Skátaflokkar Íslands á fleygiferð

Flokkakeppni landsmóts „Skátaflokkur Íslands“ hefur fengið frábærar viðtökur og eru fjölmargir skátaflokkar þegar komnir á fleygiferð.

hausbanner-landsmot-2Aðalkeppnin fer fram á landsmótinu sjálfu en nú eru allir skátaflokkar hvattir til að æfa sig á fjölbreyttum verkefnum fram að móti og næla sér í nokkur fyrirfram stig!

Útbúin hafa verið æfingaverkefni frá fortíð, nútíð og framtíð sem eru hugsuð sem undirbúningsverkefni fyrir skátaflokkana auk sérstakra skilaverkefna en með því að leysa þau á tilsettum tíma gefst flokkunum kostur á að vinna sér inn allt að 50 stigum fyrir hvert þeirra. Nú þegar eru fyrstu skilaverkefnin farin að berast til mótsstjórnar og má því með sanni segja að skátaflokkarnir hafi tekið vel við sér. 

Kínverska og kvikmyndagerð

Æfingaverkefnin eru mjög fjölbreytt og spennandi. Í flokknum „Fortíð“ má finna gömul og góð verkefni sem tengjast til dæmis áttavitanum og hnútum. Flokkurinn „Nútið“ inniheldur verkefni á borð við skyndihjálp, ratleik á netinu og kennslu í kínversku og í flokknum „Framtíð“ spreyta skátaflokkarnir sig á forritun, kvikmyndagerð og að útbúa hlífðar- og lendingarbúnað fyrir egg svo dæmi séu tekin.

:: Skoða bækling um flokkakeppnina og dagskrárhringstilboð fyrir „Skátaflokkur Íslands“

Kynningarbæklingur um landsmót

Það er svo sannarlega kraftur í mótsstjórn og vinnunefndum fyrir mótið enda veitir ekki því það er í mörg horn að líta. Í dag sendu þau frá sér glæsilegan kynningarbækling um mótið sem inniheldur fróðleik og upplýsingar fyrir foreldra og forráðamenn skátanna.

:: Skoða kynningarbækling um landsmót skáta 2014

Nánari upplýsingar

Landsmót skáta 2014 fer fram að Hömrum við Akureyri, Útilífs- og umhverfismiðstöð skáta, dagana 20.-27. júlí. Hamrar, útilífs- og umhverfismiðstöð skáta er fjölbreytt útivistar- og athafnasvæði þar sem lögð er áhersla á umhverfismál, ferðamál og almenna útivist með þarfir skátahreyfingarinnar og almennings í huga. Svæðið er staðsett í útjaðri Akureyrar undir hrikalegu klettabelti sem aðskilur Eyrarlandsháls og Súlur frá láglendinu við botn Eyjafjarðar.

Nánari upplýsingar veitir Jón Ingvar Bragason, verkefnastjóri landsmóts í síma 550 9800 (jon@skatar.is)

:: Skoða heimasíðu landsmóts

 

1 UMSÖGN

Skilja eftir svar