Ef þér finnst þessi staðhæfing rétt þarftu ekki að lesa áfram

Nokkur skátafélög á landinu hafa virkjað krafta fullorðinna sjálfboðaliða og eru með starfandi skátasveitir fyrir fullorðna. Þar sækja fullorðnir sér fræðslu, hafa gaman saman og fá að tilheyra, gefa af sér og njóta samveru með börnum sínum og ungmennum. Þessi sömu skátafélög geta státað af öflugu starfi og fjölgun iðkenda sl. ár.

Það er nefnilega þannig að öflugt skátastarf er ekki mögulegt nema með aðkomu fullorðinna og við sem vinnum sem fullorðnir sjálfboðaliðar vitum hversu gefandi þetta starf er – en einnig hversu nauðsynlegt það er til að halda uppi ábyrgu og flottu skátastarfi.

Á skátaþingi 2015 var samþykkt stefnumótun fyrir skátastarf og framtíðarsýn til ársins 2020. Þar segir m.a.:

Árið 2020 verður skátahreyfingin á Íslandi orðin þekkt af stjórnvöldum og almenningi í landinu sem ein fremsta uppeldishreyfing á Íslandi með um 5000 starfandi skátum í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins, sem deila sameiginlegum gildum og hafa áhrif til góðs í samfélagi sínu og í heiminum öllum.

Til þess að fjölga skátum og efla gæði skátastarfs þarf að fjölga verulega fullorðnum sjálfboðaliðum í skátastarfi.

Og hvernig gerum við það?

Fræðsluráð ætlar á næstu misserum að aðstoða skátafélög við að fjölga fullorðnum sjálfboðaliðum til að efla skátastarfið í skátafélögunum og þannig á landinu öllu.

Unnin hefur verið áætlun og samþykkt af stjórn BÍS, um hvernig komið verði á fót öflugu „mannauðskerfi skáta“:

 • Október 2016: Útgáfa á íslenskri þýðingu kynningarbæklings frá WOSM um sjálfboðaliða. Bæklinginn má finna í vefútgáfu hér.  sjalfbodalidar-forsida
 • Október – desember 2016: Viðræður við félagsforingja allra skátafélaga þar sem verkefnið er kynnt. Fulltrúar fræðsluráðs eru að hitta félagsforingja þessa dagana.
 • Desember 2016: Útgáfa á handbók fyrir fyrirliða sjálfboðastarfs.
 • Janúar 2017: Búið að skipa fyrirliða sjálfboðastarfs í skátafélögum.
 • Febrúar – mars 2017: Námskeið fyrir fyrirliða sjálfboðastarfs.
 • Maí 2017: „Mannauðskerfi skáta“ fullmótað og þarfagreiningar fyrir sjálfboðaliða tilbúnar.

Og hvað á hann svo að gera þessi „fyrirliði sjálfboðastarfs“?

Meðal þeirra verkefna sem gætu verið á höndum fyrirliða sjálfboðastarfs eru:

 • Hafa yfirumsjón með mannauðskerfi skátafélagsins og halda utan um framkvæmd þess í félaginu.
 • Halda utan um lista yfir þarfir skátafélagsins fyrir sjálfboðaliða (í hvaða hlutverk/verkefni vantar sjálfboðaliða?).
 • Halda utan um nafnalista skátafélagsins (lifandi listi þar sem safnað er saman allt árið um kring nöfnum einstaklinga sem mögulega koma til greina fyrir ýmis verkefni).
 • Taka þátt í því að velja hæfa sjálfboðaliða (af nafnalistanum) í tiltekin hlutverk og gera við þá samkomulag um afmörkuð verkefni.
 • Stýra kynningarfundum fyrir fullorðna, til að kveikja áhuga þeirra á að taka þátt í skátastarfi eða aðstoða við ákveðin verkefni.
 • Taka þátt í samstarfi með fyrirliðum sjálfboðaliða í öðrum skátafélögum, fræðsluráði BÍS, stjórn Gilwell-skólans og starfsfólki Skátamiðstöðvarinnar.

Þarf hann að vera ofurskáti þessi „fyrirliði sjálfboðastarfs“?

Nei, því fyrirliðinn getur verið eldri félagi, einhver úr hópi foreldra eða einhver sem nú þegar situr í stjórn félagsins sem tekur verkefnið að sér.

Hvernig væri að heyra í honum Kalla sem langar að vera með en hefur ekki alveg tíma fyrir vikulega fundi? Eða Stínu sem er snillingur í að tala við fólk og virkja það til góðra verka?

Viltu vita meira?

Verkefnið er á ábyrgð Fræðsluráðs BÍS og munu sjálfboðaliðar úr ráðinu og stjórn Gilwell-skólans, ásamt Dagbjörtu Brynjarsdóttur verkefnastjóra fræðslu- og dagskrármála í Skátamiðstöðinni, vinna með félagsforingjum að verkefninu, vera þeim til stuðnings í upphafi og starfa með og styðja við bakið á fyrirliðunum eftir að þeir hafa verið skipaðir.

Ef þig langar að vita meira eða leggja okkur lið þá hafðu endilega samband við okkur og við upplýsum þig og/eða virkjum krafta þína.

Hér má sjá greinar sem birst hafa á vefmiðlum skátanna um fullorðna í skátastarfi síðustu mánuði.

:: Fornmenn fóru að iðrum jarðar 

:: 5000 skátar fyrir 2020, en hvernig?