Þátttaka í skátastarfi hefur mikið gildi sem forvörn þegar kemur að áfengis- og vímuefnaneyslu. Niðurstöður sýna að þeir sem stunda skipulagt æskulýðsstarf eru ólíklegri en önnur börn og ungmenni að neyta áfengis.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði ungt fólk í tilefni dagsins.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði ungt fólk í tilefni dagsins.

Í tengslum við Forvarnardaginn eru kynntar niðurstöður kannana á vímuefnaneyslu ungmenna. „Rannsóknir sýna að undir 5% nemenda í grunnskólum landsins nota áfengi sem er besti árangur ef litið til Evrópu og Bandaríkjanna. En þær sýna einnig að um 30% aukning verður á áfengisdrykkju ungmenna frá síðustu mánuðum í grunnskóla til fyrstu mánaða í framhaldsskóla. Þetta bil viljum við brúa með aukinni þekkingu og stuðningi frá öllu samfélaginu,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum Forvarnardagsins, sem jafnframt vekja athygli á niðurstöðum rannsókna sem sýna að þegar horft er til forvarna í áfengis- og vímefnaneyslu sé skipulagt íþrótta- og tómstundastarf einn stærsti áhrifaþátturinn. „Niðurstöður hafa sýnt að því oftar sem iðkendur æfa íþróttir eða tómstundir sem hluta af skipulögðu starfi því ólíklegri eru þeir til að drekka áfengi.“

Í samantekt Forvarnardagsins er lögð áhersla á að starfið sé skipulagt og mikilvægt sé að skoða í hvaða samhengi íþróttin eða æskulýðsstarfið sé stundað. Þar hafi úrslitaáhrif undir hvers konar félagslegum kringumstæðum hún sé stunduð. „Það eitt og sér að kasta bolta í körfu sem dæmi hefur þó ekki uppbyggilegt gildi fyrir iðkendur í sjálfu sér, heldur skiptir máli í hvers konar samhengi íþróttin (eða tómstundirnar) sjálf er útfærð,“ segir í tilkynningunni.

Skátar taka þátt í Forvarnardeginum.
Skátar taka þátt í Forvarnardeginum.

Skátastarf er því út frá þessum forsendum góður kostur og margt sem hægt er að heimfæra í lokaorðum tilkynningar Forvarnardagsins yfir á skáta, en þar segir: „Skipulag og áherslur starfsins sem tekið er þátt í hefur uppeldislegt gildi og jákvæð áhrif á iðkendur. Forvarnargildi skipulegs starfs er háð félagslegum kringumstæðum og því ljóst hve mikilvægi skipulagningar og umhverfisþátta er mikil þegar litið er til starfsins“.

Heillaráð á Forvarnardegi

Forvarnardagur 2014 verður haldinn miðvikudaginn 1. október næstkomandi.

Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.

Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.

Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Nánari upplýsingar:

Forvarnardagurinn