Home Blog

Laust starf: Þjónustufulltrúi skátamiðstöðvarinnar

Skátamiðstöðin leitar að þjónustu- og upplýsingafulltrúa í fullt starf við fjölþætt skrifstofustörf, upplýsingamiðlun, verslunarrekstur og verkefnastjóra fyrir mismunandi vinnuhópa innan skátahreyfingarinnar.

Leitað er að aðila sem á auðvelt með að vinna í hópastarfi, getur unnið sjálfstætt, sýnir frumkvæði og á auðvelt með að vinna með ungu fólki. Þetta er fullt starf með aðstöðu í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 í Reykjavík. Vinnutími er alla jafna frá 9-17 virka daga.

Starfssvið m.a.:

 • Annast almenna móttöku, umsjón með kaffistofu, símsvörun
 • Annast skráningu á viðburði, kennslu og vinnu við Nóra félagatal
 • Fylgja eftir innheimtumálum
 • Undirbúa og ganga frá eftir stjórnarfundi
 • Aðstoða við markaðssetningu, skipulagningu og undirbúning viðburða
 • Sjá um heimasíðumál, þriðjudagspóst, fréttaskrif og innsetningu frétta
 • Stýra verkefna- og vinnuhópum um málefni skátahreyfingarinnar
 • Annast almenn samskipti við skáta og aðildarfélög
 • Sjá um verslunarrekstur á skátavörum

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Menntun sem nýtist í starfi
 • Góð almenn tölvukunnátta (ritvinnsla – gagnagrunnar)
 • Reynsla af frétta- og greinaskrifum
 • Góð mannleg samskipti
 • Sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði
 • Æskilegt að hafa starfað sem skáti

Skátamiðstöðin þjónustar skátafélög landsins, annast útgáfumál, fræðslumál, alþjóðleg samskipti, fjáraflanir, sameiginlega viðburði og önnur þau verk sem lúta að rekstri landshreyfingar æskulýðssamtaka. Hjá skátahreyfingunni starfar samhentur hópur atvinnufólks og sjálfboðaliða að því að efla skátastarf í landinu.

Áhugasömum er bent á að senda umsóknir og/eða fyrirspurnir á netfangið: sigridur@skatar.is  Allar nánari upplýsingar veitir Sigríður skrifstofustjóri, í síma 550-9800.

Umsóknarfrestur er til 15. júní nk. Viðkomandi þarf að geta hafið störf seinni hluta júlí

Sumardagurinn fyrsti 2019

Skátadagskrá sumardagsins fyrsta 2019

Um árabil hafa skátar um allt land tekið virkan þátt í og jafnvel haft yfirumsjón með hátíðarhöldum á sumardeginum fyrsta. Í ár er dagskráin sérstaklega glæsileg en um allt land munu skátar leiða skrúðgöngur og hafa umsjón með stórskemmtilegri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Dagskrá skátanna er listuð hér að neðan í stafrófsröð bæjarfélaga og dagskrá skáta í Reykjavík er síðan neðst á síðunni í stafrófsröð eftir hverfum.

Kassaklifur verður í boði á ýmsum stöðum á sumardaginn fyrsta

Akranes – Skátafélag Akraness
Skátarnir á Akranesi munu standa fyrir skrúðgöngu sem hefst klukkan 10:30 við skátaheimili þeirra í Háholti 24. Gengið verður að Akraneskirkju þar sem skátamessa  hefst klukkan 11:00.

Akureyri – Skátafélagið Klakkur
Skátarnir á Akureyri munu standa fyrir skrúðgöngu sem hefst klukkan 10:30 við Giljaskóla. Gengið verður að Glerárkirkju þar sem skátamessa hefst  klukkan 11:00.

Búðardalur – Skátafélagið Stígandi
Skátarnir í Stíganda munu taka þátt í skátamessu sem hefst klukkan 11:00 í Hjarðarholti þar sem Anna Eiríksdóttir sóknarpressur messar. Milli klukkan 13:00 og 15:30 verður síðan opið hús hjá skátunum í Dalabúð þar sem gestum verður boðið að taka þátt í leikjum, verkefnum og þrautum bæði innan- sem utandyra. Klukkan 15:30 hefst síðan vöffluhlaðborð í Dalabúð fyrir litlar 1.000,- kr. á mann, vöffluhlaðborðið er fjáröflun á vegum Tydalfara.

Garðabær – Skátafélagið Vífill
Skátar í Garðabæ standa fyrir skátamessu í Vídalínskirkju sem hefst klukkan 13:00. Að henni lokinni, klukkan 14:00, mun Vífill leiða skrúðgöngu frá Vídalínskirkju að Hofsstaðaskóla. Dagskrá hefst við Hofsstaðaskóla klukkan 14:30 en þar verða leiktæki, veltibíllinn og skemmtiatriði ásamt því sem Hjálparsveit skáta í Garðabæ verður með kynningu. Sjoppa verður á staðnum en einnig verður skátakaffi milli 15:00 og 17:00 í samkomusal Hofsstaðaskóla.

Grundarfjörður – Skátafélagið Örninn
Skátarnir í Grundarfirði munu standa fyrir fjallgöngu á sumardaginn fyrsta fyrir skáta og fjölskyldur þeirra. Gengið verður upp með Ytri Búðá sem er létt ganga við allra hæfi og ekki skemmir veðurspáin fyrir heldur. Stoppað verður á leiðinni til að skoða gilið, fossinn og klettana ásamt því sem tími verður til að leika sér.

Hafnarfjörður – Skátafélagið Hraunbúar
Skátarnir í Hafnarfirði standa fyrir skátamessu í Víðistaðakirkju sem hefst klukkan 13:00. Að henni lokinni munu Hraunbúar leiða skrúðgöngu frá Víðistaðakirkju að Thorsplani. Klukkan 14:00 hefst síðan fjölskyldudagskrá á Thorsplani í umsjón skátafélagsins Hraunbúa. Þar munu skátarnir bjóða gestum að taka þátt í kassaklifri og prófa hoppukastala,einnig verður selt góðgæti úr sjoppu. Samhliða verður glæsileg dagskrá á sviði þar sem m.a. fram koma Svala Björgvins, trúðurinn Wally, Dansíþróttafélag Hafnafjarðar, leikfélag Flensborgarskólans, söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Dementz og kynnir verður Jón Jónsson.

Flest skátafélög verða með hoppukastala í sinni dagskrá
Í Hafnarfirði eru hátíðarhöldin á sumardaginn fyrsta hluti af Björtum dögum
Skátar um allt land verða með allskyns skemmtilegar þrautir og leiki

Hveragerði – Skátafélagið Strókur
Skátarnir í Hveragerði standa fyrir fjölskyldumessu í Hveragerðiskirkju klukkan 11:00. Eftir messu verður gestum boðið upp á súpu í skátaheimili Stróks, Breiðumörk 22, en súpan er í boði skátagildisins.

Kópavogur – Skátafélagið Kópar
Skátarnir í Kópavogi leiða skrúðgöngu sem hefst klukkan 13:30 við Digraneskirkju. Gengið verður í Fífuna þar sem glæsileg dagskrá í umsjón skátanna hefst klukkan 14:00. Fjöldinn allur af hoppuköstulum verður á svæðinu en einnig verður dagskrá á sviði þar sem  fram koma m.a. Leikhópurinn Lotta, nemendur úr Álfhólsskóla flytja atriði úr Grease og Erla Gerður sigurvegari söngkeppni félagsmiðstöðva í Kópavogi flytur lag. Skátarnir sinna einnig veitingasölu fyrir svanga gesti.
Skátagildin í Kópavogi bjóða síðan upp á kvöldvöku í skátaheimili Kópa, Digranesvegi 79, klukkan 18:00.

Mosfellsbær – Skátafélagið Mosverjar
Skátarnir í Mosfellsbæ standa fyrir frábæru fjöri. Dagskráin hefst með skrúðgöngu frá bæjartorginu en gengið verður að íþróttasvæðinu að Varmá. Klukkan 13:30 hefjast hátíðarhöldin við íþróttamiðstöðina en gestir geta prófað hoppukastala, spreytt sig á skátaþrautum, farið í kassaklifur og fari fólki að hungra verður Boozt-hjólið, grillaðar pylsur og heitar vöfflur ekki langt undan.

Reykjanesbær – Skátafélagið Heiðabúar
Skátarnir í Reykjanesbæ leiða skrúðgöngu sem hefst klukkan 12:30. Gengið verður frá skátaheimili Heiðabúa, við Hringbraut 101, að Keflavíkurkirkju þar sem haldin verður skátamessa sem hefst klukkan 13:00.
Að lokinni messu verður samverustund í skátaheimilinu þar sem kaffi og veitingar verða í boði fyrir gesti.

Hoppukastalar henta ungum sem öldnum

Sauðárkrókur – Skátafélagið Eilífsbúar
Skátarnir á Sauðarkóki hjálpa til við að setja lit á hátíðarhöldin með því að draga íslenska fánann að húni fyrir einstaklinga og fyrirtæki og að taka hann niður að degi loknum.

Selfoss – Skátafélagið Fossbúar
Skátarnir á Selfossi leiða skrúðgöngu sem hefst 13:00 frá ráðhúsi Árborgar, eftir Austurvegi, Reynivelli og Engjaveg inn í garð Glaðheima, skátaheimilis Fossbúa. Klukkan 13:45 hefst síðan dagskrá í Glaðheimum þar sem gestir og gangandi geta reynt við allskyns þrautir, farið í hoppukastala og bakað yfir eldi í umsjón skátanna.
Dagskráin er hluti af fjölskylduleiknum  „Gaman saman“ sem verður í gangi í vor  í Árborg. Dagskrá lýkur kl. 16:00.


Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur fært hátíðarhöldin í hverfunum að sundlaugum Reykjavíkur og verða skátafélögin í Reykjavík að sjálfsögðu ómissandi hluti af þeirri dagskrá. Einnig standa skátar í Reykjavík fyrir hluta dagskrár í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum ásamt því að taka þátt í tveimur hverfahátíðum til viðbótar og því er úr nægu að velja á sumardaginn fyrsta fyrir Reykvíkinga. Þátttaka í þessum hátíðarhöldum er ókeypis en sömuleiðis verður ókeypis í allar sundlaugar Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á sumardaginn fyrsta.

Árbær – Skátafélagið Árbúar
Skátafélagið Árbúar stendur fyrir skrúðgöngu í samstarfi við Árbæjarkirkju. Skrúðgangan hefst klukkan 11:00 og gengið verður frá Árbæjarsafni að Árbæjarkirkju en að skrúðgöngu lokinni verður haldin fjölskyldustund í Árbæjarkirkju klukkan 11:30.
Eftir að dagskrá lýkur í Árbæjarkirkju mun skátafélagið standa fyrir stórskemmtilegum póstaleik sem hefst klukkan 12:30 við Árbæjarsundlaug en verðlaun verða í boði fyrir þátttakendur en einnig verður hægt að tálga, fara í hoppukastala og grilla yfir opnum eldi. Foreldrar og börn geta síðan kynnt sér hinn geysivinsæla Útilífsskóla Árbúa og einnig keypt léttar veitingar af félaginu.

Fossvogur og Hvassaleiti – Skátafélagið Garðbúar
Skátarnir í Garðbúum eru sannkölluð sumarbörn og verða því á tveimur stöðum yfir daginn. Félagið verður með hoppukastala og kandýfloss í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá 11:00 til 13:30.
Skátar úr félaginu verða einnig viðstaddir hátíðarhöldin í Fossvoginum en klukkan 12 verða þeir með pylsur í Grímsbæ en leggja síðan af stað í skrúðgöngu frá  Grímsbæ klukkan 13:00 en gengið verður yfir í Bústaðarkirkju en þar tekur við 40 mínútna dagskrá á vegum kirkjunnar. Klukkan 14:00 hefst síðan hátíð í Víkinni þar sem ýmsir aðilar verða með dagskrá og skátarnir standa fyrir leikjum, hoppuköstulum og lopasleikjóum.

Laugardalur – Skátafélagið Skjöldungar
Skátarnir í Skjöldungum stýra skrúðgöngu sem hefst klukkan 12:30 við Skjöldungaheimilið, Sólheimum 21a. Gengið verður að  Laugardalslaug en þar hefjast hátíðarhöld klukkan 13:00 og skátarnir hafa umsjón með hoppuköstulum, stýra hópleikjum og skátaþrautir verða í boði Útilífsskóla Skjöldunga og áhugasamir geta kynnt sér námskeið Útilífskólans í sumar. Skátarnir standa einnig fyrir sölu á ýmsu góðgæti í sölutjaldi en salan er fjáröflun fyrir unga skáta félagsins sem halda til Bandaríkjanna á alþjóða skátamót í sumar.

Breiðholt – Skátafélögin Hafernir og Segull
Skátafélögin tvö í Breiðholti taka höndum saman á Sumardaginn fyrsta með glæsilega dagskrá á tveimur stöðum. Frítt verður í Breiðholtslaug á Sumardaginn fyrsta og  milli 10 – 12 verður hægt að taka þátt í ratleik og fara í hoppukastala við laugina. Einnig verða seldar pylsur og lopasleikjó.
Klukkan 13 hefst síðan dagskrá í Félagsmiðstöðinni Hólmaseli 4-6 en þar verður hægt að fá andlitsmálningu, fara í hoppukastala og taka þátt í ratleik. Þá verður seldur lopasleikjó og grillaðar pylsur.
Samhliða því verða flott atriði á klukkutíma fresti en Leikhópurinn Lotta stígur á svið klukkan 13:00, BMX brós verða á ferli klukkan 14:00 og síðan verður siguratriði  „Breiðholt Got Talent“ flutt klukkan 15:00.

Hlíðar, Háaleiti, Miðbær – Skátafélagið Landnemar
Skátar úr Landnemum munu bjóða gestum að prófa hoppukastala við Sundhöll Reykjavíkur milli 13 og 16

Grafarvogur, Grafarholt, Úlfársdalur – Skátafélagið Hamar
Skátafélagið Hamar tekur þátt í skemmtanahaldi við Grafarvogslaug sem hefst 13:00. Félagið mun sinna hoppuköstulum þar sem gestir geta hoppað en skátarnir munu einnig selja grillaðar pylsur og geta bæði þeir sem borða kjöt og ekki fengið pylsur við sitt hæfi. Dagskrá lýkur klukkan 16:00.

Vesturbær – Skátafélagið Ægisbúar
Skátar úr Ægisbúum verða með hoppukastala fyrir utan Vesturbæjarlaug milli 11 og 13, þá munu þeir dreifa auglýsingum um Útilífsskóla Ægisbúa sem hefst aftur eftir tíu ára hlé nú í sumar.

Auglýsingar frá félögunum

Ungt fólk og umhverfismál

Á miðvikudaginn hélt NORDBUK, ásamt Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, viðburðinn „Youth Leading a Sustainable Lifestyle“. Um 70 norræn ungmenni tóku þátt í viðburðinum ásamt umhverfisráðherrum Norðurlandanna og fyrirtækjum frá Norðurlöndunum. Skátarnir fengu einnig að taka þátt með nokkrum ungum skátum sem vilja vera virkari í sjálfbærum lífsstíl og læra hvernig skátarnir geta tekið virkan þátt í að byggja betri heim.

Yfirskrift viðburðarins var „Heimsmarkmið 12: Ábyrg neysla og framleiðsla – Trygging sjálfbærrar neyslu- og framleiðslustarfsemi“ þar sem að allir á Norðurlöndunum geta, og þurfa, raunverulega að vinna að þessu heimsmarkmiði. Sem dæmi er hluti af markmiði 12 að stefna að því að minnka matarsóun heimsins um helming fyrir árið 2030, þar sem að um þriðjungur allra matvæla í heiminum fara til spillis.

Mynd: Danska sendiráðið

Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, er ungmennafulltrúi Íslands

í Nordbuk. “Markmið ráðstefnunnar var að færa Norðurlöndin nær heimsmarkmiði númer 12. Það var því vel til fundið að bjóða ráðherrum, stjórnendum í íslensku atvinnulífi og fjölbreyttum hópi ungs fólks. Þannig leiddum við saman ástríðu, hugrekki, reynslu og völd. Sem er nákvæmlega sú formúla sem við þurfum á að halda til að ná heimsmarkmiðunum. Það er því mikilvægt að ungt fólk sé með í ráðum þegar ákvarðanir sem hafa áhrif á framtíðina eru teknar.”

 

Ráðstefnan var haldin í Hörpu og tók Marta einnig þátt í pallborðsumræðum þar sem henni gafst m.a. tækifæri til að spyrja umhverfisráðherra Norðurlandanna um hvað Norðurlöndin þurfa að gera meira af til að ná Parísarsamkomulaginu: “Ég var ánægð að heyra að ráðherrarnir eru með ýmsar aðgerðaráætlanir um aukna ungmennaþáttöku, en ég hefði viljað að þeir hefðu veitt djarfari svör um náttúruvernd, það var það sem ráðstefnan vildi heyra því djarfar lausnir og breytingar er það sem þarf til að vernda náttúruna, núna strax.“

Margrethe Grønvold Friis, annar erindreka BÍS, fékk einnig að leiða hringborðsumræður með áherslu á hvernig við, í gegnum menningu og menningarviðburði, getum fundið lausnir saman til að ná heimsmarkmiði 12.

“Fyrir mig var mjög mikilvægt að fá fólk saman til að eiga opið samtal og komast dýpra í hvernig við getum framkvæmt aðgerðir sem hafa mikil áhrif. Ég tel það vera mjög mikilvægt að fá eins marga og hægt er til að vera meðvitaða um Heimsmarkmiðin og að við munum öll sjá heimsmarkmiðin sem okkar eigin markmið sem hjálpa okkur að taka ákvarðanir í okkar daglega lífi. Ég sé menningarviðburði eins og hátíðir og skátamót sem gott dæmi um hvernig við getum fengið mörg ungmenni til að hugleiða neysluvenjur sínar og hvaða áhrif neysluhyggja þeirra hefur á umhverfið. Einnig að við getum sýnt að það er ekki erfitt að gera stórar breytingar á því sem við erum að kaupa og hvers konar mat við borðum.” segir Margrethe.

Ásgerður Magnusdóttir tók þátt í hringborðsumræðum um úrgangsmetakerfið en það er ákveðið kerfi sem segir til um aðgerðir til að minnka og stjórna úrgangi.

„Það var mjög áhugavert að fá innsýn í hvernig verið er að reyna að minnka rusl og auka endingartíma hluta í hinum Norðurlöndunum. Í umræðunum vorum við sammála um að þetta snerist aðallega um viðhorfsbreytingu sem er vonandi nú þegar hafin um neysluvenjur fólks. Markviss neysla þýðir minni úrgangur. Ef maður kaupir minna og er meðvitaðari um það sem maður er að kaupa þá er það góð byrjun.“

Mynd: Margrethe Grønvold Friis

Eitt sem var ljóst á fundinum er að allir geta unnið að markmiði 12.8 sem er: Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að fólk um allan heim sé upplýst og meðvitað um sjálfbæra þróun og hvernig það getur lifað í sátt við náttúruna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hélt ávarp á viðburðinum og sagði að loftslagsverkföllin hafa virkileg áhrif á hana og hina sem sitja á Alþingi.

Síðan skátastarf byrjaði hefur alltaf verið lögð mikil áhersla á að skáti sé náttúruvinur. Skátar á Íslandi hafa alltaf reynt að hafa þetta að leiðarljósi í sínu starfi en í ljósi stöðu loftslagsmála í dag er þetta málefni orðið mun mikilvægara en áður. Þess vegna ákvað hópur skáta að mæta á loftslagsverkfallið á Austurvelli í dag og mótmæla stöðu loftslagsmála. Loftslagsverkföllin voru stofnuð af sænska umhverfis aktivístanum Gretu Thunberg og hafa náð fótfestu um allan heim undanfarna 2 mánuði.

Á seinasta skátaþingi var sett fram þingsályktun sem hvatti skátafélögin og BÍS til þess að vera umhverfisvænni í sínu starfi. Út frá því myndaðist mikil umræða og varð þá ljóst að skátar geta gert mun meira fyrir umhverfið. Í kjölfar þess verður lögð meiri áhersla umhverfismál innan bandalagsins á komandi mánuðum. Að sjálfsögðu tengjast umhverfismálin einnig heimsmarkmiðunum sem eru stór partur af skátastarfi um þessar mundir. Eru því allir skátar hvattir til að sýna fyrirmynd í verki og hjálpa skátafélögunum og BÍS að gera skátastarf eins umhverfisvænt og hægt er.

—-

Markmið skátastarfs frá upphafi hefur verið að skapa betri heim. Það gerum við með því að halda í heiðri grunngildi skátahreyfingarinnar og efla ungt fólk til að vera ábyrg og virk í samfélaginu. Það sem við gerum í skátastarfi á því alltaf á einn eða annan hátt að færa okkur nær heimsmarkmiðunum. Til að skerpa enn betur á þessu og vinna markvisst að heimsmarkmiðunum í skátastarfi þá getur þú fengið hugmyndir að verkefnum og hugleiðingum úr Byggjum betri heim bæklingnum.

Viltu hafa áhrif? Senn lýkur útkalli (e. open call) í “Stýrihóp Heimsmarkmiða í skátastarfi”. Ertu með djarfar hugmyndir um hvernig skátahreyfingin getur lagt enn meira af mörkum til heimamarkmiðanna? Kynntu þér málið hér.

Skátaþing 2019

Nýskipuð stjórn BÍS
Frá vinstri;
Jón Halldór Jónasson, formaður upplýsingaráðs
Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi
Dagmar Ýr Ólafsdóttir, aðstoðarskátahöfðingi
Sævar Skaptason, formaður fjármálaráðs
Jón Ingvar Bragason, formaður alþjóðaráðs
Ásgerður Magnúsdóttir, formaður ungmennaráðs
Björk Norðdahl, formaður fræðsluráðs
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, formaður upplýsingaráðs

 

Um helgina fór fram hið árlega Skátaþing. Þingið var sett á föstudegi á Hotel Borealis og því var slitið í Skátamiðstöðinni Úlfljótsvatni að kvöldi laugardags. Almenn ánægja ríkir innan hreyfingarinnar og skátar eru spenntir fyrir komandi misserum.

Á þinginu var rætt um starfið í Skátahreyfingunni, kosið var um starfsáætlun komandi ára og í embætti í stjórn hreyfingarinnar. Ákveðið var meðal annars að leggja frekari áherslu á umhverfismál meðal skáta á Íslandi og umhverfisstefna Bandalags íslenskra skáta verður endurskoðuð í þeim tilgangi að minnka enn frekar kolefnafótspor skáta.

Yngsti og elsti þátttakandi Skátaþings 2019

Á laugardaginn var brotið blað í sögu skátahreyfingarinnar á Íslandi þegar samþykkt var með miklum meirihluta atkvæða að skátar 16 ára og eldri fengju kosningarétt á Skátaþingi. Jafnframt stendur framvegis í lögun Bandalags íslenskra skáta að æskilegt sé að af þeim fjórum atkvæðum sem hvert félag fer með sé eitt þeirra í höndum einstaklings á aldrinum 16 – 25 ára.

„Valdefling ungmenna er eitt það mikilvægasta sem skátahreyfingin gerir og með því að lækka kosningaaldurinn er verið að sjá til þess að rödd ungra skáta heyrist í ákvarðanatökum innan hreyfingarinnar.“ segir Ásgerður Magnúsdóttir nýkjörin formaður ungmennaráðs Bandalags íslenskra skáta.

Starfsmannaskráning á drekaskátamót

Smelltu hér til að skrá þig sem staff.

Tökum þátt í Bláum apríl!

Kæru skátar, við hvetjum ykkur til þess að taka þátt því mikilvæga vitundar- og styktarátaki sem Blár apríl er!

Klæðumst bláu 2. apríl til að vekja athygli á Bláum apríl og merkjum myndir af því með #blarapril

Blár apríl – styktarfélag barna með einhverfu stendur að bláa deginum og markmið átaksins er að vekja athygli á einhverfu og afna fé til styrktar málefnum er varða börn með einhverfu. Öll starfsemi styktarfélagsins er unnin í sjálfboðavinnu og allt styktarfé rennur óskert til söfnunarátaksins.

Allar frekari upplýsingar um Bláan apríl má finna á heimasíðu þeirra, blarapril.is