Landsmót fálkaskáta heppnaðist stórkostlega vel!

Fálkaskátar flykktust saman á Laugar í Sælingsdal og tóku þátt í frábærri dagskrá að víkingasið.
Dagskráin sló í gegn! Þar var farið í ýmsar þrautir og leiki, lært að skilmast, föndrað, sungið, gengið, hlegið og hlaupið. Svo fátt eitt sé nefnt. Meira að segja skein sólin á skátana um helgina!

Fálkaskátarnir settu upp tjaldbúð og fengu tækifæri til að spreyta sig í matseld og tjaldbúðavinnu.

Stemmingin var frábær á svæðinu og allir fóru kátir og glaðir heim eftir æðislegt mót! Mótsstjórn á stórt hrós skilið og við hrópum „B-R-A-V-Ó!“ fyrir þeim.

Takk fyrir frábært mót allir sem að því komu, og við hlökkum til næsta móts.

Hér má sjá fleiri myndir frá mótinu. 

Öðru af fjórum landsmótum aldursbilanna lauk í gær. 
Dróttskátar settu mótið sitt í Viðey síðasta miðvikudag og var því slitið seinnipartinn í gær, sunnudag.

Margt var bardúsað á mótinu, flekagerð og siglingar, sig og klifur, gönguferðir, menningaferðir og fleira.

Mörg skátamót hafa verið haldin í Viðey með tilheyrandi „Viðeyjarmóts-dagskrá“ og margar helstu hefðir Viðeyjarmóta voru hluti af dagskrá landsmóts dróttskáta.
Til dæmis var dansað dátt á Bryggjuballi og fótboltamót var haldið á milli dagskrárliða!

Haldnar voru fjörugar kvöldvökur, skátarnir æfðu sig í að kveikja eld og gerðu skemmtilega keppni úr því og á laugardegi grilluðu allir saman yfir langeldi.

Síðast en ekki síðst má segja að dróttskátar lærðu og æfðu sig í að hafa ofan af fyrir sjálfum sér, sem oft er eitt af því sem dróttskátar gera best. Skáti er jú sjálfstæður.

Dróttskátar eru uppátækjasamir og láta veðrið ekki stoppa sig í að hafa gaman!
Skoðaðu myndirnar til þess að fá tilfinningu fyrir stemminguninni á landsmóti dróttskáta.

Smelltu hér til að sjá mynda-albúmið.