Alls hefur 1.500.000 dósum og flöskum verið skilað til endurvinnslustöðvarinnar í Skátamiðstöðinni að Hraunbæ 123 frá því hún var opnuð fyrir ári síðan. Viðskiptavinurinn sem skilaði inn tímamótadósinni heitir Valgerður Andrésdóttir og fékk hún að launum sígrænt jólatré frá skátunum og blómvönd.

Allra ávinningur

Það er ávinningur allra að skila dósum til Skátanna. Viðskiptavinir móttökustöðvarinnar fá að sjálfsögðu sitt 14 krónu skilagjald  á hverja einingu eins og á öðrum stöðvum og skátarnir fá þóknum frá Endurvinnslunni fyrir hverja afgreidda einingu. Með því að koma með dósirnar sínar í móttökustöðina í Hraunbænum stuðlar fólk einnig að fleiri atvinnutækifærum fyrir fatlaða, því nokkrir einstaklingar með skerta starfsgetu vinna hjá Grænum skátum, eins og rekstrareiningin heitir.

Rafræn túrbótalningarstöð

Móttökustöðin í Hraunbænum er aðeins ársgömul og búnaður hennar með því besta sem gerist.   Viðskiptavinir Skátanna geta komið í móttökustöðina án fyrirhafnar við að telja umbúðirnar og geta sturtað umbúðunum í túrbótalningavélina og losna þar með við allt subb. Nákvæmnin er mikil og allt skilagjald skilar sér til viðskiptavinarins.

Góð leið fyrir félagasamtök

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Grænna skáta, segir að þau vilji þjónusta og létta undir með félagasamtökum.  „Yfir jólahátíðirnar og eftir áramót bjóðum við félagasamtökum og öðrum sem safna dósum að koma með dósirnar til okkar og telja.  Það er fjórfaldur ávinningur. Við eflum  endurvinnslu á Íslandi, leggjum fjáröflun viðkomandi einingar lið, styrkjum skátastarf á Íslandi og losnum við allt subb í heimahúsum,“ segir hann.

Móttökustöðin í Hraunbæ 123 er opin alla virka daga kl. 12:00 – 18:00 og laugardaga og sunnudaga kl. 12:00 – 16:30. Sími 550-9800

Nánari upplýsingar veitir Hermann Sigurðsson, farsími 693-3836

Meðfylgjandi er ljósmynd af verðlaunahafanum með ánægðum starfsmönnum í rafrænu móttökustöðinni í Hraunbæ 123.

Ljósmyndari; Skátarnir