Súrringar og skátar eru í hugum margra bundin órjúfanlegum böndum í orðsins fyllstu merkingu. Súrra þýðir að rígbinda eða reyra og skátar nota aðferðina mikið til að byggja úr trjám í skóglendi eða úr aðfluttum trönum eins og oftar er raunin hérlendis þó það kunni að vera að breytast. Á fræðslukvöldi 20. mars gefst tækifæri til að tengjast þessari aðferð tryggðarböndum.

„Hægt er að búa ótrúleg þægindi í útilegum með þessari aðferð,“ segir verkfræðingurinn Viking Eiríksson sem er betur þekktur sem Væk. Borð, turna, eldhús, bekki, svefnpokahengi, þvottasnúrur, hlið, ruslatunnur, fleka til að sigla á, hengirúm, klifurturna og margt fleira.

Hann og stærðfræðineminn Jónas Grétar Sigurðsson – Jonni í Landnemum ætla að leiðbeina um súrringar á fræðslukvöldi í Skátamiðstöðinni fimmtudaginn 20. mars. Þeir mun sýna rétt handbragð og óteljandi skemmtilega möguleika til að nota súrringar í skátastarfi.

Jónas Grétar og Væk eru súrringameistarar vikunnar.
Jónas Grétar og Væk eru súrringameistarar vikunnar.

Varð eiginlega svolítið skökk …

Þeir félagar hafa súrrað ótrúlegustu hluti. „Einu sinni fundu ég og félagar mínir lýsingu í danskri skátabók um það hvernig hægt væri að súrra fjögurra hæða blokk,“ segir Jonni. „Okkur tókst að byggja hana – við vöktum alla nóttina – en hún varð eiginlega svolítið skökk, ekki alveg eins og á leiðbeiningarmyndinni! En það var ótrúlega gaman og hægt var að tjalda á hverri hæð“.

Væk man aðeins lengra aftur í tímann. „Það var sagt frá því í foringjablaði árið 1962 hvernig hægt væri að súrra trönur og festa svefnpokana upp í þær og sofa í þeim eins og hengirúmi“. Ekki fer sögum af þeim sem það reyndu, ekki víst að það hafi virkað vel í vindasömum útilegum íslenskra skáta á þeim tíma .

Allir fara heim með módel

Fræðslukvöldið skiptist í tvennt – fyrri hluta kvöldsins sýnir stærðfræðingurinn Jonni þátttakendum helstu aðferðir við að súrra og þátttakendur fá að prófa handbrögðin í raunstærð. Seinni hluta kvöldsins kynnir verkfræðingurinn Væk mismunandi hugmyndir að mögulegum útfærslum og þátttakendur búa til módel af flottum hliðum eða öðru skemmtilegu sem hægt er að súrra á Landsmóti skáta að Hömrum í sumar, eða öðrum útilegum, bæði í tengslum við skátastarfið eða bara almennt. Hver vill ekki lífga upp á stofuna heima hjá sér?

 

Sjá einnig í viðburðadagatali: Fræðslukvöld um súrringar   (skráning er hafin)

Skráðu þig núna.