Hlutverk sveitarforingja

Hlutverk sveitarforingja

Eitt mikilvægasta og mest gefandi hlutverk sveitarforingja dreka-, fálka- og dróttskáta snýr að samsetningu og sjálfstæði hópa eða flokka skátasveitarinnar. Hlutverk sveitarforingjans er mjög ólíkt eftir aldursstigum skátasveitanna en alltaf jafn mikilvægt.

Í drekaskátastarfinu hafa börnin ekki þroska til að mynda óformlega hópa með þeim eiginleikum sem einkenna slíka hópa og því er flokkakerfið sem slíkt ekki hluti af skátaaðferðinni í drekaskátastarfi.

Þroski barna til að mynda félagsleg tengsl og skuldbindingar sem einkenna óformlega hópa er einfaldlega ekki fyrir hendi hjá börnum á aldrinum 7-9 ára. Hóparnir sem við myndum í drekaskátasveitinni eru því tilfallandi vinnuhópar sem myndaðir eru vegna verkefna eða vinnu að tímabundnum viðfangsefnum. Drekaskátahóparnir eru ágætir sem slíkir, en hafa einnig annan mikilvægan tilgang er lýtur að því að búa til farveg fyrir myndun óformlegra hópa í fálkaskátastarfinu, myndun vinahópa jafningja – „alvöru skátaflokka“.

Hlutverk sveitarforingja er mismunandi á milli aldursstiga

 • Í drekaskátasveitinni er megináherslan á að börnin kynnist sem flestum og myndi vináttusamband við jafnaldra í skátasveitinni, þannig að í lok drekaskátastarfsins séu komnir vísar að traustum vinahópum sem hver og einn geti myndað framtíðar skátaflokk í fálkaskátasveit, með þeim eiginleikum sem einkenna óformlega hópa sem mynda jákvæðan lærdómsvettvang ungmenna. Með skátaaðferðina að vopni og vænan skammt af alúð og þolinmæði er þetta mikilvæga hlutverk sveitarforingjanna bæði vandasöm og gefandi áskorun.
 • Í fálkaskátasveitinni er megináherslan á að þjálfa skátana í flokkunum í samvinnu og sjálfstæðum vinnubrögðum, veita þeim hvatningu og leiðsögn til sí aukins sjálfstæðis og frumkvæðis í flokksstarfinu. Skátaaðferðin og dagskrárhringurinn eru sveitarforingjanum ómetanlegir leiðarvísar í þessum mikilvæga leiðangri. Ef skátaforingjum fálkaskátasveita lánast að setja sig í uppeldishlutverk stóru systur eða stóra bróður eins og Baden Powell orðaði það og vinna með skátunum og skátaflokkunum að myndun samstæðra og sjálfstæðra skátaflokka á þessu mikilvæga mótunartímabili þá hefur mjög mikið áunnist við að gera skátana að sjálfstæðum, virkum og ábyrgum einstaklingum sem geta nýtt sér uppeldisaðferðir og gildi skátahreyfingarinnar til áframhaldandi þroska.
 • Í dróttskátasveitinni er megináherslan á ört vaxandi sjálfstæði skátaflokksins, sveitarforinginn þarf við undirbúning hvers dagskrárhrings og hvert inngrip í starf skátaflokkanna að leiða hugann að því hvernig efla megi skátaflokkinn, auka sjálfstæði hans og frumkvæði. Hlutverk sveitarforingjans er að leiðbeina í gegnum sveitarráðið, styðja þegar þörf er fyrir stuðning, hvetja þegar hvatningar er þörf og hrósa þegar samhentur flokkurinn leggur sig allan fram við vinnu að verkefnum sem hann valdi, undirbjó og framkvæmdi í sameiningu. Það er ekki hlutverk sveitarforingjanna að mynda öflug keppnislið ungmenna sem rúlla jafnöldrum sínum upp í tilgangslitlum flokkakeppnum um hæfnisþætti sem fyrirfram eru skilgreindir af foringjaflokki, sveitarráði, BÍS eða öðrum utanaðkomandi aðilum. Eins áhugaverðar og þannig keppnir geta verið, hentar slík nálgun í besta falli sumum, oftast mjög fáum, – og getur beinlínis unnið gegn því sem við viljum stuðla að með flokkakerfinu og flokknum sem lærdómsvettvangi.

Hlutverk sveitarforingja gagnvart hópunum í drekaskátasveitinni og flokkunum í fálka- og dróttskátasveitunum er því mismunandi, en alltaf mikilvægt. Það er jafnframt frábrugðið hlutverki sveitarforingjans sem umsjónarforingja hvers einstaks skáta í vinnu hans að áfangamarkmiðum sínum og persónulegum áskorunum. Í þeirri vinnu þarf hvert barn og ungmenni að finna fyrir viðvarandi stuðningi og nálægð fullorðins skátaforingja í skátastarfinu.

Stjórnunarhlutverk sveitarforingja

Sem leiðtogar í skátahreyfingunni gegna sveitarforingjar margþættum leiðtoga- og stjórnunarhlutverkum

 • Fjölga fullorðnum sjálfboðaliðum skátasveitarinnar
 • Efla sjálfstæði skátaflokka sveitarinnar
 • Móta skátasveitina
 • Gæta hugsjónarinnar sem felst í markmiðum skátahreyfingarinnar
 • Vísa leiðina að framtíðarsýn sveitarinnar
 • Hvetja skátana til dáða
 • Gegna uppeldishlutverki

Leiðbeinendahlutverk sveitarforingja

Til að vera færir um að sinna hlutverki sínu verða sveitarforingjar að hafa grundvallarþekkingu á uppeldi og menntun sem gerir þeim kleift að sinna ábyrgu uppeldisstarfi hreyfingarinnar.

Þeir þurfa að:

 • Þekkja almenn þroskaeinkenni barna og unglinga og séreinkenni hvers og eins skáta
 • Vera fær um að stofna til tilfinningasambanda við ungt fólk
 • Vera fúsir til að læra og þroskast sem manneskja
 • Vita hvernig á að stjórna verkefnum og meta þau
 • Hjálpa öðrum að vaxa og þroskast
 • Tengjast og taka þátt í samfélaginu
 • Vinna sem liðsheild
 • Gefa sér tíma
 • Skynja áhættu og stýra forvörnum
 • Gæta vel að persónuverndarsjónarmiðum
 • Vernda börn og ungmenni fyrir hvers kyns ofbeldi, einelti eða misbeitingu valds

Hlutverk sveitarforingjans í hnotskurn

Almennt má segja að sveitarforingjarnir séu í hlutverki óbeinna leiðbeinenda um uppeldi og menntun, annað hvort sem hópur eða einstaklingar, með því:

 • Að skapa aðstæður fyrir sveitarstarfið og móta andrúmsloftið í sveitinni þannig að það sé lýðræðislegt, hlýlegt, uppbyggjandi og krefjandi.
 • Að vekja athygli á meginmarkmiðum skátahreyfingarinnar og framtíðarsýn sveitarinnar.
 • Að vera leiðbeinandi flokkanna og flokksforingjanna í gegnum sveitarráðið.
 • Að gæta þess að allir þættir skátaaðferðarinnar séu nýttir í sveitastarfinu og skapa skilyrði fyrir lærdómsvettvang í flokkunum.
 • Að undirbúa bakgrunnsupplýsingar fyrir fundi sveitarþings og sveitarráðs og gæta þess að þar séu teknar ákvarðanir sem hæfa þroska skátanna í sveitinni.
 • Sjá til þess að viðfangsefni skátanna séu skemmtileg, viðráðanleg og fjölbreytt.
 • Að bera ábyrgð á því að fylgjast með og meta framfarir hvers einstaks skáta eins.
 • Að undirbúa og halda foreldrafundi til að kynna starf sveitarinnar, framtíðarsýn hennar, markmið skátahreyfingarinnar og hlutverk foreldra í uppeldisstarfi skátasveitarinnar.
 • Bera ábyrgð á störfum sveitarinnar, sveitarráðsins,  flokkanna og foringjaflokks sveitarforingjanna gagnvart BÍS, félagsstjórn og foreldrum.
 • Annast samskipti við aðila utan skáta sveitarinnar, veita upplýsingar um starf hennar og miðla upplýsingum til skátanna í sveitinni.