Skátaaðferðin

form_2jadalka-skataadferdin

Skátaaðferðin er uppeldis- og menntunaraðferð skátahreyfingarinnar. Hún felst í að efla sjálfsmenntun skátanna sem leiðir til aukins þroska bæði einstaklinga og hópa. Hún kemur til viðbótar öðru í uppeldi og menntun hjá fjölskyldu, í skóla og öðru frístundastarfi. Nauðsynlegt er að skilja hvernig lykilþættirnir tengjast og vinna saman til að átta sig á hvernig aðferðin virkar í raun. Skátaaðferðin er eins árangursrík og raun ber vitni þegar þessir þættir eru samræmdir og í jafnvægi.

Alþjóðasamtök skáta skipta Skátaaðferðinni gjarnan í þrennt:

 • Hverjir – eru þátttakendur eða gerendur í skátastarfinu?
 • Hvað – er gert í skátastarfinu?
 • Hvernig – er skátastarfið framkvæmt?

 „Hverjir” – Ungu skátarnir, fullorðnu foringjarnir og tengslin þeirra á milli

Efst á myndinni, í norður á áttavitanum, eru börnin eða ungmennin og neðst (suður) eru sveitarforingjarnir sem eru fullorðnir sjálfboðaliðar sem eru á ólíkum aldri en þó aldrei yngri en átján ára. Örvarnar á myndinni tákna gagnvirkt samband þeirra á milli.

Fullorðnir styðja við skátastarf á þremur sviðum sem öll eru í samræmi við hin ólíku hlutverk þeirra:

 • Leiðbeinandi sem styður við ferli sjálfsmenntunar og tryggir að reynsla unga fólksins stuðli að þroska þess.
 • Leiðtogi í hverju verkefni sem tryggir að verkefnin gangi upp. Ekki er hægt að ætlast til þess að einn og sami fullorðni sjálfboðaliðinn hafi til að bera alla þá færni sem krafist er fyrir öll verkefni.
 • Stuðningur við hópinn í heild sem gætir þess að tengslin innan skátasveitarinnar séu jákvæð og gefandi. Til þess að þetta gangi upp er mikilvægt að tengsl fullorðnu sjálfboðaliðanna og ungu skátanna byggist á gagnkvæmri virðingu og trausti og að báðir aðilar geti fellt sig hvorir við aðra.

 „Hvað“ – Verkefnin og markmiðin

Skataadferdarros-2013_300pixÁ myndinni af áttavitanum eru verkefnin vinstra megin (vestur) og markmiðin hægra megin (austur). Þau eru tengd saman með örvum sem sýna sambandið á milli þeirra.

Skátastarf er skemmtilegt ævintýri með skýr uppeldismarkmið. Börn og ungmenni takast á við skemmtileg verkefni og lifa sig inn í ævintýri í skátastarfinu. Það er hlutverk hinna fullorðnu að sjá til þess að þetta ævintýri gefi þátttakendum í skátastarfi tækifæri til að vaxa og þroskast til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar.

Í starfsgrunni skátastarfs eru 35 lokamarkmið á sex þroskasviðum til að vinna að þessu meginmarkmiði skátastarfs:

 • Líkamsþroska
 • Vitsmunaþroska
 • Persónuþroska
 • Tilfinningaþroska
 • Félagsþroska
 • Andlegum þroska

 

Markmið hvers aldurshóps nefnast áfangamarkmið og er að finna bæði í handbókum fyrir sveitarforingja og í leiðarbókum skátanna sjálfra.

Áfangamarkmiðin eru beinlínis lokamarkmiðin orðuð þannig að þau henti málþroska og aðstæðum skátanna á ólíkum aldursstigum , þ.e. drekaskátum (7-9 ára), fálkaskátum (10-12 ára) og dróttskátum (13-15 ára). Lokamarkmiðin eru svo í rauninni áfangamarkmið elstu hópanna, rekkaskáta (16-18 ára) og róverskáta (19-22 ára).

Skátarnir setja sér sín eigin markmið sem nefnast  persónulegar áskoranir í tengslum við áfangamarkmiðin –  áskoranir sem eru viðráðanlegar hverjum og einum í tíma og rúmi. Skátarnir taka þannig virkan þátt í eigin uppeldi með því að setja sér stig af stigi meira ögrandi markmið. Það er verkefni sveitarforingjanna að styðja við lýðræðisuppeldi skátanna og sívaxandi virkni þeirra, sjálfstæði og ábyrgð við undirbúning verkefna, framkvæmd þeirra og ígrundun um hvernig til hefur tekist.  Skátarnir eru hvattir til að læra af reynslunni og þar með vaxa og þroskast bæði sem einstaklingar og hópur. Þess vegna er mikilvægt að skátarnir fái sjálfir að taka þátt í að skipuleggja starfið. Ef sú vinna væri alfarið í höndum hinna fullorðnu færi lítið fyrir uppeldismarkmiðum skátahreyfingarinnar.

Einhver kann að spyrja: Hvað þá með hefðbundin „skátaverkefni“ sem gera skátastarfið að ævintýri í augum skátanna? – eins og að útieldun, tjaldbúðalíf, kvöldvökur, varðelda og yfirleitt það að bjarga sér við „ókunnar aðstæður“. Allt þetta heldur áfram að einkenna skátastarf. En margt fleira kemur líka til greina eins og fjölbreytileg verkefni tengd „undralöndum“ netheima, foritun og hvers konar samskiptum með aðstoð tæknimiðla, o.s.frv., o.s.frv. Hugmyndir að verkefnum má finna í margs konar handbókum um skátastarf, íslenskum og erlendum, og á dagskrárvef sem er aðgengilegur á heimasíðu skáta. Auk þess er sköpunaþörf og hugmyndaauðgi skátanna sjálfra endalaus uppspretta fjölbreytilegra verkefna.

Verkefni í skátastarfi eru að sjálfsögðu unnin bæði úti og inni eftir efni og aðstæðum. Aðalatriðið er að skátarnir sjálfir taki virkan þátt í að velja, undirbúa, framkvæma og ígrunda verkefnin í samræmi við aldur og þroska – að sjálfsögðu undir leiðsögn hinna fullorðnu. Mikilvægt er að rugla ekki saman markmiðum og leiðum í skátastarfi og sér í lagi að gæta þess að leiðirnar verði ekki að markmiðum.

Það er ekki beint samband milli einstakra verkefna sem unnin eru í skátastarfinu og lokamarkmiðanna. Þegar Skátaaðferðinni er fylgt munu skátarnir smám saman ná markmiðum sínum.

Hverjum einstökum skáta er þannig gert kleift að vinna að sínum markmiðum og þroskast á eigin hraða og öðlast smám saman sjálfstraust og færni til að meta eigin framfarir.

 „Hvernig“ – Hvernig er markmiðunum náð?

Í miðju áttavitans á myndinni tengjast aðrir hlutar Skátaaðferðarinnar í samfellda heild.

 • Skátalögin, gildi sem leggja okkur lífsreglurnar og eru sett fram á tungumáli sem börn og ungmenni skilja vel og Skátaheitið, persónulegt loforð um að reyna að lifa samkvæmt skátalögunum.
 • Flokkakerfið, sem er vettvangur óformlegrar jafningjafræðslu sem gerir flokkinn að lærdómssamfélagi.
 • Táknræna umgjörðin, sem er ævintýrið sem felst í því að kanna og nema ný svið og nema nýjar lendur í hópi jafningja.
 • Útilíf og umhverfisvernd, í umhverfi þar sem árangursríkast er að framkvæma mörg verkefni flokksins og skátasveitarinnar.
 • Leikir og reynslunám, lærdómsvettvangur sem vekur áhuga barna og ungmenna, auðveldar aðlögun þeirra að skátaflokknum, hjálpar þeim að uppgötva hæfileika sína og hvetur þá til ævintýra, könnunar og uppgötvana.
 • Hjálpsemi og samfélagsþátttaka, sem lýsir sér í góðverkum einstaklinga og samanstendur af verkum og verkefnum sem tengja skátann og þá sem minna mega sín og gerir samfélagshjálp og viljann til að hjálpa öðrum að lífsstíl skátans.

Skátalögin og skátaheitið

Skátalögin eru leiðarljós og lífsgildi fyrir hvern einstakan skáta og fyrir skátahreyfinguna í heild sinni. Með því að festa skátalögin í sessi í daglegu lífi verða þau jákvæð lífsgildi og gott veganesti fyrir lífið.

Með skátaheitinu lofar skátinn sjálfum sér að gera sitt besta til að lifa samkvæmt skátalögunum. Að vinna skátaheitið er fyrsta táknræna skrefið í sjálfsmenntun skátans.

Þar sem skátalögin og skátaheitið eru nátengd er litið á þau sem einn lykilþátt í Skátaaðferðinni.

Flokkakerfið

Skátaflokkurinn er grunneining í skátastarfi. Flokkinn mynda 5-8 skátar sem eru jafningjar og einn af þeim er valinn flokksforingi. Tveir til fimm skátaflokkar mynda svo skátasveit. Hver flokkur vinnur margs konar verkefni og skipuleggur starfið í sameiningu, mismikið þó eftir aldri. Flokkurinn deilir ábyrgð og ákvarðanatöku, hann velur, undirbýr, framkvæmir og metur verkefnin. Þetta er gert undir leiðsögn fullorðinna skátaforingja. Kerfið gerir ráð fyrir að skátarnir taki virkan þátt í ákvarðanatöku sveitarinnar í samvinnu við fullorðna skátaforingja.

Flokkakerfið byggir á eðlislægri tilhneigingu ungs fólks til að mynda vinahópa og er farvegur fyrir uppbyggjandi jafningjaáhrif. Í flokknum eflist hver skáti og allur hópurinn í senn. Innan flokksins þróast lýðræðisleg hugsun, samkennd og samvinna.

Flokkakerfið er burðarás Skátaaðferðarinnar í starfi allra skáta nema þeirra yngstu, þ.e. drekaskáta (7-9 ára). Drekaskátar hafa yfirleitt ekki náð þeim félagsþroska sem til þarf og starfa því fyrst og fremst í drekaskátasveitum undir beinni stjórn fullorðnu sveitarforingjanna.

Táknræn umgjörð

Tákn er eitthvað kunnuglegt og skiljanlegt sem táknar tiltekna hugmynd eða eitthvað sem er umfangsmeira en táknið sjálft. Tákn eru oft notuð, til dæmis í auglýsingum, til að hjálpa fólki að skilja og tengja sig við hugmyndir með því að skírskota til ímyndunaraflsins. Tilgangurinn með táknrænni umgjörð er að ýta undir ímyndunarafl barna og ungs fólks, ævintýraþrá, sköpun og hugvit, á þann hátt sem örvar þroska þess. Hún hjálpar þeim að skilja hin ólíku þroskasvið, gildin í skátastarfi og stuðlar að samkennd í skátaflokknum og skátasveitinni.

Nafnið „skáti“ er tilvísun í táknræna umgjörð skátastarfs. Orðið „skáti“ er hljóðmynd enska orðsins scout sem stendur fyrir starf og framlag könnuða, landnema, veiðimanna, sjómanna og annarra brautryðjenda. Skátastarf stendur fyrir ævintýri, samheldni, athygli, útsjónarsemi og einfalt, heilsusamlegt líf í óbyggðum. Þetta eru allt eiginleikar sem Baden-Powell, stofnandi skátahreyfingarinnar, vildi efla og hann lýsir í bók sinni Scouting for boys, sem hann skrifaði til að hvetja ungmenni síns tíma til dáða.

Þar sem skátastarf nær nú til fleiri aldurshópa en í upphafi hefur hvert aldursstig sérstaka táknræna umgjörð, byggða á ólíkum sögusviðum og táknrænum fyrirmyndum sem samræmast þroska og þörfum skátanna.

Útilíf og umhverfisvernd

Með náttúrunni er átt við náttúrulegt umhverfi, fjöll, fjörur, kletta og grundir, sem andstæðuna við manngert umhverfi í þéttbýli. Náttúran vísar einnig í það sem Baden-Powell kallaði hina „samstæðu heild óendanleikans, sögunnar og smáatriðanna“ og stöðu mannkynsins innan hennar. Miðað við þá gífurlegu möguleika sem náttúran býður upp á fyrir líkamlegan, vitsmunalegan, tilfinningalegan, persónulegan, félagslegan og andlegan þroska einstaklingsins, er hún ákjósanlegur vettvangur fyrir skátastarf.

Leikir og reynslunám

Reynslunám er andstæðan við formlega kennslu. Reynslunám verður til þegar þátttaka og upplifun leiðir til aukins þroska.  Skátastarfið byggir á því að læra í gegnum leiki, reynslu og upplifun. Reynslunám er þroskandi ef skátinn ígrundar og leggur mat á eigin reynslu af athöfnum eða hugsunum.

Slagorðin „Learning by doing“ eru stundum misskilin og þá talin merkja að fólk þroskist beint af athöfnum sínum. Vissulega lærum við ýmsa leikni með endurteknum athöfnum (æfingum) – eins og að skrifa með penna, dansa, leika fótbolta, syngja eða skipta um gír við akstur. En ef ætlunin er að vaxa og þroskast sem manneskja á öllum þroskasviðum lærum við af reynslunni með því að doka við, endurmeta og ígrunda – jafnvel með því að skoða eigin afstöðu og skoðanir og vaxa þannig upp úr eigin fordómum um menn og málefni. Þess vegna er mikilvægt að skátastarf einkennist ekki mest af því að láta skátana hafa nóg að „gera“ við að „upplifa“ og jafnvel „gleyma sér“. Eins og það getur verið skemmtilegt – þá er líka mikilvægt að veita skátunum tækifæri til og leiðbeina þeim við að ígrunda hvað hefur gerst og hvers vegna. Þannig lærum við ekki einungis af athöfnum okkar heldur líka, og ekki síður, af reynslu okkar. Reynslunám snýst um að brjótast út úr hefðinni og það er forsenda skapandi starfs.

Hjálpsemi og samfélagsþátttaka

Hjálpsemi er í hugum flestra nátengd skátum og skátastarfi. Hún er hin sýnilega leið til að vinna að tilgangi skátastarfs í heiminum með því að „gera heiminn betri“. Hjálpsemi verður ekki kennd með lestri eða fyrirlestrum. Hana þarf að rækta. Þannig verður hún einstaklingum töm og eðlileg. Við það að sýna öðrum hjálpsemi upplifir skátinn þá vellíðan og það stolt sem fylgir því að verða öðrum að liði. Slík tilfinning er góð og gefandi. Hjálpsemin felur þannig í sér endurgjöf sem skilar sér margfalt, án þess að það hafi verið ætlunin. Með því að leiða skátann endurtekið inn í þennan gefandi „heim hjálpseminnar“, upplifir hann aftur og aftur þá góðu tilfinningu sem fylgir því að láta gott af sér leiða og smám saman verður hjálpsemin honum sjálfsögð og eðlislæg. Æfing í hjálpsemi á að vera almenn og sjálfsögð í skátastarfi því kærleikurinn felst í því að setja sig í annarra spor, finna til með öðrum og hjálpa þeim. Í kveðjubréfi sínu til skáta, sem fannst eftir lát hans, segir Baden Powell: „Mesta hamingjan er í því fólgin að veita öðrum hamingju.“

Hjálpsemin krefst oft hugrekkis og getur kostað átak og jafnvel fórnir, sérstaklega ef hún er ekki í samræmi við félagslegan þrýsting – þess vegna þarf að rækta hana og þjálfa. Bæði skátaflokkar og skátasveitir vinna að margs konar verkefnum sem flokkast undir samfélagsþátttöku í samræmi við aldur og þroska skátanna.

:: Lestu um skátaaðferðina í framkvæmd