Þau Margrethe Grønvold Friis frá Danmörku og Sigurgeir Bjartur Þórisson hafa verið ráðin sem erindrekar hjá Bandalagi íslenskra skáta. Markmið með starfi erindreka er að efla starf skátafélaga í landinu og vinna að því að fjölga skátum í starfi, sjá nánar hér.

Margrethe Grønvold Friis hefur margra ára reynslu af starfi með ungu fólki og sjálfboðaliðum í skátastarfi. Hún hefur víðtæka reynslu af skipulagi þjálfunar og eflingar sjálfboðaliða og utanumhald og samræmingu sjálfboðastarfs. Margrethe er með kennsluréttindi og mastersgráðu í  kennslufræðum og breytingastjórnun. Margrethe hefur bæði reynslu af starfi með dönsku skátahreyfingunni sem og í verkefnum fyrir WOSM og WAGGS.

Sigurgeir Bjartur Þórisson hefur verið öflugur í skátunum í fjölda ára í ýmsum verkefnum. Hann hefur víðtæka tengingu í skátastarfið á Íslandi í gegnum ótalmörg verkefni, má m.a. nefna að hann hefur verið sveitarforingi, í stjórn Landnema, í mótsstjórnum, fararstjóri á erlend skátamót, er einn af stofnendum Skátapepps, unnið sem sumarbúðaliði og verið skólastjóri útilífsskóla skáta. Sigurgeir starfaði sl. ár við tilraunaverkefni á vegum Skátasambands Reykjavíkur þar sem aðaláherslan var á að styðja við sveitarforingja í Reykjavík í þeirra starfi. Þar reyndi á frumkvæði og hugmyndavinnu sem nýtist vel í starfi erindreka. Sigurgeir hefur setið í nokkur ár í fjármálaráði BÍS og í stjórn Grænna skáta. Þá hefur hann unnið í frístundamiðstöðvum fyrir börn og unglinga með fatlanir og við önnur félagsleg úrræði fyrir börn. Sigurgeir er menntaður í hagfræði.

Sigurgeir hefur störf um miðjan ágústmánuð og Margrethe kemur til starfa í byrjun september.
Við bjóðum þau Margrethe og Sigurgeir hjartanlega velkomin til starfa!