Erlendir skátar skunda á Þingvöll:

Raddir ungs fólks alls staðar að úr heiminum hljómuðu á Þingvöllum í dag en þar söfnuðust erlendir skáta saman til þinghalds. Tilgangur þingsins er að kynnast lýðræði, hvernig það virkar og skoða málefni sem snerta ólík samfélög. Sameiginleg ályktun þingsins verður send til heimsstjórnar skáta, WOSM. Seinni dagur þings er á morgun.

Svokallað Youth Forum er einn liður í dagskrá alþjóðlega skátamótsins, World Scout Moot sem nú stendur yfir á Úlfljótsvatni. Alls 5.000 skátar frá um 100 þjóðlöndum eru á svæðinu og eru tveir dagar notaðir í hópastarf. „Það var lang mestur áhugi fyrir svokölluð Youth Forum eða þingi unga fólksins”, segir Dagmar Ýr Ólafsdóttir, sem heldur utan um verkefnið.

Hún segir að tæplega 1200 skátar hafi sótt um að taka þátt í þingstarfinu og var því ákveðið að halda þingið tvo daga í röð og gæta þess að hlutur kynjanna væri jafn og hvor hópur endurspeglaði allan heiminn. „Það má eiginlega segja að þetta séu nokkurs konar þjálfunarbúðir fyrir verðandi þingmenn í 106 löndum, segir Dagmar Ýr.

Vettvangur til að kynnast lýðræði

Þingið er vettvangur til þess að kynnast lýðræði og hvernig það virkar og verða niðurstöðurnar kynntar í lok skátamótisins og síðan verðar þær kynntar heimsstjórn skáta í þeirri von að þær muni verða teknar framtíðarskipulag stjórnarinnar.

Skátarnir fara með rútum frá Úlfljótsvatni til Þingvalla en þingið hefst um kl. 09.00 og stendur yfir allan daginn.  Dagmar Ýr segir að sjálfur þingstaðurinn, Þingvellir, hafi sterkt aðdráttarafl fyrir erlendu skátana en þeim er ljóst að þar var alþingi Íslendinga frá 930-1798 og að staðurinn er á náttúruminjaská UNESCO.

Meðal þema sem rædd verða á þinginu eru jafnrétti, menntun, atvinnuleysi, umhverfismál, flóttamenn og margt fleira.

Youth Forum er einn liður í dagskrá alþjóðlega skátamótsins, World Scout Moot sem nú stendur yfir á Úlfljótsvatni. Ljósmynd: Fredrik Sahlström