Home Blog Page 2

Stefnumótunardagur BÍS

Sunnudaginn 10. nóvember 2019 verður stefnumótunardagur BÍS haldinn í Skátamiðstöðinni, Hraunbæ 123, milli klukkan 10 og 16.  Þá gefst skátum tækifæri til að móta framtíð BÍS, koma sínum skoðunum á framfæri og hafa áhrif.  Húsið opnar klukkan 9:30 og boðið verður upp á léttar veitingar yfir daginn.

Ekki láta þetta tækifæri til að móta framtíð skátahreyfingarinnar á Íslandi framhjá þér fara, skráðu þig á http://skatar.felog.is/

VINNUHÓPUR – WORLD THINKING DAY

Auglýst er eftir sjálfboðaliðum í vinnuhóp sem mun þýða og staðfæra dagskrárpakkann fyrir World thinking day 2020 sem WAGGGS þróaði og setti saman. World thinking day er dagur alþjóðlegrar vináttu þar sem skátar út um allan heim hugsa hlýtt til annarra skáta og lýsa þökkum og þakklæti. Dagurinn er haldinn 22. febrúar en sá dagur var valinn vegna þess að það er afmælisdagur bæði Lord Baden-Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar og Olave Baden-Powell, sem var World Chief Guide. Dagskrárpakkinn skiptist í þrjú þemu:

  • LEIÐTOGI
  • FJÖLBREYTNI, SANNGIRNI OG ALLIR MEÐ
  • FRIÐARUPPBYGGING

Frekari upplýsingar eru hér að neðan og áhugasamir skulu hafa samband við kolbrun@skatar.is.

Hvaða kröfur þarf ég að uppfylla til að vera með?

Við óskum eftir fólki sem er:

  • 16 ára og eldri
  • Fært í ensku
  • Áhugasamt um að fræðast betur um World thinking day og dagskrárpakkann

ÞÝÐING

Bæklingur sem segir frá World thinking day og öllum verkefnunum er á ensku. Flest ungmenni kunna góða ensku og gott að geta nálgast efnið á ensku líka en kapp er þó lagt á að sem mest af stuðningsefni BÍS sé á íslensku og því þarf að þýða öll verkefnin.

TÍMALÍNA

Vinnuhópurinn mun hittast 4 sinnum fram að desember, fara yfir stöðu verkefnis og skipta þeim verkefnum á milli sín sem eftir eru. Áætluð skil eru um mánaðarmótin nóvember / desember. Áhugasamir hafi samband við kolbrun@skatar.is.

Vetraráskorun Crean

Bandalag íslenskra skáta (BÍS) ) auglýsir eftir umsóknum um þátttöku í Vetraráskorun Crean árið 2019-2020. Tveggja vikna útivistarævintýri og áskorun fyrir ungt fólk á aldrinum 14-15 ára (fæddir 2004-2005). Crean vetraráskorun hefur verið haldin síðustu átta ár. Verkefnið hefur verið gríðar vel sótt og þátttakendur sammála um að það sé bæði spennandi og skemmtilegur viðburður.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir og skal skila þeim fyrir föstudagsins 1. nóvember nk. Áhugasamir geta einnig haft samband við Silju með tölvupósti, silja@skatar.is.

Verkefnið er samstarfsverkefni BÍS og Scouting Ireland. Frá Írlandi koma allt að 20 skátar sem farið hafa í gegnum langt umsóknar- og matsferli. Frá BÍS allt að 20 þátttakendur. Markmið verkefnisins er að þátttakendur verði færir um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Þeir læra undirstöðuatriði fjallaferða og vetrarferðamennsku. Meðal annars skyndihjálp á fjöllum, vetrarferðamennsku, rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, skálahegðun og ferðareglur í hópferðum, veðurfræði á fjöllum, og ýmislegt annað sem talið er skipta máli. Verkefnið skiptist í vetrarferðir og verkefni unnin í frítíma. Ferðirnar eru:

-17. nóvember 2019 – helgi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Inni og útiverkefni í vetrarferðamennsku.
-12. janúar 2020 – helgi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Gönguferð og verkefni í vetrarferðamennsku.
Vikan 14.-21. febrúar 2020 – Úlfljótsvatn og Hellisheiði. Verkefni og vetrarferð. Vikutími þar sem þátttakendur gætu þurft að taka frí í skóla.
Þátttakendur þurfa að mæta í allar ferðirnar. Auk ferðanna þurfa þátttakendur að vinna heimaverkefni í formi leiðarbóka. Verkefnin eru á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðasetninga og samfélagsvinnu. Vinna þarf öll verkefnin á tilsettum tíma til að geta haldið áfram í áskoruninni. Verkefnisstjórnin áskilur sér rétt til að enda þátttöku ef að þátttakendur standa ekki skil á verkefnum eða sýna að þeir hafa ekki getu eða vilja til að ljúka verkefninu.

Kostnaður við Vetraráskorun Crean er 50.000,- kr. á mann. Innifalið í því er allur matur í öllum ferðunum, gistingar og ferðir til og frá Skátamiðstöðinni. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér í Hraunbæ 123 og heim aftur. Þátttakendur þurfa að hafa allan helsta búnað til vetrarferða s.s. góðan skjólfatnað, svefnpoka sem þolir vetrarveður, bakpoka og gönguskó. Ekki er nauðsynlegt að eiga klifurbúnað, ísaxir, brodda, skíði eða tjöld.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda kemst að í verkefninu. Umsóknir og umsagnir ráða úrslitum um hverjir eru teknir inn. Það er því mikilvægt að leggja mikið í umsóknina. Umsækjendur þurfa jafnframt að gera sér grein fyrir að ætlast er til 100% þátttöku bæði í ferðum og í verkefnavinnu. Umsókn: Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í Crean- vetraráskorun þurfa að sækja um fyrir 1.nóvember. Skráning fer fram hér.

Þessi umsókn er einn af mikilvægustu þáttunum sem stjórnendur viðburðarins líta til við inntöku þátttakenda og því er mikilvægt að vanda hana eins vel og kostur er.

Skila þarf eftirfarandi fylgigögnum:

Umsögn frá skátaforingja og félagsforingja, en skátaforinginn og/eða félagsforinginn skal senda umsögnina beint á Silju á netfangið silja@skatar.is
Fylgigögnum skal skilað á tölvupósti á netfangið silja@skatar.is.

Berist ekki eitthvað af þessum þrem þáttum umsóknarinnar (skrifleg umsókn, leyfisbréf og umsögn frá foringjum) telst umsóknin ekki gild.

Fyrir hönd Crean-teymisins,

Silja Þorsteinsdóttir

Skátapepp í Búðardal

Skátapepp var haldið í Búðardal 27. til 29. september og var tekið ótrúlega vel á móti skátunum. Þema námskeiðsins var ofurhetjuþema og voru allir ráðgjafar í glæsilegum búningum og þurftu allir flokkar að finna sinn eiginn ofurkraft. Markmið námskeiðsins var að kynna dagskrárhringinn fyrir skátunum og hvernig hægt er að nýta hann við skipulag skátastarfs.Skipuleggjendur ákváðu að hafa þema dagskrárhrings helgarinnar færnimerki skátanna. Eftir að hafa fundið flokkana sína þurftu skátarnir því að skipuleggja sína eigin dagskrá með því að velja úr nokkrum færnimerkjum sem þeir ætluðu að reyna að klára á þremur fundum sem þeir höfðu yfir helgina. Var lögð áhersla á að skipuleggja fundina og kynnt mikilvægi þess að setja og slíta fundi.

Flokkarnir unnu að hinum ýmsu færnimerkjum. Þar á meðal færnimerkið Kokkur þar sem einn flokkur hélt núðluveislu úti og aðstoðaði við kjötsúpugerð. Einnig unnu margir að færnimerkinu Skapa þar sem meðal annars voru föndraðar skikkjur og Powerpuff girls málaðar á stein. Var haldin glæsileg kvöldvaka þar sem flokkarnir kynntu ofurkrafta með skemmtilegum atriðum. DJ Vaskur tók svo við og keyrði upp stemninguna á dansgólfinu.

Á lokadegi námskeiðsins hittust flokkarnir og fóru yfir helgina. Var metið hvað fór vel, hvað illa og hvort skátarnir ættu skilið að fá færnimerki eftir fundi helgarinnar. Á slitum voru færnimerki afhent og veitt verðlaun fyrir ofurhetjuleikana miklu sem var keppni á milli flokkana í fjölbreyttum og skemmtilegum þrautum sem þau unnu að yfir helgina.

Eftir slit var haldið í óvissuferð að Fellsendaréttum þar sem var vel tekið á móti skátunum og margir fengu að taka þátt í réttum í fyrsta sinn. Eftir fjörugar réttir var tekið stutt stopp á Erpsstöðum, borðaður ís, klappað kanínum og haldið svo heim á leið.

Skátamiðstöðin lokuð frá kl 14:30 á föstudag vegna starfsdags

Skátamiðstöðin lokar kl 14:30 á morgun föstudaginn 4. október vegna starfsdags starfsfólks. Við bendum ykkur á að senda fyrirspurn á skatar@skatar.is og við svörum strax eftir helgi.

Netnámskeið – Verndum þau opið

Æskulýðsvettvangurinn ásamt hópi fagaðila í barnaverndarmálum hefur á síðustu mánuðum unnið að því að setja á laggirnar netnámskeið í barnavernd fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Námskeiðið var opnað formlega í gær fimmtudaginn 26. september með móttöku fyrir þá sem komu að verkefninu.

Við hvetjum alla til að taka þátt.

namskeid.aev.is/courses/barnavernd