Hlutverk foringja í skátastarfi er ekki bara að halda utan um skátafundi, merkja við börnin og kenna þeim skemmtilega skátaleiki. Eitt af stærstu hlutverkum þeirra er að vera einn af þeim einstaklingum sem taka þátt í uppeldi barnanna, efla þau og þroska á sínum forsendum. Því eins og máltækið segir „það tekur heilt þorp að ala upp barn“. Skátaforingja ber að vera faglegur í samskiptum við börnin og koma fram við börnin á jafningjagrundvelli en um leið vera leiðbeina skátunum á uppbyggilegan hátt. Virðing og traust er fyrst og fremst það sem þarf að einkenna góð samskipti á milli foringja og skáta.

Kristjana S. Sveinsdóttir, Skátafélaginu Stróki skrifar um Skátastarf sem uppeldishreyfingu

Uppeldishlutverkið

Já ég er foreldri, en samt sem áður hefur það verið mitt helsta verkefni að kljást við þá skemmtilegu skáta sem eru í skátaflokknum mínum. Börn eru jafn misjöfn og þau eru mörg og við veljum ekki börnin inn í skátaflokkinn okkar. Börn eru svo heppin að það eru allir velkomnir í skátana og eru þá hinir ýmsu persónuleikar sem hefja skátastarf. Einstaklingar með mismunandi bakgrunn og mismunandi uppeldi, einstaklingar með mismunandi sýn á lífið og mismunandi skoðanir. Þetta, og svo miklu miklu meira, eru hlutir sem við þurfum að taka tillit til þegar við erum skátaforingjar. Því það er okkar verkefni að börnunum finnist þau öll vera velkomin og þau séu öll samþykkt.

Sem drekaskátaforingi, hef ég þurft að kljást við einstaklinga sem ég persónulega myndi ekki velja í flokkinn, já ég sagði þetta, þessa týpísku óþekku krakka sem geta gert mann gráhærðan á einni sekúndu. En ég hef líka upplifað fullkomna breytingu á barni eftir nokkra fundi, þar sem barnið fór að eflast og verða öruggara og fór þá að sýna sínar allra, allra bestu hliðar og barnið sem kom á fyrstu fundina var bara ekki líkt þeim einstaklingi sem var farin að leiða hópinn í krefjandi verkefnum. Traust og virðing skapaðist á milli foringja og barnsins og barnið sá með tímanum að ákveðin hegðun skilaði ekki því sem það hélt og hegðunin breyttist í kjölfar aga og samvinnu allra. En það eru einmitt þessir einstaklingar sem fá mann stundum til að efast um eigin hæfni til þess að starfa með börnum, í augnablik veltir maður því fyrir sér hvers vegna maður leggur það á sig að mæta á skátafundi til að láta öskra á sig. En jafnframt eru það þessir einstaklingar sem fá mann til þess að vera fullkomlega öruggan með að maður sé að vinna gott starf þegar maður fær einn daginn faðmlag frá þeim alveg óvænt og án orða.

Það er mér eitt atvik minnisstæðast þar sem drekaskáti, sem reynt hafði mikið á taugar foringjana, kastar hlut þvert yfir herbergið með þeim afleðingum að verkefni annars hóps skemmist. Ég snöggreiðist og æsi mig mikið við drekaskátan, en um leið og ég hafði sleppt orðinu vissi ég að þetta var ekki rétt leið til þess að ná til viðkomandi og vissi jafnframt að þetta voru ekki viðbrögð sem voru fagleg af skátaforingja. Ég tók sjálfa mig taki og ræddi við skátann á rólegum nótum sem virkaði mun betur en æsingurinn. Ég var líka farin að þekkja einstaklinginn betur en svo að ég ætti að vita að það væri eins og að kasta olíu a eldinn að æsa sig við viðkomandi.

Þetta atvik minnti mig jafnframt á að við erum öll mannleg og þá sérstaklega þegar kemur að samskiptum, við getum öll stigið feilspor og sagt eithvað eða gert eithvað sem okkur finnst eftir á erfitt að kyngja að hafi verið viðbrögð okkar. En til þess að hægt sé að læra af reynslunni þá þurfum við stundum að setjast niður og fara yfir hvað sé hægt að gera betur.

Að lokum

Þetta verkefni fékk mig til að renna yfir samskipti mín við börnin undanfarin tvö ár. Það er margt sem reynir á taugarnar en í flestum tilfellum tekst manni að vinna með þeim einstaklingum og fá þau á sitt band. Þegar börnin sem eiga við hegðunarvandamál að stríða takast á við mjög krefjandi verkefni, sem viðkomandi segist ómögulega geta leyst af hendi, og verkefnið tekst dásamlega vel og barnið fyllist stolti. Þá fyllist ég líka stolti, það segir mér að barnið geti blómstrað á sínum forsendum í flokknum hjá mér og fái það umhverfi og rými til að dafna. Þá er ég viss um að ég sé á réttri hillu og samskiptin séu í þokkalegu róli þó svo ég efist stundum um mig. Stoltið lætur mig halda áfram að mæta á fundi og halda áfram að starfa sem hluti af þorpinu sem elur upp barnið.

 

Kristjana Sigurveig Sveinsdóttir

Drekaskátaforingi í Stróki