Alþjóðastarf er mikilvægur hluti skátastarfsins. Eitt af verkefnum alþjóðaráðs er að miðla upplýsingum um það sem stendur íslenskum skátum til boða í alþjóðastarfinu

Til þess að koma þessum skilaboðum á framfæri eru notaðir ýmsir miðlar, en best er fyrir áhugasama að fylgjast með Facebook grúppunni Tækifæri í alþjóðastarfi en þangað berast upplýsingar um áhugaverð tilboð og fyrirspurnir frá erlendum skátum sem vilja komast í samband við íslenska skáta.

Það færist í vöxt að íslenskir skátahópar fari á eigin vegum í ferðir til útlanda. Ýmist er farið á skátamót, heimsótt skátamiðstöð eða skátahópur. Alþjóðaráð er tilbúið til þess að aðstoða hópa við undirbúning ferða og til þess að afla sambanda ef á þarf að halda.

Alþjóðaráði er nú þegar kunnugt um nokkra hópa sem hyggjast halda utan í sumar til þess að taka þátt í erlendum skátamótum. Má þar nefna mót í Danmörku, Noregi og Rúmeníu svo eitthvað sé tínt til.

Stóri alþjóðlegi viðburðurinn næsta sumar er svo World Scout Moot, sem haldið verður á Íslandi. Nú þegar hafa 110 íslenskir róverskátar skráð sig til þátttöku auk þess sem nokkur hundruð eldri skáta munu starfa á mótinu sem sjálfboðaliðar í fjölbreyttum verkefnum. Alþjóðaráð vill hvetja alla sem tök hafa á að skrá sig til starfa á mótinu. Það er örugglega hægt að finna áhugavert starf fyrir hvern og einn.

Til þess að ná sambandi við alþjóðaráð er einfalt að senda póst hér.

Við í alþjóðaráði hlökkum til að heyra frá ykkur.

Jón Þór, Liljar, Marta, Tinna, Þórey og Júlli