Það er til fyrirmyndar að sjá ungt fólk frá ólíkum heimshlutum og allskonar menningu að vinna saman, leysa verkefni, kynnast hvert öðru og njóta lífsins og skátaandans” sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í heimsókn sinni á World Scout Moot í dag.

Óttarr átti fund með þeim Mörtu Magnúsdóttur skátahöfðingja, Hrönn Pétursdóttur mótsstjóra World Scout Moot og fleira forystufólki skátahreyfingarinnar. Á fundinum fékk ráðherra upplýsingar um gang mála á skátamótinu og þær áskoranir sem mætt hafa þátttakendum og stjórnendum. Umfang mótsins er mikið og viðfangsefnin mörg enda er þessi viðburður af svipaðri stærðargráðu og Vetrarólympíuleikar eins og Hrönn Pétursdóttir mótsstjóri benti á.

Fundurinn fór fram í elsta skátaskála Úlfljótsvatns, Gilwell-skálanum. Fór vel á því enda er faðir Óttarrs, Dr. Ólafur Proppé, skólastjóri Gilwell-skólans sem heldur utan um leiðtogaþjálfun íslenskra skáta.

Magnað að upplifa stemmningu og samheldni

Það er magnað að fá að upplifa stemmninguna og samheldnina á þessu alþjóðlega skátamóti. Skátastarf er mikilvægt fyrir ungt fólk en það er ekki bara leið fyrir ungt fólk að vaxa úr grasi og standa á eigin fótum heldur mikilvægt lýðheilsu- og lýðræðismál”.

Hrönn Pétujrsdóttir mótsstjóri, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi. Ljósmynd: Nicolas Mercier