Skátamiðstöðin leitar að þjónustufulltrúa í fullt starf við fjölþætt skrifstofustörf, verslunarrekstur og  verkefnastjóra fyrir mismunandi vinnuhópa innan skátahreyfingarinnar.

Leitað er eftir aðila sem á auðvelt með að vinna í hópastarfi, getur unnið sjálfstætt, sýnir frumkvæði og á auðvelt með að vinna með ungu fólki.  Þetta er fullt starf með aðstöðu í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 í Reykjavík. Vinnutími er alla jafna frá 9-17 virka daga.

Starfssvið m.a.:

 • Annast almenna móttöku, umsjón með kaffistofu, símsvörun
 • Annast skráningu á viðburði
 • Aðstoða við markaðssetningu, skipulagningu og undirbúning viðburða
 • Sjá um heimasíðumál, þriðjudagspóst og innsetningu frétta
 • Stýra verkefna- og vinnuhópum um málefni skátahreyfingarinnar
 • Annast almenn samskipti við skáta og aðildarfélög
 • Sjá um verslunarrekstur á skátavörum

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Menntun sem nýtist í starfi
 • Góð almenn tölvukunnátta (ritvinnsla – gagnagrunnar)
 • Reynsla af frétta- og greinaskrifum
 • Góð mannleg samskipti
 • Sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði
 • Æskilegt að hafa starfað sem skáti

Skátamiðstöðin þjónustar skátafélög landsins, annast útgáfumál, fræðslumál, alþjóðleg samskipti, fjáraflanir, sameiginlega viðburði og önnur þau verk sem lítur að rekstri landshreyfingar æskulýðssamtaka.  Hjá skátahreyfingunni starfar samhentur hópur atvinnufólks og sjálfboðaliða að því að efla skátastarf í landinu.

Áhugasömum er bent á að senda umsóknir og/eða fyrirspurnir á netfangið: sigridur@skatar.is.  Allar nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Sigríði skrifstofustjóra, í síma 550-9800.

Umsóknarfrestur er til 31. janúar nk. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Á skátaþingi sem haldið verður í Menntaskólanum við Hamrahlíð helgina 6. – 7. apríl n.k. verður kosið í 41 embætti í stjórn og fastaráðum BÍS. Uppstillingarnefnd hvetur skáta sem hafa áhuga og hugsjónir fyrir skátastarfi í landinu að skoða þau embætti sem eru laus til kjörs, að gefa kost á sér til starfa og hvetja aðra til þess.

Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi hlutverk óskast sendar uppstillingarnefnd hið fyrsta og eigi síðar en 16. mars kl. 12:00.

Tilkynningar um framboð þurfa að berast skriflega eða í tölvupósti á netfang uppstillingarnefndar uppstillingarnefnd@gmail.com.

Hér má finna lista yfir þau embætti sem eru laus til kjörs.

Þó að ekki sé WSM í sumar þá er 2018 er sprengfullt af skemmtilegum viðburðum og uppákomum framundan.

Vetrarskátamót Skátasambands Reykjavíkur verður 26.-28. janúar. Helgina eftir er komið að Ungmennaþingi á Úlfljótsvatni og svo Norðan-Gilwell sem verður haldið á Akureyri 9.-10. febrúar. Þá sömu helgi munu öflugir dróttskátar frá Íslandi og Írlandi taka þátt í Crean – vetraráskorun og takast á við vetrarríki Hellisheiðarinnar.

Drekaskátadagurinn 4. mars verður án efa stórkostlega skemmtilegur enda alltaf fjör þegar hundruð drekaskáta koma saman.

Páskarnir eru frábær tími fyrir útilegur og útivist og við erum sannfærð um að skátafélögin nýti sér það.

Skátaþing mun fara fram í Menntaskólanum í Hamrahlíð 6.-7. apríl.

Svo brestur sumarið á með fyrsta degi sumars og Hrolli – Ævintýralegri útivistaráskorun Mosverja.

Fyrsta mótið í röð aldursbila er svo landsmót drekaskáta helgina 9.-10. júní.  Dróttskátar fá sitt landsmót 20.-24. júní í Viðey og fálkaskátar hittast á landsmóti fálkaskáta að Laugum í Sælingsdal dagana 5.-8. júlí. Rekka-og róverskátar munu hefja sitt landsmót í Landmannalaugum og ganga yfir í Þórsmörk dagana 12.-15. júlí.

Einnig verða eflaust margir á faraldsfæti erlendis í sumar og tveir hópar fara á vegum BÍS á erlend skátamót. Stór hópur fer væntanlega á Roverway í Hollandi, en það mót er ætlað rekka- róverskátum og er þeirra Evrópumót. Einnig fer hópur dróttskáta á Euro Mini Jam sem eru smáþjóðaleikar Evrópuskáta og er mótið að þessu sinni haldið í Færeyjum.

Nú þegar er stór hópur farinn að undirbúa sig fyrir ferð á World Scout Jamboree sem verður haldið í Norður Ameríku sumarið 2019 og sjáum við fram á að íslenski hópurinn verði mjög öflugur þar sem margir eru búnir að forskrá sig í ferðina.

Það er því nóg af spennandi áskorunum framundan fyrir skáta á öllum aldri.

Höldum áfram að stunda frábært skátastarf fullt af ævintýrum og gleði!

:: Smelltu hér til að skoða skátadagatalið.