Skátar fagna sumarkomu og halda Sumardaginn fyrsta hátíðlegan á margvíslegan hátt. Skátar hafa sett svip sinn á hátíðarhöld um allt land frá upphafi skátastarfs á Íslandi.

Sumardagurinn fyrsti er dagur barnanna og af því tilefni gefa Skátarnir og Eimskip öllum börnum í öðrum bekk allra grunnskóla landsins íslenskan fána til að nota í tilefni dagsins.

Mikið er um að vera fyrir börnin á þessum skemmtilega degi. Skrúðgöngur, hoppukastalar, skátafjör og margt, margt fleira.

Skátarnir hvetja landsmenn til að fagna sumri með fánum og fjöri. Samverustundir fjölskyldunnar eru dýrmætar og því um að gera að njóta dagsins saman.

Gleðilegt sumar!

Hér er brot af því sem skátar um land allt standa fyrir:

Reykjavík – Miðbær

Bandalag íslenskra skáta og Skátasamband Reykjavíkur halda upp á daginn Skátamessu í Hallgrímskirkju kl. 11:00. Skátakórinn mun leiða söng og ræðumaður dagsins verður Bergþóra Sveinsdóttir, nýkjörinn formaður Ungmennaráðs BÍS.

Reykjavík – Árbær

Skátafélagið Árbúar verður með skrúðgöngu frá Árbæjarlaug að Árbæjarkirkju kl. 11:00. Opið verður í skátaheimilinu frá 13:00-15:00. Þar verður í boði póstaleikur, kaffisala, útieldun, klifur og fjör.

Reykjavík – Vesturbær

Skátafélagið Ægisbúar gengur fyrir skrúðgöngu kl. 11:00 frá Melaskóla að hátíðarsvæði við Frostaskjól. Þar verður fjölbreytt sumarhátíð í samstarfi við ÍTR frá 11:00-13:00 

Kópavogur

Skátamessa verður í Digraneskirkju kl. 11:00. Eftir hádegi leiðir skátafélagið skrúðgöngu frá Digraneskirkju að Fífunni kl. 13:30 en þar verður fjölskylduskemmtun Kópavogsbúa kl. 14:00 – 16:00

Garðabær

Skátafélagið Vífill verður með skrúðgöngu frá Vídalínskirkju að Hofstaðaskóla og hefst gangan klukkan 14:00.

Hátíðarhöld verða svo við Hofstaðaskóla þar sem ýmiss skemmtiatriði verða í boði ásamt hoppuköstulum, kassaklifri og þrautabraut. Einnig verður hin árlega kaffisala Vífils ásamt sjoppum og candyfloss sölu.

Hafnarfjörður

Skátafélagið Hraunbúar leiðir skrúðgöngu kl. 13:45 frá Víðistaðakirkju að Thorsplani. Þegar skrúðgangan lendir þar hefst skemmtidagskrá í umsjón Hraunbúa sem stendur til kl. 16:00 og á sér öll stað á Thorsplani og nánasta nágrenni. Ingó Veðurguð kemur fram með kassagítarinn, ásamt ýmis konar skátaskemmtun á svæðinu eins og kassaklifri, candyfloss og sælgætissölu. 

Mosfellsbær

Skátafélagið Mosverjar leiðir skrúðgöngu kl. 13:00 frá Bæjartorginu að Lágafellsskóla. Þar tekur á móti skrúðgöngunni Skólahljómsveit Mosfellsbæjar. Í og við Lágafellsskóla verður svo fjölskyldudagskrá frá 13:30-16:00. Hoppukastalar, pylsusala, skátafjör og fleira á útisvæði. Kaffisala Mosverja verður í skólanum.

Reykjanesbær – Keflavík

Skátafélagið Heiðabúar byrjar daginn kl. 12:00 á skrúðgöngu með glæsilega fánaborg frá skátaheimilinu að Vatnsnesvegi 101, Keflavík. Gengið verður að Keflavíkurkirkju þar sem skátaguðsþjónusta hefst kl 12:30. Sumarkaffi og flóamakaður í skátaheimilinu að lokinni messu.

Sauðárkrókur

Skátafélagið Eilífsbúar leiða skrúðgöngu frá bóknámshúsi FNV kl. 10:30 og gengið sem leið liggur að Sauðárkrókskirkju, en þar verður skátamessa kl. 11:00

Akureyri

Skátafélagið Klakkur leiðir skrúðgöngu frá íþróttahúsinu kl. 10:30. Skátamessa í Akureyrarkirkju kl. 11:00.