona á Mogganum:Hvernig skrifum við góða frétt?

Jamboreefarar til Kanada 1983 hittust

Í október hittust tuttugu skáta sem fóru saman á Alheimsmót skáta í Kanda 1983 eða fyrir þrjátíu árum síðan.

Mættu skátarnir með minjagripi og myndir frá mótinu og ótrúlegu rútuferðunum sem voru fyrir og eftir mót. Flestir mættu með myndaalbúmin sýn þar sem í þá daga voru filmur í myndavélunum:-)

Mesta lukku vakti þó myndslæðusýning (slæds) Ingimars Eydal. Þetta mót var einstakt að því leit að þarna voru stúlkur í fyrsta sinn þátttakendur á mótinu. En á mótinu sem var á undan eða í Noregi 1975 þá voru konur fyrst í vinnubúðum.

Á mótinu í Kanada voru 15.600 þátttakendur frá 102 löndum og mig minnir að stúlkurnar haf verið um 700. Íslensku stúlkurnar fengu fína athygli. Einstaklega ánægjulegt var að hittast eftir svona mörg ár, hópurinn skemmti sér konunglega við að rifja upp sögurnar frá þessu skemmtilega móti. Komin er hópur á smettisskrudduni eða Facebook og eru 50 skráðir í þann hóp.

Skátaaðferðin – starfsgrunnur skáta

Hvað er það sem gerir skátastarf að skemmtilegu ævintýri með skýr uppeldismarkmið? Hvernig fer það starf fram? Skátaaðferðin – starfsgrunnur skáta er fyrsta skrefið í Gilwell-leiðtogaþjálfun.
Sérstök áhersla er lögð á:

 • Skátaaðferðina og mismunandi útfærslur hennar fyrir aldursstigin fimm (drekaskáta, fálkaskáta, dróttskáta, rekkaskáta og róverskáta). Athyglinni er sérstaklega beint að flokkakerfinu og táknrænni umgjörð skátastarfs.
 • Stigvaxandi áherslu á sjálfstæði, virkni og ábyrgð skátanna eftir aldri þeirra og þroska.
 • Notkun handbóka fyrir sveitarforingja.
 • Hvað er það sem gerir skátafundi og skátaviðburði árangursríka?
 • Hvernig virkjum við ungt fólk?
 • Fullorðnir sjálfboðaliðar með góða leiðtogahæfni eru kjölfestan í skátastarfi. Gilwell-leiðtogaþjálfun eykur færni fyrir þetta mikilvæga hlutverk. Þar öðlastu þekkingu og færni til að leiða starfið á þeim fjölbreytta vettvangi sem skátastarf er. Gilwell-leiðtogaþjálfun eykur sjálfstraust og nýtist vel í atvinnulífinu.
 • Góður leiðtogi er ekki sá sem stjórnar eða leiðir aðra einhliða „eins og herforingi“. Góður leiðtogi getur unnið í teymi með öðrum og laðað fram það besta bæði hjá einstaklingum og hópum – og góður leiðtogi er líka „leiðtogi í eigin lífi“.

Skráning hér

Um greiðslu: Skátaaðferðin – starfsgrunnur skáta (1. skref) tilheyrir fyrri hluta Gilwell-leiðtogaþjálfunar.
Fyrri hlutinn (1. og 2. skref) kostar samtals kr. 9.500,- og má greiða sér.

Gilwell-leiðtogaþjálfun kostar samtals kr. 49.500,- (fyrri og seinni hluti, samtals 5 skref)

Fyrir nánari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við undirritaða,
Ása Sigurlaug Harðardóttir, Verkefnastjóri fullorðinsfræðslu

asa@skatar.is