Aukinn stuðningur við skátafélögin er meðal þess sem rætt verður á fundi félagsforingja skátafélaga sem haldinn verður á morgun á Úlfljótsvatni.  Verkefnið hefur verið nálgast frá nokkrum hliðum og verður félagsforingjum greint frá hvernig sú vinna gengur til að fá viðbrögð þeirra og ábendingar.

Vinnuhópur um félagsráð  undir forystu Fríðar Finnu Sigurðardóttur, aðstoðarskátahöfðingja, hefur verið starfandi um hríð. Í vinnuhópnum eru Auðna Ágústsdóttir, Árbúum, Auður Lilja Arnórsdóttir, Fossbúum, Elmar Orri Gunnarsson, Landnemum og Jóhann Malmquist frá Klakki.

Kristaltær sýn.
Kristaltær sýn.

„Á vegum félagsráðs eru starfandi nokkrir vinnuhópar sem eru að útbúa stuðningsefni fyrir stjórnir skátafélaganna,“ segir Júlíus Aðalsteinsson félagsmálastjóri, en hann starfar með hópunum.  Þannig fái stjórnirnar hagnýt gögn í sína verkfærakistu. Meðal þess sem útbúið hefur verið er sjálfsmatsblað eða gátlisti fyrir stjórnirnar með lykilspurningum:

  • Vinnur félagið sem ein heild?
  • Er félagið drifið áfram af metnaði?
  • Er stjórnin skipulögð og hefur hún framtíðarsýn?
  • Er foringjastörfum vel sinnt?
  • Er starf skátafélagsins og rekstur í samræmi við stefnu BÍS?

Júlíus segir að stefnt sé að því að flest öll gögn í verkfærakistuna verði tilbúin fyrir haustið og á að gera þau aðgengileg á vef skátanna.  Hann segir að þetta verði góð viðbót við þjónustu Skátamiðstöðvarinnar. Meðal þess sem boðið er upp á í dag er ráðgjöf og námskeiðahald á ýmsum sviðum, svo sem félagsstjórnanámskeið, bókhaldsráðgjöf, aðstoð við félögin í  samskiptum þeirra við sveitarstjórnir,  aðstoð við gerð þjónustusamninga, leiðbeiningar og aðstoð ef upp koma mál tengd ofbeldi eða einelti, aðstoð við félögin þegar leita þarf að fólki í stjórnir og foringjastörf og almenn upplýsingagjöf um hvaðeina sem tengist rekstri skátafélags.