„Ég hélt að ég væri búin með bensínið eftir krefjandi en gefandi dagskrá á Akureyri og svo þessa frábæru daga hér á Úlfljótsvatni. Sá fram á að hvíla mig í kvöld en úr því varð ekki“ segir Kirstin Berthold frá Þýskalandi.

Síðasta sameiginlega kvöldstund þátttakenda á World Scout Moot var í gærkvöldi og af því tilefni var mikið um dýrðir.

Eftir glæsilega matarveislu hvers tjaldsvæðis héldu þátttakendur inn á kaffihúsasvæðið þar sem boðið var upp á lifandi tónlist, spjall, nudd og skapandi samveru.

Ofsafjör á skátadansiballi. Ljósmynd: André Jörg

Stuðlabandið lék fyrir dansi fram eftir kvöldi en eftir það var slegið upp varðeldum hér og þar um svæðið og sum kaffihús mótsins tengdu plötusnúðana sína við rafmagn og héldu uppi fjörinu langt fram í nóttina.