Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti World Scout Moot í gær. Segja má að Katrín hafi komið til að skoða uppskeruna sem hún sáði til sem ráðherra en án stuðnings hennar er óvíst að þetta alþjóðlega skátamót hér á Íslandi hefði orðið að því ævintýri sem gestir þess eru nú að upplifa.

„Það hefur verið frábært að fylgjast með framkvæmd þessa stórviðburðar og óhætt að segja að íslenska skátahreyfingin hafi sýnt forystuhæfileika sína í undirbúningi mótsins enda er þetta fjölmennasta mót sinnar tegundar og gestir hvaðanæva úr heiminum. Það er líka frábært að sjá fjölda sjálfboðaliða, bæði innlenda og erlenda, sem er ekki sjálfgefið að virkja til góðra verka en hefur svo sannarlega tekist hér“ sagði Katrín í heimsókn sinni.

Farsælt samstarf

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, hefur á undanförnum árum átt farsælt samstarf við Katrínu og var á meðal þeirra sem tóku á móti henni í dag:

Ljósmynd: David Byatt

„Þáttur Katrínar í þessu ævintýri öllu saman er umtalsverður og mér liggur nú við að segja að hún beri bara heilmikla ábyrgð á því að af þessu gat orðið”, segir Hermann með brosi á vör.

Bandalag íslenskra skáta var á meðal nokkurra skátabandalaga sem buðust til þess að halda World Scout Moot 2017. Fleiri þjóðir höfðu einnig áhuga á að fá þetta mót til sín og líkt og í undirbúningi hverra Olympíuleika eru slíkar ákvarðanir teknar með góðum fyrirvara.

„Á alheimsráðstefnu skáta í Brasilíu árið 2011 buðum við fram okkar krafta og fleiri skátabandalög gerðu það einnig. Um þetta var kosið og niðurstaðan sú að ákveðið var að mótið 2017 skyldi fara fram á Íslandi” segir Hermann.

Gott að eiga góða að

Hermann bætir við að þegar niðurstaða lá fyrir hafi ekki verið annað í boði en að bretta upp ermar og koma hugmyndinni í framkvæmd „Við leituðum strax til Katrínar sem tók okkur mjög vel. Fyrir lá að ráðast yrði í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir á Úlfljótsvatni og það strax ef við ætluðum að freista þess að búa vel að þeim gestum sem nú voru í vændum og þá var nú sannarlega gott að eiga Katrínu að” segir Hermann.

Hermann segir að Katrín hafi stutt verkefni frá upphafi og hún séð til þess að á næstu árum fékkst umtalsverður styrkur til landbóta á Úlfljótsvatni og fjármagn veitt til þess að markaðssetja mótið erlendis.

Hermann og Katrín á rölti um svæðið. Ljósmynd: David Byatt

Katrín þekkir vel til skátastarfsins

„Það var algjörlega frábært að ganga hér um svæðið með Katrínu í dag. Við spjölluðum við glaða og káta mótsgesti og ég fékk tækifæri til að sýna henni þetta stórkostlega svæði sem við höfum getað útvíkkað og bætt með stuðningi hennar. Við spjölluðum mest um aðstöðuna á svæðinu og áhugaverða hluti svo sem að gefa 5.000 manns að borða í öll mál, flytja þeim aðföng og færa frá þeim úrgang og annað sem tengist praktískum málum.  Skátastarfið þarf ég nú ekki að fjölyrða um við Katrínu enda gjörþekkir hún okkur og okkar starf segir Hermann.

Áhugavert að fylgjast með þróun skátastarfsins

„Íslenska skátahreyfingin hefur þróast í tímans rás og tekið upp mörg mikilvæg málefni sem varða til dæmis lýðræði, mannréttindi og umhverfismál sem allt eru grundvallaratriði í nútímasamfélagi. Það hefur verið áhugavert að fá tækifæri til að fylgjast með þeirri þróun” sagði Katrín að lokum.

Katrín Jakobsdóttir var sæmd Gullmerki Bandalags íslenskra skáta árið 2013 en það heiðursmerki er veitt verndurum íslenskra skáta, heiðursfélögum og öðrum sem skátahreyfingin vill sýna mikinn heiður.

Katrín á sæti í heiðursnefnd World Scout Moot 2017.

Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri BÍS, Jakob Guðnason formaður upplýsingaráðs, Katrín Jakobsdóttir alþingismaður, Stephen Peck viðburðastjóri WOSM og Jón Þór Gunnarsson formaður alþjóðaráðs. Ljósmynd: David Byatt