Bandalag íslenskra skáta auglýsir eftir umsóknum um þátttöku í Crean-vetraráskoruninni árið 2014. Tveggja vikna útivistarævintýri og áskorun fyrir ungt fólk á aldrinum 14-15 ára (fæddir 1998-1999).

Verkefnið er samstarfsverkefni BÍS, Landsbjargar og Scouting Ireland. Frá Írlandi koma allt að 20 skátar sem farið hafa í gegnum langt umsóknar- og matsferli. Frá Landsbjörgu koma allt að 10 þátttakendur og frá BÍS allt að 10 þátttakendur.

Markmið verkefnisins er að þátttakendur verði færir um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Þeir læra undirstöðuatriði fjallaferða og vetrarferðamennsku. Meðal annars skyndihjálp á fjöllum, vetrarferðamennsku, rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, skálahegðun og ferðareglur í hópferðum, veðurfræði á fjöllum, og ýmislegt annað sem talið er skipta máli.

Verkefnið skiptist í vetrarferðir og verkefni unnin í frítíma.

Ferðirnar eru:

  • 22.-24. nóvember – í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Inni og útiverkefni í vetrarferðamennsku.
  • 10.-12. janúar – í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Gönguferð og verkefni í vetrarferðamennsku.
  • Vika í febrúar (nánari tímasetning síðar líklega 9.-16. feb) – Úlfljótsvatn og Hellisheiði. Verkefni og vetrarferð. Vikutími þar sem þátttakendur gætu þurft að taka frí í skóla.

Þátttakendur þurfa að mæta í allar ferðirnar.

Auk ferðanna þurfa þátttakendur að vinna heimaverkefni í formi leiðarbóka. Verkefnin eru á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðasetninga og samfélagsvinnu. Vinna þarf öll verkefnin á tilsettum tíma til að geta haldið áfram í verkefninu. Verkefnisstjórnin áskilur sér rétt til að enda þátttöku ef að þátttakendur eru ekki að standa skil á verkefnum eða sýna að þeir hafa ekki getu eða vilja til að ljúka verkefninu.

Kostnaður við ferðina er 39.000 á mann. Innifalið í því er allur matur í öllum ferðunum, gistingar og ferðir til og frá Skátamiðstöðinni. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér í Hraunbæ 123 og heim aftur.
Þátttakendur þurfa að hafa allan helsta búnað til vetrarferða s.s. góðan skjólfatnað, svefnpoka sem þolir vetrarveður, bakpoka og gönguskó. Ekki er nauðsynlegt að eiga klifurbúnað, ísaxir, brodda, skíði, tjöld eða eldunarútbúnað.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda kemst að í verkefninu. Umsóknir og umsagnir ráða úrslitum um hverjir eru teknir inn. Það er því mikilvægt að leggja mikið í umsóknina.

Umsækjendur þurfa jafnframt að gera sér grein fyrir að ætlast er til 100% þátttöku bæði í ferðum og í verkefnavinnu.

Umsókn:

Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í Crean- vetraráskorun þurfa að skrá sig í gegnum viðburðaskráningakerfi skátanna fyrir 1. nóvember.

Í gluggann sem heitir „upplýsingar til stjórnenda viðburðar“ þarftu að skrifa aðeins um þessi atriði:

  • Verkefni innan skátahreyfingarinnar.
  • Bæði foringjastörf (ef einhver) og verkefni s.s. ferðir og útilegur (Jamboree, fjallaferðir og annað slíkt).
  • Hvers vegna villtu taka þátt í Crean-vetraráskoruninni?
  • Hvernig telur þú að verkefnið muni nýtast þér í framtíðinni?
  • Hvernig muntu nýta það sem þú lærir fyrir skátana?

Skila þarf:
Leyfisbréfi frá foreldrum sem fæst hjá BÍS (taka þarf fram að umsækjandi fái frí í skóla sé það nauðsynlegt)
Umsögn frá skátaforingja og félagsforingja

Jón Ingvar viðburðastjóri Bís tekur við fylgigögnum í tölvupósti, jon@skatar.iseða útprentuðum á pappír og veitir frekari upplýsingar.