Gæði og mat

Hvernig vitum við hvort skátastarfið í sveitinni okkar sé gott – Hvernig getum við metið skátastarfið?

Mat byggir á samanburði á því sem metið er og skilgreindum viðmiðunum. Til þess að matið nái tilgangi sínum þurfa að liggja fyrir skilgreiningar sem fela í sér þessi viðmið. Það ræðst því af viðmiði hvort og þá hversu vel skátastarfið samræmist Skátaaðferðinni og markmiðum BÍS.

Það sama á við um viðfangsefni skátanna, hversu vel skátinn kunni á GPS tæki eða hvort skátinn geti greint muninn á hollum lífsháttum og óhollum. Viðmiðin sem notuð eru hverju sinni eru ákvörðunaratriði. Staðreyndin er hins vegar sú að það sem einum þykir gott þykir öðrum þokkalegt– það er því mikilvægt að samhugur ríki um viðmið þegar reynt er að meta gæði skátastarfs.

Það er mjög mikilvægt að hver skátasveit móti sínar aðferðir til þess að leggja mat á gæði eigin starfs. Hverjum skátaforingja er ætlað að láta starfið stjórnast af Skátaaðferðinni, þörfum skátanna, aðstæðum í félaginu og sveitarfélaginu.

Fögnum árangri

Gott mat byggist á að það sé gert af alvöru, heiðarlega og með jákvæðu hugarfari. Ef sveitin hefur tekið sjáanlegum framförum ætti að fagna því. Einnig verður að gera greinarmun á atriðum sem eru samkvæmt eðlilegum væntingum og verkefnum þar sem sveitin skarar framúr. Framfarir þurfa því að vera sýnilegar. Þannig viljum við alltaf gera betur.

Hrós er einföld og óformleg leið til að sýna að framfarirnar eru eftirtektarverðar. Formleg viðurkenning getur einnig verið nauðsynleg. Smáathöfn á miðju starfsári gefur öllum tækifæri til þess að sýna framförum annarra áhuga. Tákn um unnin árangur, svo sem merki, hvatatákn, skjal eða ljósmynd, er áþreifanleg viðurkenning þess að skátinn hefur náð ákveðnum árangri.

Hvernig metum við skátastarf

Við mat er afmörkun mikilvæg. Það er ómögulegt að ætla að meta allt starfið í einu – og því er matið afmarkað út frá ákveðnu markmiði, einhver ákveðin viðmið höfð að leiðarljósi sem sátt er um. Til þess að það sé hægt þarf að liggja fyrir vitneskja um hvað einkennir starfið í sveitinni og að samhugur ríki um stefnu, starfsaðferðir og sérkenni skátastarfsins.

Það þarf einnig að taka ákvörðun um hver ber ábyrgð á því að matið sé framkvæmt og hver ætlar að meta starfið. Er það foringjaflokkurinn, sveitarráðið, sveitarþingið eða félagsstjórnin? Þegar þetta hefur verið ákveðið þarf að upphugsa skipulag sem hæfir tilgangi matsins. Hvað á að meta? Með hvaða aðferðum er heppilegast að afla upplýsinganna? Hvaða upplýsingar liggja nú þegar fyrir? Hvernig á að greina upplýsingarnar?

Dæmi um mælanleg atriði sem einkenna gott skátastarf.

Viðburðir í dagskrárhring skátasveitarinnar:

 • Eru valdir á lýðræðislegan hátt
 • Eru vel undirbúnir og skipulagðir
 • Skátarnir og foreldrar þeirra eru vel upplýstir um viðburðina og tilgang þeirra
 • Verkskipting er mikil og góð
 • Samræmast Skátaaðferðinni
 • Vekja áhuga skátanna.

Skátarnir:

 • Eru áhugasamir um starfið og taka virkan þátt í verkefnum
 • Sýna frumkvæði
 • Eru ábyrgir og hjálpsamir
 • Koma fram af vinsemd og virðingu
 • Koma vel útbúnir
 • Eru stundvísir
 • Fylgja leiðsögn og fyrirmælum

Þegar þessum spurningum hefur verið svarað eru framkvæmdar athuganir, gögnin túlkuð samkvæmt aðferðum sem sveitarráðið eða sveitin er sátt við og niðurstöður kynntar. Með hliðsjón af niðurstöðum matsins ætti alltaf að gera umbótaáætlun. Þegar matið liggur fyrir þarf að birta það. Getur til dæmis verið að matið eigi að kynna á sameiginlegum fundi foreldra og skáta eða er það eingöngu til umfjöllunar í foringjaflokk eða sveitarráði?

Mat á einstökum viðburðum eða önn

Endurmat á einstökum viðburðum, dagskrárhring eða önn getur farið fram með ýmsum hætti. Oft getur reynst heppilegt að nota rafrænt endurmat, en hægt er að búa til kannanir frítt á einfaldan máta á vefjum eins og www.survs.com.

Hins vegar getur oft reynst mun heppilegra að endurmeta með skapandi aðferðum, en á verkefnavefnum er fjölda endurmatsleikja sem hægt er að nota til þess að meta viðburði.  Þú getur skoðað yfirlit yfir endurmatsleiki undir viðfangsefninu Lýðræðis- og endurmatsleikir.

Mat á sveitarforingja

Góður sveitarforingi

Hvað er það sem einkennir góða sveitarforingja? Það er gott að staldra við og skoða sjálfan sig og eigin störf. Það er bæði hægt með því að fara yfir fyrrgreind atriði og spyrja sig hvernig þau eigi við um störf sín sem sveitarforingja eða fá foringjaflokkinn eða sveitarráðið til þess að meta störf þín.
Ef annar skátaforingi er fenginn til þess að meta störf sveitarforingja og sveitarinnar gæti verið gott fyrir hann að skoða eftirfarandi þætti:

 • Skilur foringinn örugglega markmið skátastarfsins?
 • Hvaða viðhorf hefur foringinn til skátastarfsins?
 • Er samræmi á milli framtíðarsýnar, markmiða, áætlana og framkvæmda?
 • Hvernig notar hann Skátaaðferðina á hagnýtan hátt þannig að aðstæður séu fjölbreytilegar og stuðli að auknum þroska skátanna?
 • Hvernig er unnið að því að skátarnir verði færari í að vinna samkvæmt Skátaaðferðinni?
 • Hvaða stuðning veitir foringinn skátunum til þess að aðstæður, sem virðast erfiðar, verði lærdómsríkar?
 • Hvernig stuðlar foringinn að jákvæðu andrúmslofti og samheldni í hóp?
 • Hvernig gerir hann dagleg verkefni og samskipti innan hópsins lærdómsrík og gefandi?
 • Hvað einkennir stjórnunarstíl foringjans?
 • Hvernig er þátttaka skátanna, t.d. varðandi nýliðun og brottfall?
 • Vita skátarnir og foreldrar þeirra að hverju er stefnt í starfinu?
 • Hvaða viðhorf hafa skátarnir og foreldrar þeirra til starfsins í skátasveitinni?
 • Er mikil nýliðun eða mikið brottfall í skátasveitinni?
Góður aðstoðarsveitarforingi

Hvað er góður skátaforingi? Hvaða væntingar höfum við til skátaforingjanna okkar? Hægt er að leggja einfalda könnun fyrir sveitarráðið til þess að efla starfið enn frekar og finna heppilega foringja. Hver og einn á að velja fimm eiginleika sem honum finnast mikilvægastir góðum aðstoðarsveitarforingja. Síðan er athugað hvort allir geti orðið sammála um fimm eiginleika sem æskilegt er að aðstoðarsveitarforinginn hafi. Raða á þessum eiginleikum í áhersluröð með tilliti til mikilvægi þeirra. Hægt er að nota niðurstöður til þess að leita að og velja heppilegan aðstoðarsveitarforingja eða þá eins til þess að hvetja núverandi foringja til dáða. Þá er það hvers og eins að líta í eigin barm og hugleiða hvernig hann eða hún geti þjálfað og nýtt þessa eðliskosti. Hvaða breytingar þarf að gera til þess að þessi listi eigi við flokksforingja annars vegar og sveitarforingja hins vegar?

 • Tekur þátt í öllu starfi skátasveitarinnar
 • Virðir félaga sína í orði og verki
 • Getur stjórnað skátahópi og útdeilt verkefnum
 • Er hlýr og notalegur þegar eitthvað bjátar á
 • Er klár í skyndihjálp
 • Er hlýðinn og trúr sveitarforingjanum
 • Er hreinskiptinn og óhætt að treysta honum
 • Hefur góða tilfinningu fyrir því sem er að gerast í kring um hann
 • Hefur haldgóða færni í öllu því sem skáti á að kunna
 • Gerir alla samvirka í starfinu
 • Nær vel til þeirra sem hann talar við og kann líka að hlusta
 • Mætir erfiðleikum með bros á vör
 • Er ákveðinn og stefnufastur
 • Er stundvís
 • Er þrautseigur og þolinmóður
 • Er góður skipuleggjandi
 • Gerir fundi og verkefni áhugaverð og skemmtileg
 • Ætlar öllum einhvern þátt í hverju verkefni
 • Er lagviss og spilar á gítar
 • Er lifandi „kennslumyndband“ fyrir skátana
 • Er stoltur af því að vera skáti

Mat sem tæki til framfara

Þegar verkefni er lokið, til dæmis dagferð eða útilega, þá þarf að leggja mat á hvernig til hefur tekist. Það er lokapunkturinn á hverju viðfangsefni. Skátar vilja læra af reynslunni – „Learning by doing“  …ekki bara „doing“.

Til þess að viðhalda áhuga þurfa allir að fá tækifæri til að gera betur og ná árangri. Þess vegna er það góð vinnuregla að leggja mat á það sem gert er hverju sinni. Það stuðlar að því að næst sé betur gert. Matið á að fjalla um: Hvað var skemmtilegt og hvað leiðinlegt, af hverju var það þannig, hvernig voru verkefnin leyst, hvaða erfiðleikar komu upp og hvernig var unnið úr þeim og svo framvegis. Þá gefst líka tækifæri fyrir hvern og einn að segja frá hvernig honum líður og hvaða framförum hann hefur tekið (eða hafði vonast til að taka) og hvað þeir ætla að reyna að gera öðruvísi næst.

Matið er notað til að komast að því:

 • Hvað gekk vel.
 • Hvers vegna gekk það vel.
 • Hvað gekk ekki vel eða illa.
 • Hvers vegna það gekk ekki sem skyldi.

Nota á matið til þess að finna út:

 • Hvernig gera má betur.
 • Hvað þarf að gera til þess að sveitarstarfið verði öflugra.

Gott mat byggist á að það sé gert af alvöru, heiðarleika og með jákvæðu hugarfari. Fara á varlega ef gagnrýni verður persónuleg. Það þarf ekki endilega að vera sök aðstoðarsveitarforingjans þótt hann hafi ekki verið nægilega vel undirbúinn á fundinum um notkun áttavitans. Kannski var verkefnið of erfitt. Ef til vill hafði sveitarráðið ekki skipulagt verkefnið nægilega vel. Kannski hefði verið betra að fleiri hefðu komið að undirbúningi verkefnisins. Matið snýst um að læra af reynslunni en ekki finna sökudólg eða blóraböggul.