Skátaþing 2019

Nýskipuð stjórn BÍS
Frá vinstri;
Jón Halldór Jónasson, formaður upplýsingaráðs
Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi
Dagmar Ýr Ólafsdóttir, aðstoðarskátahöfðingi
Sævar Skaptason, formaður fjármálaráðs
Jón Ingvar Bragason, formaður alþjóðaráðs
Ásgerður Magnúsdóttir, formaður ungmennaráðs
Björk Norðdahl, formaður fræðsluráðs
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, formaður upplýsingaráðs

 

Um helgina fór fram hið árlega Skátaþing. Þingið var sett á föstudegi á Hotel Borealis og því var slitið í Skátamiðstöðinni Úlfljótsvatni að kvöldi laugardags. Almenn ánægja ríkir innan hreyfingarinnar og skátar eru spenntir fyrir komandi misserum.

Á þinginu var rætt um starfið í Skátahreyfingunni, kosið var um starfsáætlun komandi ára og í embætti í stjórn hreyfingarinnar. Ákveðið var meðal annars að leggja frekari áherslu á umhverfismál meðal skáta á Íslandi og umhverfisstefna Bandalags íslenskra skáta verður endurskoðuð í þeim tilgangi að minnka enn frekar kolefnafótspor skáta.

Yngsti og elsti þátttakandi Skátaþings 2019

Á laugardaginn var brotið blað í sögu skátahreyfingarinnar á Íslandi þegar samþykkt var með miklum meirihluta atkvæða að skátar 16 ára og eldri fengju kosningarétt á Skátaþingi. Jafnframt stendur framvegis í lögun Bandalags íslenskra skáta að æskilegt sé að af þeim fjórum atkvæðum sem hvert félag fer með sé eitt þeirra í höndum einstaklings á aldrinum 16 – 25 ára.

„Valdefling ungmenna er eitt það mikilvægasta sem skátahreyfingin gerir og með því að lækka kosningaaldurinn er verið að sjá til þess að rödd ungra skáta heyrist í ákvarðanatökum innan hreyfingarinnar.“ segir Ásgerður Magnúsdóttir nýkjörin formaður ungmennaráðs Bandalags íslenskra skáta.