form_2jadalka_skatalog Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar er að finna í skátaheitinu og skátalögunum. Fyrirmynd þeirra er í samþykktum alþjóðahreyfinga skáta – en orðalag er svolítið mismunandi eftir löndum, menningarheimum og tungumálum.

Skátaheit

Skátaheitið er loforð sem skátinn gefur sjálfum sér, eins konar persónuleg áskorun um að gera sitt besta. Þegar skátinn vinnur skátaheitið er hann að taka fyrsta meðvitaða skrefið á sjálfsnámsbrautinni til að verða sjálfstæður, virkur og ábyrgur samfélagsþegn. Hægt er að velja tvær útgáfur af skátaheitinu: Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að gera skyldu mína við (guð/samvisku) og (ættjörðina/samfélag) , að hjálpa öðrum og að halda skátalögin. Skátarnir lofa því ekki að þeim muni aldrei mistakast að standa við heitt sitt. Þeir einfaldlega lofa því að gera sitt besta til að standa við orð sín. Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar eru oft flokkuð á eftirfarandi hátt:
  • „Skyldan við guð“ – tengsl einstaklingsins við leitina að lífsgildum sem eru ofar honum sjálfum.
  • „Skyldan við aðra“ – tengsl einstaklingsins við samfélagið og ábyrgð hans innan þess.
  • „Skyldan við sjálfan sig“ – ábyrgð einstaklingsins á að þroska hæfileika sína eins og mögulegt er.
Orðalag í skátaheitinu er að sjálfsögðu svolítið barn síns tíma og ber ekki að taka of bókstaflega. Skátahreyfingin er til dæmis ekki bundin tilteknum trúarbrögðum, löndum eða landsvæðum, ríkjum eða menningarheimum. Hún er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing sem leggur áherslu á mótun sjálfstæðra og heilsteyptra einstaklinga, sem taka á virkan hátt og af fullri ábyrgð þátt í uppbyggingu samfélagsins, hvort sem það er innan fjölskyldunnar, í skólanum, á vinnustaðnum, í viðkomandi þjóðfélagi eða í alþjóðlegu samfélagi allra manna. „Guð“ í skátaheitinu vísar til andlegs þroska skátans sem hugsandi heilsteypts einstaklings sem byggir líf sitt á lífsgildum eins og kærleika, ígrundun, siðgæði, umburðarlyndi og samhjálp. Að sjálfsögðu leggur svo hver og einn sína merkingu í guðs-hugtakið í takti við þau trúarbrögð sem hann eða hún aðhyllist, hvort sem það er kristni, íslam, búddismi, ásatrú eða annað. Varast ætti, í því fjölmenningarsamfélagi sem Ísland er orðið, að tengja skátastarf um of við tiltekin trúarbrögð eða beina hefðbundna trúariðkun. „Ættjörðin“ í skátaheitinu vísar til þess samfélags sem við búum í, þeirrar menningar sem við þekkjum best og að sjálfsögðu þess lands sem við byggjum. Í augum ungs skáta vísar „ættjörðin“ til nánasta umhverfis og nærsamfélags í faðmi fjölskyldu og skóla. Eftir því sem einstaklingurinn þroskast, víkkar þessi sýn og nær til Íslands alls, íslenskrar menningar, tungumáls og íslenskrar náttúru. Fyrir hinn fullorðna og þroskaða skáta vísar „ættjörðin“ til náttúrunnar allrar, fjölbreyttra menningarheilda og alls mannkyns. Þó að skátar hér á landi leggi áherslu á íslenskan menningararf, íslenska fánann og íslenska þjóð, ber að varast að tengja skátastarf um of við þjóðerni og alls ekki við þjóðernisstefnu eða þjóðernisskrum. „Að hjálpa öðrum“ í skátaheitinu vísar til þeirra mikilvægu tengsla sem eru milli einstaklings og samfélags. Það vísar til samfélagslegrar ábyrgðar hvers og eins. Þroski mannsins er algerlega háður gagnvirkum samskiptum einstaklingsins við aðrar manneskjur, við samfélag manna. Þess vegna er beinlínis rangt og varasamt að tengja „að hjálpa öðrum“ einungis við það að hjálpa þeim sem eiga bágt – við góðmennsku eða manngæsku. Að sjálfsögðu ber að hjálpa þeim sem þjást, eru fátækir eða í jaðarhópum, eru einangraðir eða utanveltu. En við gerum það ekki einungis af því að við erum svo góð og fórnfús – heldur á grundvelli manngildishugsjónar okkar og hugmynda um réttlæti, jafnræði, jafnrétti og sjálfbærni til handa öllum samfélögum og öllum mönnum, konum og körlum. Við hjálpum öðrum til þess að allir fái sem jöfnust tækifæri í lífinu og þannig eflum við samfélagið í heild. Að lokum áréttar skátaheitið viljann til „að halda skátalögin“. Það snýst ekki um að kunna lögin utan að eða að virða þau sem utanaðkomandi reglur – eins og umferðarreglur. Loforðið um að gera sitt besta til að halda skátalögin er eitthvað meira. Það snýst um að lifa skátalögin – að gera þau að hluta sannfæringar okkar – hluta af okkur sjálfum. Þá verða skátalögin eðlilegur hluti af persónuleika okkar, viðmóti og hegðun. Þetta þroskaferli snýst um breytingu frá blindri hlýðni við lærðar reglur til siðferðilegs sjálfstæðis. Um það snúast skátalögin. Að lifa skátalögin er ekki bara loforð sem við gefum fyrir unglingsárin eða á meðan við erum í formlegu skátastarfi. Loforðið gildir allt lífið, í skátastarfi og utan þess. Þetta er það sem margir eldri skátar eiga við þegar þeir segja „eitt sinn skáti, ávallt skáti“.

Skátalögin

Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar eru sett fram á skipulegan hátt í skátalögunum. Skátalögin eru þó miklu meira en bara skipulagskerfi hugmynda. Þau eru í raun hegðunarmynstur sem ungt fólk getur valið að fylgja og nota til að móta stefnu sína í lífinu. Til þess að vera sjálfum sér samkvæmur þarf hver einstaklingur að hugsa og haga sér í samræmi við eigin gildi. Skátalögin eru ekki tilskipun heldur tilboð um viðhorf og hegðun. Tilboðið er heillandi, sett fram á einfaldan og auðskilinn hátt á einföldu og aðgengilegu máli. Þegar skátarnir eru tilbúnir til að vinna skátaheitið lofa þeir sjálfum sér að reyna að framfylgja þeim gildum sem koma fram í skátalögunum og gera þau þannig að persónulegum lífsgildum sínum. Skátalögin
Skáti er hjálpsamur Skáti er glaðvær Skáti er traustur Skáti er náttúruvinur Skáti er tillitssamur
Skáti er heiðarlegur Skáti er samvinnufús Skáti er nýtinn Skáti er réttsýnn Skáti er sjálfstæður
Frá 10-11 ára aldri, þegar börn fara að hugsa rökrétt, þróa þau smám saman með sér siðferðilegt sjálfstæði. Þau verða fær um að dæma fólk eftir gjörðum þess og benda á sérstaka þætti í fari þess. Þau skynja galla og veikleika og trúa ekki lengur í blindni á „yfirvaldið“. Þess vegna fara þau sjálf að dæma um eigin athafnir og annarra. Börn viðurkenna siðferðilegar reglur sem leið til að deila réttindum og skyldum innan þess hóps sem þau tilheyra. Allt fram til 12 ára aldurs samþykkja þau reglur sem nokkurs konar samning milli einstaklinga. Eftir það öðlast þau smám saman skilning á að reglur eru ekki ósnertanlegar heldur er hægt að breyta þeim með samkomulagi. Smám saman, sérstaklega á seinna stigi gelgjuskeiðsins í kring um 15 ára aldurinn, fer unglingurinn svo að móta með sér altæk gildi eins og réttlæti, samvinnu, jafnrétti og virðingu.