Skátaaðferðin í framkvæmd

form_2jadalka-skataadferdframkv

 

Til þess að Skátaaðferðin laði að sér börn og ungt fólk þurfa fullorðnir sjálfboðaliðar (sveitarforingjarnir) að kunna að vinna með verkefnin, áfangamarkmiðin, flokka- og sveitarstarfið og lýðræðislega uppbyggingu sveitarinnar.

Skátastarf er skipulagt fyrir fimm aldursstig:

 • Drekaskáta  (7-9 ára)
 • Fálkaskáta  (10-12 ára)
 • Dróttskáta  (13-15 ára)
 • Rekkaskáta  (16-18 ára)
 • Róverskáta  (19-22 ára)

Ítarlegar handbækur hafa verið gefnar út af BÍS fyrir fullorðna sjálfboðaliða (sveitarforingja og aðstoðarsveitarforingja) sem leiða starf drekaskáta, fálkaskáta og dróttskáta. Þá hafa verið gefnar út leiðarbækur fyrir skátana sjálfa á þessum aldursstigum. Unnið er að útgáfu samsvarandi bóka fyrir tvö elstu aldursstigin.

Ofangreind aldursmörk eru þó ekki algild þar sem hver skáti hefur sinn eigin þroskahraða. Það ætti því að fara meira eftir þroska einstaklingsins en aldri hvenær hann færist á milli aldursstiga. Það er metið í hverju tilfelli fyrir sig af skátanum sjálfum með hjálp flokksins og sveitarforingjans sem fylgist með framförum hans og þroska. Þegar um drekaskáta og fálkaskáta er að ræða er sjálfsagt að hafa samráð við foreldra skátans.  Afmælisdagurinn sjálfur er ekki endilega besta viðmiðið, heldur miklu frekar áhugi hans á málefnum sem eiga betur við á næsta aldursstigi. Í hverju tilfelli þarf að taka tillit til vinasambanda og annarra þátta í umhverfinu.

Verkefnin

Verkefni og viðfangsefni þurfa að hæfa aldurs- og þroskastigi skátanna. Valið á verkefnum flokksins þarf að vera í samræmi við getu þeirra og það efni, búnað og aðstöðu sem fyrir hendi er eða mögulegt er að útvega. Verkefnin þurfa alltaf að vera í samræmi við hæfileika og getu hvers einstaks skáta í flokknum. Ef verkefnin eru of auðveld og reyna ekki nægilega mikið á skátana missa þeir áhugann. Ef verkefnin eru hins vegar mjög erfið eða umfram getu flokksins er hætt við að þeir verði óánægðir og vonsviknir. Í báðum tilvikum hafa viðbrögð skátanna neikvæð áhrif á samstöðuna í flokknum og gætu veikt hana.

Þetta jafnvægi á milli verkefna, viðfangsefna og getu er hluti af þroskaferli flokksins og einstaklinganna þar sem árangri er náð með því að prófa sig stöðugt áfram. Ef engar framfarir verða kemur það í hlut sveitarforingjanna að hjálpa flokksforingjunum að skapa réttar aðstæður svo flokkurinn geti náð jafnvægi. Aðalatriði er að skátarnir sjálfir taki virkan þátt í að ákveða, undirbúa og framkvæma verkefnin og ígrunda hvað megi læra af reynslunni – að sjálfsögðu í takti við aldur og þroska. Stundum geta verkefnin sem skátarnir velja virst svolítið óábyrg og ef til vill glannaleg – en það er mikilvægt að þeir fái tækifæri til að læra af reynslunni, líka því sem ekki tekst eins og áætlað var. Sveitarforingjarnir eiga fyrst og fremst að efla sjálfstæði og virkni skátanna og gæta þess að öryggis sé ávallt gætt. Það eru margar leiðir til að fyrirbyggja slys og tryggja öryggi án þess að um ofverndun sé að ræða. Sveitarforingjarnir geta haft áhrif og reynt að stuðla að verkefnum sem fela í sér reynslu sem miðar að áfangamarkmiðunum.

Þrjár gerðir verkefna í skátastarfi

Verkefni í skátastarfi skiptast í:

 • Hefðbundin verkefni
 • Valverkefni
 • Sérkunnáttuverkefni

Hefðbundin verkefni eru t.d. flokksfundir, sveitarfundir, útilegur og dagsferðir, leikir, sögur og frásagnir, söngvar, kvöldvökur og varðeldar. Hefðbundnu verkefnin skapa ramma um starfið og tengjast oft „táknrænni umgjörð“ skátastarfs á hverju aldursstigi meira en önnur verkefni. Hefðbundin verkefni styrkja Skátaaðferðina með því að tryggja þátttöku skátanna í sameiginlegri ákvarðanatöku og beinni tilvísun í siðferðilegu gildin. Þau stuðla að góðum starfsanda innan skátasveitarinnar og veita ungu skátunum dæmigerða „skátareynslu“.

Valverkefnin geta verið margs konar og tengjast fyrst og fremst hugmyndaauðgi skátanna sjálfra. Þau falla þó yfirleitt í eftirfarandi fimm flokka:

 • Útilíf og náttúruvernd
 • Íþróttir og heilsurækt
 • Hjálpsemi og samfélagsþátttöku
 • Tækni og vísindi
 • Listir og menningu

Valverkefnin höfða til áhugasviðs ungu skátanna og opna huga þeirra fyrir þeim margbreytileika sem lífið og heimurinn hefur upp á að bjóða. Þau endurspegla tíðarandann og þarfir samfélagsins.

Sérkunnáttuverkefni eru einstaklingsbundin og frjálst val hvers skáta fyrir sig, Þau eru þannig viðbót við verkefnin sem skátarnir vinna í skátaflokknum eða skátasveitinni. Sérkunnáttu er ætlað að hvetja skátana til að tileinka sér og æfa leikni á ákveðnum sviðum, þroska meðfædda hæfileika eða finna ný áhugamál. Ánægja og sjálfstraust skátanna eykst við að ná valdi á tiltekinni leikni.

Í raun eru hefðbundnu verkefnin og valverkefnin tengd og eitt einstakt verkefni getur bæði verið valverkefni og hefðbundið verkefni. Útilega er dæmi um hefðbundið verkefni sem felur yfirleitt í sér nokkur valverkefni.

Dagskrá með of mörgum hefðbundnum verkefnum og of fáum valverkefnum getur leitt til „innhverfrar“ skátasveitar sem er sjálfmiðuð og einangruð frá umhverfinu. Slíkt starf undirbýr skátana ekki fyrir lífið heldur einungis fyrir skátastarfið.

Dagskrá með of mörgum valverkefnum og of fáum hefðbundnum verkefnum getur leitt til þess að skátasveitin missi sérkenni sín. Hún getur enn verið heillandi og nytsamleg fyrir ungu skátana, en ekki með sama skátabragnum. Slíkt getur stefnt einingu sveitarinnar í hættu og dregið úr tilfinningu skátanna fyrir því að tilheyra skátasveit.

Kanna ný svið og nema nýjar lendur í hópi jafningja

Höfuðatriðið er að verkefnin tengist áhuga skátanna á að kanna ný svið og nema nýjar lendur í hópi jafningja. Verkefni í skátastarfi verða að byggjast á áhuga unga fólksins og vera valin af skátunum sjálfum. Verkefnin þurfa þar af leiðandi að vera skemmtileg og spennandi fyrir þau. Þau verða að fela í sér vel skilgreind markmið, bjóða upp á áskorun og skátarnir verða að sjá tilgang þeirra. Nauðsynlegt er að verkefnaúrvalið sé fjölbreytt.

Lokamarkmið og áfangamarkmiðin

Markmið skátahreyfingarinnar er að veita ungu fólki raunhæf tækifæri til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.

Þetta markmið er síðan brotið niður í nokkur lokamarkmið innan sex þroskasviða sem eru svo umorðuð í áfangamarkmið fyrir hvert aldursstig:

Heilbrigði og hollusta (líkamsþroski)
 • Velur sér lífsstíl sem hefur uppbyggjandi áhrif á líkamlega heilsu, andlega og félagslega líðan.
 • Gerir sér grein fyrir líkamlegri getu sinni og eigin takmörkunum.
 • Hugsar vel um útlitið og gætir eigin hreinlætis og þrifnaðar í kringum sig.
 • Fylgir fjölbreyttu, hollu og skynsamlegu mataræði.
 • Skiptir tímanum skynsamlega á milli ólíkra skyldustarfa, stundar tómstundaiðju við hæfi og tekur tillit til forgangsröðunar.
 • Stundar útivist með öðru fólki og tekur þátt í athöfnum sem reyna á hreyfigetu líkamans.
Skynsemi og sköpunarþrá (vitsmunaþroski)
 • Aflar sér nýrrar þekkingar á markvissan og skapandi hátt.
 • Sýnir snerpu við alls kyns aðstæður, þroskar með sér hæfileika til að hugsa skýrt, finnur upp á nýjungum, beitir gagnrýnni hugsun og er á varðbergi gagnvart hvers konar ranghugmyndum og ofureinföldunum.
 • Sameinar fræðilega og hagnýta kunnáttu með því að beita verkkunnáttu og finna nýjar lausnir.
 • Setur sér langtímamarkmið varðandi flókin viðfangsefni, metur þau, forgangsraðar og nýtir niðurstöður til þess að þroska eigin dómgreind.
 • Tjáir skoðanir sínar og tilfinningar með fjölbreyttum miðlum, skapar þægilegt andrúmsloft í kringum sig á heimili, í skóla eða á vinnustað til að auðvelda samskipti og auðga eigið líf og annarra.
 • Metur samfélagslegt og siðferðilegt gildi vísinda og tækni við sköpun nýrrar þekkingar og við lausn vandamála í þágu mannkyns, samfélaga og náttúrulegs umhverfis.
Vilji og persónuleiki (persónuþroski)
 • Þekkir möguleika sína og takmarkanir, hefur raunsæjar hugmyndir um sjálfa(n) sig, sættir sig við hvernig hann eða hún er og varðveitir sterka sjálfsmynd.
 • Veit um réttindi sín og líka að þeim fylgja skyldur, en tekur höfuðábyrgð á eigin þroska og framförum og leitast við að standa sig alltaf með prýði.
 • Byggir lífsáform sín á gildum skátalaganna og skátaheitisins.
 • Fylgir staðfastlega þeim gildum sem veita honum eða henni innblástur.
 • Mætir lífinu og því sem það ber í skauti sér með glaðværð og kímni.
 • Gerir sér grein fyrir að í hópinn sem hún eða hann tilheyrir má sækja stuðning til persónulegra framfara og þroska og til uppfyllingar lífsáforma.
Tilfinningar og skoðanir (tilfinningaþroski)
 • Leitast við að öðlast og viðhalda innra frelsi, jafnvægi og tilfinningaþroska.
 • Er fylgin(n) sér og vingjarnleg(ur) við aðra án þess að vera þvingaður/þvinguð eða frek(ur).
 • Byggir persónulega hamingju á kærleika og væntumþykju, vinnur í þágu annarra án þess að ætlast til umbunar og kann að meta fólk eins og það er.
 • Þekkir, viðurkennir og virðir kynhvöt sína og annarra sem tjáningu ástar og væntumþykju.
 • Skilur að fjölskyldan er hornsteinn þjóðfélagsins og sér til þess að kærleikur milli foreldra og barna, bræðra og systra, ríki innan eigin fjölskyldu.
Vinir og samfélag (félagsþroski)
 •  Sameinar eigið frelsi og umhyggju fyrir öðrum, stendur á rétti sínum, uppfyllir skyldur sínar og ver rétt annarra til að gera slíkt hið sama.
 • Viðurkennir og virðir lögmæt yfirvöld og fyrirmæli og beitir þeim í þágu annarra.
 • Virðir og stuðlar að auknum mannréttindum, en fylgir þó þeim reglum sem samfélagið hefur sett, metur þær á ábyrgan hátt og ígrundar möguleikann á að breyta þeim ef þörf krefur.
 • Leggur á virkan hátt sitt af mörkum til nærsamfélagsins og tekur þátt í að skapa réttlátt samfélag sem byggir á þátttöku og samvinnu. Getur greint mismunandi orsakir ágreinings, þekkir leiðir til að minnka líkur á ágreiningi og til þess að leysa úr ágreiningi.
 • Tileinkar sér menningarleg gildi þjóðarinnar, en er samt opin(n) fyrir menningu annarra þjóða og einstakra hópa.
 • Stuðlar að friði og gagnkvæmum skilningi einstaklinga og þjóða með því að hvetja til alþjóðlegrar samvinnu og vináttu fólks um allan heim.
 • Skilur í hverju hugtakið sjálfbærni felst og leggur sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar í nærumhverfi og nærsamfélagi, en líka í víðara vistfræðilegu, menningarlegu og efnahagslegu hnattrænu samhengi.
Lífsgildi og tilgangur lífsins (andlegur þroski)
 • Leitar dýpri viðmiða, bæði persónulega og samfélagslega, um tilveru mannkyns og náttúrunnar í heild og tengir þau eigin lífsgildum.
 • Fylgir siðfræðilegri afstöðu sem tengist hugmyndum um tilgang lífsins utan eða innan skipulegra trúarbragða.
 • Stundar íhugun og samræður við aðra um tilgang lífsins og mannlega breytni, þekkir og getur útskýrt mikilvægi persónulegrar upplifunar.
 • Gerir siðaboðskap sem byggir á kennisetningum um tilgang lífsins og virðingu fyrir lífi yfirleitt að hluta af daglegu lífi, bæði einkalífi og samfélagsþátttöku, og leitast við að hjálpa öðrum í stóru og smáu.
 • Hefur samskipti við fólk burtséð frá trúarbrögðum þeirra, uppruna, litarhætti, kyni, kynhneigð eða stjórnmálaskoðunum og leitast við að skapa opið, umburðarlynt og fordómalaust samfélag.

Í skátastarfinu velur hver skáti áfangamarkmið sem eru miðuð við aldursstig hans. Skátinn  setur sér persónulegar áskoranir og færist svo nær eigin áfangamarkmiðum, hver á sinn hátt og á sínum hraða. Fullorðnir sjálfboðaliðar, sveitarforingjar og aðstoðarsveitarforingjar, fylgjast með og taka tillit til allra þátta í sveitarstarfinu og stuðla að því að skátunum séu búin tækifæri til að vinna að markmiðum sínum. Áfangamarkmiðin og persónulegar áskoranir skátanna tengjast óbeint öllum verkefnum og skátastarfinu í heild.

Skátaflokkurinn

Flokkakerfið er sá vettvangur þar sem skátarnir þroskast og læra að vinna saman. Vináttubönd myndast og hópurinn þróast. Skátarnir velja sér sjálfir flokk og ákjósanleg stærð hvers flokks er 5-8 skátar. Gæta þarf þess að flokkarnir fái nægt svigrúm í skátastarfinu og frelsi og sjálfstæði sem hæfir aldri skátanna. Í skátastarfi er lögð áhersla á að treysta skátunum og efla sjálfstraust þeirra með sjálfsnámi. Traustið er innsiglað með því að nota flokkakerfið og veita flokkunum svigrúm til að þróast á eigin spýtur og eflast í starfi sínu.

Frjálst val hvers skáta

Skátarnir geta valið skátaflokk með samþykki hinna skátanna í flokknum. Ungt fólk vill helst umgangast þá sem það kann vel við og líður vel nálægt, til dæmis vini sem hafa svipuð áhugamál og allir ættu að vera í flokki þar sem þeim finnst þeir velkomnir og geta starfað óþvingað. Þetta þýðir líka að skátarnir skipta kannski um skátaflokk ef báðir flokkar eru samþykkir tilfærslunni. Skátaflokkar eru með öðrum orðum ekki alltaf fastskorðaðar eða formlegar einingar og skátaflokkar í hverri sveit eru iðulega misstórir og misöflugir.

Sumir sveitarforingjar hafa ef til vill tilhneigingu til að reyna að jafna út flokkana og gera þá eins líka hver öðrum og hægt er. Slíkt stangast á við flokkakerfið. Það skiptir mestu máli að skátaflokkarnir séu raunverulegir vinahópar en ekki að skátasveitin líti út fyrir að vera „í jafnvægi“ eða sé skipt niður í jafnstóra og einsleita hópa. Við þurfum að læra að líta á skátasveitina sem bandalag ólíkra en innbyrðis tengdra skátaflokka.

Jafningjahópur – árangursríkur lærdómsvettvangur

Það væri misráðið af sveitarforingjum að endurskipuleggja og stokka upp skátaflokka að eigin frumkvæði. Slíkar aðgerðir hafa orðið til þess að eyðileggja flokkakerfið, af því að þær uppræta eiginleika jafningjahópsins og – það sem verra er með tilliti til markmiða skátahreyfingarinnar – hamla því að hann verði árangursríkur lærdómsvettvangur.

Samsetning skátaflokksins

Flokkar eru ýmist kynjaskiptir eða blandaðir og eins geta skátarnir í hverjum flokki  verið jafnaldrar eða úr nokkrum árgöngum. Hvort sem flokkar eru kynjaskiptir eða blandaðir má ekki láta það trufla eðlilega virkni jafningjahópsins, hafa áhrif á innri samstöðu eða bitna á hópnum sem lærdómssamfélagi. Skátarnir þurfa að vera nokkurn veginn á sama máli um grundvallargildi og markmið sameiginlegra verkefna og áhugamálin þurfa að vera svipuð. Ef þeir eru mjög ólíkir að þessu leyti getur það dregið úr samskiptum þeirra og flokkurinn nær ekki eins góðum árangri.

Reynslan hefur sýnt að enda þótt bakgrunnurinn sé ólíkur verða áhugamál, gildi og markmið mikið til þau sömu hjá skátunum í flokknum meðan á lærdómsferlinu stendur. Sjálfsmynd skátaflokksins byggist á því hvernig skátarnir upplifa sérkenni hans, sem aðgreina hann frá öðrum flokkum. Skátaflokkar þróa með sér venjur, skipta verkum á sinn hátt, og finna sér eitthvað sem einkennir þá.

Flokksþingið

Flokksþingið er vettvangur skátaflokksins til að taka ákvarðanir um flokksstarfið. Flokksþingið getur verið hluti af dæmigerðum skátafundi, t.d. stundarfjórðungur í lok hans. Skátaflokkurinn vinnur ýmis verkefni, á eigin spýtur eða með öðrum flokkum í skátasveitinni. Flokksþingið er eini formlegi vettvangurinn til að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Allir skátarnir í flokknum taka þátt í því undir stjórn flokksforingjans, sem er einn úr jafningjahópnum. Flokksþing getur komið saman hvenær sem skátaflokkurinn telur þörf á, þó ekki svo oft að það breytist í venjulega flokksfundi. Allar ákvarðanir flokksþings ætti að skrá í dagbók flokksins. Flokksþingið stuðlar að lýðræðisuppeldi skátanna.

Skátarnir deila með sér hlutverkum

Skátarnir úthluta hver öðrum embættum eftir þeim leikreglum sem hafa þróast í flokknum. Flokksforingi og aðstoðarflokksforingi eru alltaf kosnir  og eru fulltrúar flokksins í sveitarráðinu. Aftur á móti er valið í önnur embætti eftir nánari ákvörðun flokksins. Flokksforinginn er drifkrafturinn í starfi flokksins, stýrir áætlanagerð og skipulagningu verkefna. Þótt hann sé kosinn af skátunum og gegni mikilvægu forystuhlutverki er hann alltaf einn af hópnum. Aðstoðarflokksforinginn og hinir skátarnir geta líka tekið að sér forystuna þegar þörf er á.

Önnur algeng embætti í skátaflokkum eru t.d. gjaldkeri, ritari, ljósmyndari, leikjastjóri, kynningarstjóri, matreiðslumeistari, sáttasemjari, varðeldastjóri, vefstjóri eða annað sem skátunum dettur í hug. Það er um að gera að hvetja þá til að finna upp ný embætti eftir þörfum og sleppa öðrum sem ekki henta.

Skátarnir skiptast reglulega á um að gegna þessum embættum þótt þeir kunni að vera endurkjörnir ef flokksþingið samþykkir það. Á þennan hátt gefst tækifæri til að þroska ábyrgðartilfinningu, öðlast þekkingu, samhæfa viðhorf og tileinka sér leikni. Skátarnir verða smám saman virkari við að gegna þessum hlutverkum, endurmeta þau reglulega og halda áfram að þróa þau.

Í verkefnavinnu flokksins skipta skátarnir með sér verkum tímabundið.

Gagnkvæmt traust

Rannsóknir í félagsvísindum hafa leitt í ljós að reglur, byggðar á einlægni, tryggð og hollustu verða ríkjandi viðmið og stuðla að gagnkvæmu trausti hjá óformlegum jafningjahópum, meira að segja glæpagengjum. Það er auðvelt að sjá hvernig þetta gerist hjá skátaflokkum.

Skátasveitin

Skátasveitin er stuðningskerfi flokkanna og er samsett úr öllum flokkunum sem eru á sama aldursstigi, ásamt fullorðnu sveitarforingjunum sem styðja við starf þeirra. Þegar margir skátar eru á hverju aldursstigi í skátafélagi eru stundum myndaðar fleiri en ein skátasveit. Helsta hlutverk skátasveitanna er að hafa umsjón með og styrkja flokkakerfið og styðja frjálsræði og sjálfstæði skátaflokkanna.

Hvers vegna skátasveit?

Af hverju þurfum við skátasveit ef skátaflokkarnir geta starfað einir og sér?

 • Vegna þess að flokkar þurfa á lágmarks skipulagsramma að halda til að uppfylla tvíþætt hlutverk sitt, annars vegar sem hópur jafningja og hins vegar sem lærdómssamfélag.
 • Vegna þess að flokkar þurfa vettvang þar sem skátarnir geta haft áhrif hver á annan, verið fyrirmyndir og metið sína eigin frammistöðu.
 • Vegna þess að leiðtogar lítilla hópa þurfa á lærdómssamfélagi að halda þar sem þeir geta lært leiðtogafærni.
 • Vegna þess að flokkarnir þarfnast umhverfis þar sem hægt er að fá hvatningu frá fullorðnum, án þess þó að þeir skipti sér beint af starfinu innan flokkanna.

Sveitarforingjarnir og aðrir fullorðnir sjálfboðaliðar verða að vera meðvitaðir um ábyrgð sína en gæta þess um leið að skipta sér ekki of mikið af starfi flokkanna. Skátasveitin má ekki taka yfir starfssvið flokksins eða skapa aðstæður sem hefta, takmarka eða draga úr sjálfstæði hans með beinum eða óbeinum hætti.

Skátasveitin ber ábyrgð á að beita öllum þáttum Skátaaðferðarinnar á samræmdan hátt, með öðrum orðum að tryggja að börn, unglingar og ungmenni upplifi það sem við köllum skátastarf. Unga fólkið gerist ekki skátar til að „mennta sig“ heldur heillast fyrst og fremst af því ævintýri sem felst í að kanna ný svið og nema nýjar lendur með vina- og jafningjahópnum.

Stærð skátasveitarinnar

Kjörstærð skátasveitar er 3-5 skátaflokkar – hver um sig með 5-8 skátum. Reynslan hefur sýnt að þrír til fimm flokkar í sveit er hagstæðasta fyrirkomulagið. Með því móti gefast góð tækifæri til samstarfs og sameiginlegu verkefnin verða áhugaverðari. Í skátasveit þar sem aðeins eru tveir flokkar eru gagnkvæm áhrif í lágmarki og sameiginleg verkefni ekki eins spennandi. Ef flokkarnir eru hins vegar fleiri en fimm þyngir það allt skipulag. Það minnkar möguleika á persónulegum stuðningi sveitarforingjanna við flokksforingjana, aðstoðarflokksforingjana og einstaka skáta.

Annað eða bæði kynin í sömu skátasveit?

Eins og á við um flokkana eru skátasveitir ýmist blandaðar eða kynjaskiptar. Ákvörðun um samsetningu sveitarinnar er tekin af sveitarráði og hverjum skátaflokki fyrir sig á grundvelli hefða, reynslu og uppeldislegra möguleika.

Í blandaðri skátasveit er mikilvægt að muna:

 • Koma þarf eins fram við alla flokkana. Þeir hafa sömu réttindi og skyldur, sama hvernig þeir eru samsettir og ekki má mismuna þeim á nokkurn hátt.
 • Verkefni sveitarinnar mega ekki ýta undir staðalímyndir kynjanna eins og þær birtast oft í samfélaginu. Ekki skal gera neinn greinarmun á verkefnum stelpna og stráka. Ferlið við að velja verkefni fyrir næsta dagskrárhring, sem er oftast 2-4 mánaða starfstímabil, hjálpar til við að sporna gegn slíkri mismunun kynjanna þar sem að það býður hverjum flokki upp á sjálfstætt verkefnaval.
 • Skátasveitin ætti að bæta vitund um kynjamun inn í uppeldisáætlun sína og leggja áherslu á þá möguleika sem felast í því að vera karl eða kona.
 • Sveitarstarfið ætti að tryggja að kynin viðurkenni og þekki hvort annað og virði vináttu hvort annars. Samstarf og samvinna flokkanna ætti að stuðla að því að kynin bæti hvort annað upp.
 • Foringjaflokkurinn, sem samanstendur af sveitarforingja og aðstoðarsveitarforingjum, þarf að vera blandaður og það er ráðlegt að sá sveitar- eða aðstoðarsveitarforingi hvers skáta sem er honum innan handar við markmiðasetningu og endurmat sé af sama kyni og hann. Það gerir skátunum bæði kleift að fylgjast með og læra af samvinnu fullorðnu sjálfboðaliðanna í foringjaflokknum og að samsama sig fyrirmyndum af sama kyni.
Starfið í skátasveitinni

Starfið í skátasveitinni er í rauninni allt það sem gerist í skátaflokkunum og sveitinni sem heild. Skátasveitin er lítið samfélag sem samanstendur af ungu fólki og fullorðnum sjálfboðaliðum. Þegar góður andi ríkir í sveitarstarfinu og tekið er tillit til þarfa og áhuga allra leggur hver og einn sitt af mörkum til að starfið gangi vel.

Þegar markmiðin, verkefnin, sveitarstarfið og uppbygging sveitarinnar mynda samhæfða heild er mun meiri kraftur í skátastarfinu. „Lýðræði“ er mikilvægt málefni sem þarf að leggja áherslu á. Hæpið er að ungmenni þrói með sér lýðræðislega hugsun með því að leggja eingöngu áherslu á verkefni sem auka fyrirfram ákveðna þekkingu. Sveitarforingjarnir þurfa alltaf að spyrja sig eftirfarandi spurninga:

 • Gefur val og framkvæmd verkefnisins tækifæri til að kynnast lýðræði?
 • Deila allir í hópnum með sér ábyrgð og leggja sitt af mörkum til þess að starfið gangi vel?
 • Hafa sveitarforinginn eða aðstoðarsveitarforingjarnir getu til að hlusta á unga fólkið og bjóða því upp á tækifæri til að taka ábyrgð miðað við getu?

Til að draga þetta saman: Hverju er hægt að breyta í sveitarstarfinu, í tengslum fullorðnu sjálfboðaliðanna og skátanna, í verkefnunum sem skátarnir framkvæma, til þess að styðja betur við uppeldismarkmið skátastarfs?

Uppbygging skátasveitarinnar

Auk skátaflokkanna starfa í hverri skátasveit þrjár aðrar skipulagseiningar:

 • Sveitarþingið
 • Sveitarráðið
 • Foringjaflokkurinn

Þær eru hluti af sveitinni og virka sem stuðningskerfi fyrir flokkakerfið.

Sveitarþingið

Sveitarþing er fundur þar sem grunnreglur og markmið sveitarinnar eru ákveðin af skátunum. Sveitarþing getur verið hluti af dæmigerðum sveitarfundi, til dæmis eitt korter í upphafi hans þegar mikilvægar ákvarðanir liggja fyrir.

Hver skáti tekur þátt í sveitarþingi sem einstaklingur en ekki sem fulltrúi flokks síns. Sveitarþingið fundar að minnsta kosti tvisvar í hverjum dagskrárhring (sem spannar oft 2-4 mánuði) eða oftar ef aðstæður krefjast þess. Sveitarþingi er stjórnað af skáta sem kosinn er til verksins við upphaf þess. Sveitarforingjarnir taka þátt í sveitarþingum þó að þeir hafi ekki atkvæðisrétt.

Þar sem reglurnar sem samþykktar eru á sveitarþingi snerta alla fá allir skátarnir að segja álit sitt á þeim og taka þátt í ákvarðanatökunni. Sveitarþingið:

 • Tekur árlega ákvörðun um markmið sveitarinnar eins og þau koma fram í áætlun hennar. Með öðrum orðum, það skapar framtíðarsýnina.
 • Ákveður sameiginleg verkefni sem framkvæma á í hverjum dagskrárhring og samþykkir sveitaráætlunina þegar hún hefur verið sett upp af sveitarráðinu.
Sveitarráðið

Sveitarráð skátasveitar er samsett af sveitarforingjaflokki sveitarinnar, ásamt flokks- og aðstoðarflokksforingjum hvers flokks. Hlutverk þess er fyrst og fremst að skipuleggja sveitarstarfið, samhæfa viðburði og verkefni og stýra þjálfun flokks- og aðstoðarflokksforingjanna.

Sveitarráðið fundar að minnsta kosti einu sinni í mánuði og er yfirleitt stjórnað af sveitarforingjanum, þó að aðstoðarsveitarforingjarnir geti gripið inn í þegar þarf.

Þar sem allir flokks- og aðstoðarflokksforingjar eru í sveitarráðinu taka allir flokkarnir þátt í ákvarðanatöku um sameiginleg verkefni. Til þess að þetta fyrirkomulag skili árangri þurfa skátarnir að vita fyrirfram um það sem taka á fyrir á sveitarráðsfundi svo að þeir geti látið skoðanir sínar og flokksins síns í ljós. Allir skátarnir í sveitinni sýna einhug um þá ákvörðun sem tekin er hver svo sem þeirra persónulega skoðun kann að vera.

Sveitarráðið stýrir samhæfingu viðburða og verkefna sveitarinnar og hefur því góða yfirsýn yfir samskipti og samvinnu flokkanna.

Foringjaflokkurinn

Í sveitarforingjaflokknum, sem oftast er einfaldlega kallaður „foringjaflokkur“, eru fullorðnir sjálfboðaliðar hverrar skátasveitar, þ.e. sveitarforinginn og allir aðstoðarsveitarforingjarnir. Hann metur starf sveitarinnar og framfarir skátanna og veitir uppeldisfræðilega leiðsögn og stuðning.

Æskilegt er að foringjaflokkur sveitarinnar samanstandi af einum sveitarforingja eða aðstoðarsveitarforingja fyrir hverja 8-10 skáta í sveitinni. Fjögurra flokka skátasveit með 20-28 ungum skátum þarf því þrjá til fjóra fullorðna sjálfboðaliða, einn sveitarforingja og tvo eða þrjá aðstoðarsveitarforingja. Það skiptir miklu máli að vinnan við stjórnun sveitarinnar leggist ekki öll á einn eða tvo einstaklinga. Ef það gerist er hætt við að fólk gefist upp og dragi sig í hlé.

Foringjaflokkurinn hittist að jafnaði viku- til hálfsmánaðarlega og er stjórnað af sveitarforingjanum. Það er mikilvægt að starfið í foringjaflokknum sé skemmtilegt og gefandi. Félagslegri þörf sveitarforingjanna innan jafningjahóps þarf að sinna til þess að sveitarforingjastarfið verði áhugavert en ekki óþægileg byrði. Foringjastörfin með skátunum verða þá ánægjulegur afrakstur vandaðrar undirbúningsvinnu – nokkurs konar uppskeruhátíðir. Upplagt getur verið að vinahópur, jafnvel tvenn hjón eða sambýlisfólk, sæki leiðtogaþjálfun skátahreyfingarinnar og taki svo að sér að leiða skátasveit í tvö eða þrjú ár.

Hlutverk sveitarforingjanna

Sveitarforingjarnir eru fyrst og fremst í hlutverki óbeinna leiðbeinenda um uppeldi og menntun, bæði sem hópur og einstaklingar, með því að:

 • Skapa aðstæður fyrir sveitarstarfið.
 • Hvetja skátana til dáða og hjálpa þeim að vaxa og þroskast.
 • Vekja athygli á markmiðum skátahreyfingarinnar og framtíðarsýn sveitarinnar.
 • Ganga úr skugga um að allir þættir Skátaaðferðarinnar séu nýttir í sveitarstarfinu og skapa skilyrði fyrir lærdómsvettvang í flokkunum.
 • Vinna sem liðsheild, skynja áhættu og stýra forvörnum.
 • Undirbúa sveitarþing og sveitarráðsfundi og gæta þess að þar séu teknar ákvarðanir sem hæfa þroska skátanna í sveitinni.
 • Fylgjast með og meta framfarir hvers skáta, gæta vel að persónuverndar sjónarmiðum og vernda börn og ungmenni fyrir hvers kyns ofbeldi, einelti eða misbeitingu valds.
 • Stuðla að virku foreldrasamstarfi.

Sveitarforingjarnir skipta á milli sín verkum eftir persónuleika, reynslu, þekkingu og aðstæðum hvers og eins. Ef skátasveitin er kynjablönduð er mikilvægt að  foringjaflokkurinn sé það líka.