Mikill sóknarhugur er í nýrri stefnu skátahreyfingarinnar sem samþykkt var á heimsþingi alþjóðasamtaka skáta sem haldið var nú í ágúst. Samþykkt var annars vegar ný sýn skátahreyfingarinnar til níu ára auk þriggja ára starfsáætlunar.

Jón Þór Gunnarsson formaður alþjóðaráðs Bandalags íslenskra skáta (BÍS) leiddi undirbúning stjórnar. Hann segir að íslenski hópurinn hafi mætt vel undirbúinn til heimsþingsins og nú eftir þingið liggi einnig mikil vinna fyrir stjórn BÍS. Samþætta þurfi starfsáætlun íslenskra skáta heimssýninni og áherslum.

Mikilvæg forgangsmál

Á heimsþinginu var áréttað enn á ný uppeldishlutverk hreyfingarinnar í efla sjálfstæði skáta og virkni þeirra í að gera heiminn betri. Stefnan er sett á að árið 2023 verði skátahreyfingin leiðandi ungmennahreyfing með 100 milljón þátttakendur.

Skilgreindir voru 6 áhersluþættir í stefnunni:

  • Þátttaka ungmenna (Youth Engagement). Skátastarf á að veita ungu fólki tækifæri til að þroska hæfileika sína og efla þekkingu sem gagnast við virka þátttöku í hreyfingunni, sem og í samfélaginu í heild.
  • Námsaðferðir (Educational Methods). Í starfi með börnum og ungmennunum er byggt á óformlegu námi sem styrkir þau í að takast á við margvíslegar áskoranir. Skátarnir vilja laða að eldri sjálfboðaliða og þjálfa þá til að halda uppi gæðum í æskulýðsstarfi sínu.
  • Fjölbreytni og samþætting (Diversity & Inclusion). Skátar eiga að endurspegla margbreytileika samfélagsins og bjóða með virkum hætti öllum að taka þátt. Fjölbreytileikinn á ekki eingöngu að birtast í þátttökunni heldur einnig verkefnum sem skátarnir taka sér fyrir hendur.
  • Samfélagsleg þátttaka (Social Impact). Allir skátar ættu að taka virkan þátt í starfi samfélagsins og deila þeirri reynslu sinni öðrum til hvatningar þannig að fleiri taki þátt í ákvörðunartöku í samfélaginu, nýti sér kosningarétt og stuðli að virku lýðræði. Með virkni og verkefnum leiða skátar til jákvæðra breytinga.
  • Miðlun og samskipti (Communication & Relations). Skátar eiga að sýna hvað þeir gera og hvers vegna með vísan í gildi sín. Þeir miðla upplýsingum með virkri samskiptatækni og velja sér samstarfsaðila í takt við markmið sín. Skátar njóti viðurkenningar sem leiðandi æskulýðshreyfing.
  • Gagnsæ stjórnun (Governance). Stjórnun alheimssamtaka skáta á að vera gagnsæ, skilvirk og með skýrum hætti tengd við stefnumálin, hlutverk skáta og framtíðarsýn. Ábyrgðarhlutverk innan skátahreyfingarinnar eiga að vera vel skilgreind og auðskilin með áherslu á hverju hlutverkið þjónar. Stefnt er að góðri samhæfingu til að starfið skili mestum árangri.

Nánar má lesa um framangreinda sex áhersluþætti í tillögum sem lagðar voru fyrir þingið. Skoða þingskjöl á vef þingsins og þar eru það þingskjöl nr. 6 og 7 sem um ræðir:

ATH. endanleg samþykkt skjöl eru ekki komin. Einkum var 3ja ára áætluninni nokkuð breytt.

Stjórn BÍS mun á næstu fundum sínum fjalla um árherslur íslenskra skáta í tengslum við alþjóðasamþykktirnar. Rétt er að vekja athygli áhugasamra á að fundir stjórnar BÍS eru opnir og öllum velkomið að hlýða á umræður.

Okkar fólk náði kjöri

João Armando G., sem Ísland tók þátt í að bjóða fram til heimsstjórnar, náði góðu kjöri og var hann jafnframt kosinn formaður stjórnarinnar. Óhætt er að segja að Ísland sé þar með góð tengsl fyrir og segir Jón Þór að gott sé fyrir heimsstjórn að João og hans áherslur hafi náð fylgi. Karin Ahlbäck, frambjóðandi Finnlands, komst einnig í heimsstjórn en Ísland studdi framboð hennar með virkum hætti.

Með nýjum formanni heimstjórnar, João Armando G., sem klæddist kynningarbol World Scout Moot sem haldið verður á Íslandi 2017.
Með nýjum formanni heimstjórnar, João Armando G., sem klæddist kynningarbol World Scout Moot sem haldið verður á Íslandi 2017.

Norðurlandasamstarf gekk vel en Ísland er í formennsku í samstarfsnefnd Norðurlandanna 2013 – 2015. Fundir norðurlandanna, hópefli norðurlandanna og norræna móttakan gengu vel og almenn ánægja var í hópnum. Jón Þór segir að norðurlandasamstarfið sé að styrkjast og það komi okkur mjög vel.

Heimsmótið á Íslandi kynnt

Kynningar á World Scout Moot (WSM) sem haldið verður á Íslandi 2017 gengu vel og mátti finna mikinn áhuga á mótinu. Margir hafa lofað að leggja mótinu lið í tengslum við við fjáröflun, dagskrá og fleira. Þessi mikli áhugi er mikil hvatning fyrir undirbúning mótsins.

Með kynningu íslensku þátttakendanna á WSM var lagður góður grunnur að góðri þátttöku á mótinu.
Jón Þór segir að markmið BÍS að efla róverstarf á Íslandi með þessum viðburði sé raunhæfur möguleiki og að gott aðgengi sé að öflugum bandalögum sem við getum lært af .

Fjölmennur hópur

Heimsþingið skáta, sem í ár var haldið í Slóveníu 11. – 15. ágúst, var það fertugasta í röðinni. Nokkrum dögum áður var haldið ungmennaþing skáta og er það svo tímasett til að sjónarmið ungra skáta verði sterkari á heimsþinginu. Ísland átti fulltrúa á ungmennaþinginu, Bergþóru Sveinsdóttur, formann ungmennaráðs. (sjá frétt: Mikilvægt að rödd ungs fólks heyrist). Það er í annað sinn sem Ísland á fulltrúa, því árið 1996 tók Kjartan Ólafsson, sem starfaði með Klakki ogstarfsráði BÍS,  þátt í 6. Ungmennaþinginu sem haldið var í Moss í Noregi.

Íslenskir skátar áttu óvenjumarga fulltrúa á heimsþinginu að þessu sinni vegna þriggja mismunandi hlutverka. Í fyrsta lagi voru fjórir fulltrúar stjórnar BÍS: Bragi Björnsson, skátahöfðingi, Fríður Finna Sigurðardóttir, aðstoðarskátahöfðingi, Bergþóra Sveinsdóttir, formaður ungmennaráðs og Jón Þór Gunnarsson, formaður alþjóðaráðs; Í öðru lagi voru þrír fulltrúar í kynningarhópi World Scout Moot (WSM) sem Ísland heldur árið 2017, en það voru Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri BÍS og gjaldkeri WSM, Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri WSM og Jón Ingvar Bragason, viðburðastjóri BÍS og framkvæmdastjóri WSM; Í þriðja lagi eiga íslenskir skátar fulltrúa frá skrifstofu norrænu samstarfsnefndarinnar, þar sem Ísland gegnir formennsku 2013- 2015, en fulltrúar hennar voru Dagmar Ýr Ólafsdóttir, formaður NSK skrifstofu og Dagbjört Brynjarsdóttir, NSK skrifstofu.

Hér er settlegasta myndin sem náðist af íslensku þátttakendunum. Standandi frá vinstri eru Jón Ingvar, Hrönn, Bergþóra, Dagmar og Fríður. Sitjandi eru Bragi, Hermann, Dagbjört og Jón Þór.
Hér er settlegasta myndin sem náðist af íslensku þátttakendunum. Standandi frá vinstri eru Jón Ingvar, Hrönn, Bergþóra, Dagmar og Fríður. Sitjandi eru Bragi, Hermann, Dagbjört og Jón Þór.