Home Blog

200 skátar í ferðum um helgina!

Um helgina ver heldur betur mikið um að vera hjá skátunum!
Hátt í 200 skátar tóku þátt í hinum ýmsu viðburðum sem fóru fram um helgina.

Jamboree farar fóru í undirbúningsútilegur til að gera sig klár og hrista saman hópinn fyrir ferðina á alheimsmót í sumar. Jamboree sveitirnar sem fóru í útilegu voru Garmur sem fór í útilegu á Akureyri og Huginn og Muninn fóru til Vestmannaeyja. Hóparnir skemmtu sér mjög vel og spennan magnast fyrir mótinu í sumar!

Einnig var drekaskátadagurinn haldinn við Hvaleyrarvatn og heppnaðist mjög vel. Drekaskátarnir leystu ýmsar þrautir og léku sér við vatnið og í skóginum í kring, þau stóðu sig eins og hetjur og drukku verðskuldað og langþráð heitt kakó að lokinni dagskrá.

Dróttskátadagurinn á Selfossi

Síðasta laugardag fór fram dróttskátadagur á Selfossi. Þetta er í fyrsta skipti sem dróttskátadagurinn er haldinn og allt gekk mjög vel.

Rúmlega 40 dróttskátar komu og tóku þátt í dagskránni, sem var krefjandi póstaleikur á víð og dreif um Selfoss. Þrautirnar voru ýmiskonar, til dæmis heilabrot, stærðfræðiþrautir, morse skilaboð, þrautabrautir, blindandi tjöldun og margt fleira.

Dróttskátarnir skemmtu sér konunglega og LJÓNIN unnu bikarinn!

Margir dróttskátar gistu á Selfossi og eyddu tíma með nýjum vinum, einnig var frítt í sund fyrir skáta yfir helgina og lang flestir nýttu sér það sem viðauki við dagskránna.

Vetraráskorun Crean

Vaskir dróttskátar luku vetraráskorun Crean um helgina!

Skátarnir stóðu sig frábærlega í þessari áskorun og allt gekk eins og í sögu.

Fyrir ferðina var mikið lagt í undirbúning hjá þátttakendum og nú hafa þau hlotið þjálfun í meðal annars skyndihjálp á fjöllum, vetrarferðamennsku, rötun og kortalestri, GPS, næringarfræði ferðamannsins, skálahegðun og ferðareglum í hópferðum, veðurfræði á fjöllum og ýmsu öðru.

Þessi áskorun er samstarfsverkefni við skátana í Írlandi og kom stór hópur af írskum skátum og tóku þátt með dróttskátunum okkar.

Þau eiga öll hrós skilið og eru þvílíkir dugnaðarforkar!

Morse skilaboð á Dróttskátadeginum

Smellið hér til þess að hlusta á morse skilaboðin.

Vinnuhópur – ‘In the shoes of the migrant’

Auglýst er eftir sjálfboðaliðum í vinnuhóp sem mun þýða og staðfæra borðspilið ‘In the shoes of the migrant’  sem WOSM og WAGGS í Evrópu þróuðu. Tilgangur spilsins er að veita ungmennum óformlegan og lifandi vettvang til að fræðast um og ímynda sér aðstæður flóttafólks og fólks á farandsfæti.
Frekari upplýsingar eru hér fyrir neðan en áhugasamir skulu hafa samband við sigurgeir@skatar.is

Hvað kröfur þarf ég að uppfylla til að vera með?:
Við óskum eftir fólki sem er
– 16 ára og eldri
– Fært í ensku
– Ástríðufullt
– Áhugasamt um að fræðast betur um þessi málefni á Íslandi
– Hefur þegar reynslu af þessum málefnum á Íslandi

Gagnaöflun:
Í spilinu eru margar spurningar og efni unnið út frá tölfræði, reglugerðum, lögum og aðstæðum Evrópusambandsríkja. Mikið af því á erindi við íslensk ungmenni en annað í spilinu er nokkuð fjarri þeirra veruleika.
Mikið af gögnum er að finna á opinberum vefsíðum stofnanna sem má nýta til að semja spurningar og fleira sem spinnist inn í spilið sem fræðir ungmenninn í leiðinni um íslenskar aðstæður flóttamanna og fólks á farandsfæti.

Þýðing:
Spilið sjálft, spurningarnar, leiðbeiningarnar og fræðslubæklingur sem fylgir spilinu er allt á ensku. Flest ungmenni kunna auðvitað góða ensku og gott er að eiga enska útgáfu líka en kapp er þó lagt á að sem mest af stuðningsefni BÍS sé á íslensku.
Þess vegna þarf að þýða alla reiti og stuðningsefni með spilinu.

Aðgerðir:
Spilið er ekki eingöngu hannað til að skapa lifandi aðstæður fyrir ungmenni til að fræðast um og velta fyrir sér málefnum flóttafólks og fólks á farandsfæti heldur einnig til að hvetja þátttakendur til þess að grípa til aðgerða í sínu nærumhverfi. Þess vegna fylgir ‘Get Active’ bæklingur spilinu en hann er órjúfanlegur hluti spilsins. Þar er sagt frá flottum verkefnum annarra landssamtaka skáta í Evrópu en við viljum einnig segja frá sjálfboðaliða reknum verkefnum hérlendis, t.a.m. þeim sem Rauði krossinn stendur fyrir.
Kostur væri ef vinnuhópurinn myndi einnig kynna sér önnur sjálfboðaliðasamtök sem vinna að málaflokknum og þeirra verkefnum til að segja frá þeim.

Innleiðing:
Þegar spilið er tilbúið þarf að fræða sjálfboðaliða innan hreyfingarinnar og jafnvel víðar um það og notkun þess. Mikilvægt er að spilið sé kynnt vel því tilgangur þess er göfugur og mikilvægt er að rétt sé farið að með ungmennunum okkar.

Tímalína:
Vinnuhópurinn mun hittast stöku sinnum í vor og fram að sumri, fara yfir stöðu verkefnisins og skipta þeim verkefnum sem eftir eru á milli sín. Áætluð skil vinnunnar eru í byrjun sumars. Áhugasamir hafi samband við sigurgeir@skatar.is

No photo description available.

Ungmennaþing 2019

Mynd - Margrethe

Ungmennaþing fór fram í Borgarnesi um helgina. Mætingin í ár sló öll met og voru hvorki meira né minna en 50 þátttakendur!

Þátttakendur voru ánægðir með dagskrá helgarinnar og andinn í hópnum var frábær! Ýmis mikilvæg málefni voru rædd á þinginu, meðal annars aðgengi ungs fólk að ákvarðanatökum innan BÍS, kosningaaldur, foringjaþjálfun og umhverfismál hjá skátahreyfingunni á Íslandi. Kosið var um þau mál sem Ungmennaþing myndi leggja fram á Skátaþingi og það verður spennandi að sjá hvað þau ná langt!

Ungmennaþing sannaði sig enn og aftur sem frábær vetvangur fyrir ungt fólk í hreyfingunni til þess að hafa áhrif og ræða sín málefni og þeirra starf.

Ungmennaþing var í annað skipti heil helgi þar sem dagskráin var blanda af almennum þingstörfum, hópefli og eflingu rekka- og róverskátastarfs. Settur var saman hópur af rekka- og róverskátum sem ætla að hrinda í framkvæmd nokkrum dagskrárhugmyndum fyrir rekka- og róverskáta.

Rekka- og róverskátar skemmtu sér konunglega í hinum ýmsu leikjum og verkefnum um helgina, og ekki má gleyma að nefna árshátíðina sem fór fram á laugardagskvöldinu! Nú hefur skapast hefð fyrir því að halda árshátíð rekka- og róverskáta samhliða Ungmennaþingi, og hún hefur slegið rækilega í gegn.