Þó að ekki sé WSM í sumar þá er 2018 er sprengfullt af skemmtilegum viðburðum og uppákomum framundan.

Vetrarskátamót Skátasambands Reykjavíkur verður 26.-28. janúar. Helgina eftir er komið að Ungmennaþingi á Úlfljótsvatni og svo Norðan-Gilwell sem verður haldið á Akureyri 9.-10. febrúar. Þá sömu helgi munu öflugir dróttskátar frá Íslandi og Írlandi taka þátt í Crean – vetraráskorun og takast á við vetrarríki Hellisheiðarinnar.

Drekaskátadagurinn 4. mars verður án efa stórkostlega skemmtilegur enda alltaf fjör þegar hundruð drekaskáta koma saman.

Páskarnir eru frábær tími fyrir útilegur og útivist og við erum sannfærð um að skátafélögin nýti sér það.

Skátaþing mun fara fram í Menntaskólanum í Hamrahlíð 6.-7. apríl.

Svo brestur sumarið á með fyrsta degi sumars og Hrolli – Ævintýralegri útivistaráskorun Mosverja.

Fyrsta mótið í röð aldursbila er svo landsmót drekaskáta helgina 9.-10. júní.  Dróttskátar fá sitt landsmót 20.-24. júní í Viðey og fálkaskátar hittast á landsmóti fálkaskáta að Laugum í Sælingsdal dagana 5.-8. júlí. Rekka-og róverskátar munu hefja sitt landsmót í Landmannalaugum og ganga yfir í Þórsmörk dagana 12.-15. júlí.

Einnig verða eflaust margir á faraldsfæti erlendis í sumar og tveir hópar fara á vegum BÍS á erlend skátamót. Stór hópur fer væntanlega á Roverway í Hollandi, en það mót er ætlað rekka- róverskátum og er þeirra Evrópumót. Einnig fer hópur dróttskáta á Euro Mini Jam sem eru smáþjóðaleikar Evrópuskáta og er mótið að þessu sinni haldið í Færeyjum.

Nú þegar er stór hópur farinn að undirbúa sig fyrir ferð á World Scout Jamboree sem verður haldið í Norður Ameríku sumarið 2019 og sjáum við fram á að íslenski hópurinn verði mjög öflugur þar sem margir eru búnir að forskrá sig í ferðina.

Það er því nóg af spennandi áskorunum framundan fyrir skáta á öllum aldri.

Höldum áfram að stunda frábært skátastarf fullt af ævintýrum og gleði!

:: Smelltu hér til að skoða skátadagatalið.