Í gær fóru skátar í samfélagsþjónustu frá Heimalandi til Hvolsvallar en Heimaland er eitt 11 dagskrársvæða World Scout Moot.

Hópurinn gaf sig fram við starfsmann íþróttavallar bæjarins sem í fyrstu var ekki sannfærður á ágæti þeirrar hugmyndar að fá skátahópinn í vinnu. Verkefni dagsins var að hreinsa hlaupabrautina í kringum íþróttavöllinn sem orðin var í heldur lélegu ástandi og talsvert grasi gróin.

Bæjarstarfsmenn voru búnir að plægja völlinn og nú var komið að skátunum sem brettu upp ermarnar og byrjuðu að vinna. Völlurinn var kantskorinn, torfið tekið upp og sett í fötur og kerrur.

Þegar á leið lyftist heldur betur brúnin á starfsmanni bæjarins: Ég leit á völlinn í morgun og hugsaði með mér að þetta væri óvinnandi verk. Mikill kraftur, samvinna og vinnugleði skátanna hefur vakið athygli allra þeirra sem hafa fylgst með”. 

„Lengi lifi skátastarfið”

Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri hreifst með eins og margur fyrir austan og sendi okkur eftirfarandi kveðju:

Kæru vinir. Fyrir hönd sveitarfélagsins þakka ég ykkur fyrir frábært starf World Scout Moot 2017. Það var einstakt að fylgjast með frábæru skipulags, leikgleði og hve hópurinn stóð sig vel í samfélagsverkefnum. Það var ekki heldur verra að fá hina rangæsku valkyrju og söngkonu Magneu Tómasdóttur til að stýra verkefnum. Pabbi hennar Tómas Grétar skáti tók þátt í ómetanlegum samfélagsverkefnum hér um slóðir í eina tíð. Allt þetta unga fólk lærir mikið á að vera þátttakendur í verkefnum sem þessum. “ Lengi lifi skátastarfið“.
Kveðja, Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

20.000 vinnustundir í sjálfboðavinnu

World Scout Moot stendur yfir í níu daga frá 25. júlí – 2. ágúst. Eftir mótssetningu, sem fram fór í Laugardalshöll á þriðjudag, dreifðust þátttakendur á ellefu miðstöðvar víðsvegar um landið þar sem þeir hafa tekið þátt í fjölbreyttri dagskrá síðustu daga sem snýst um ævintýri og virkni, menningu og umhverfi. Þeir hafa einnig lagt nærsamfélagi hvers staðar lið með u.þ.b. 20.000 vinnustundum í sjálfboðaliðavinnu.

Í dag safnast allir saman á Úlfljótsvatni og dvelja þar við leik og störf fram á miðvikudag.

/gp