Bragi Björnsson skátahöfðingi sendir í dag sjálfboðaliðum skátahreyfingarinnar eftirfarandi kveðju í tilefni af alþjóðlegum degi sjálfboðaliða.
Bragi
Bragi Björnsson, skátahöfðingi

Daglega verja þúsundir íslendinga töluverðum tíma í sjálfboðaliðavinnu. Með óeigingjörnum störfum sínum leggja þessir einstaklingar sitt að mörkum til að auðga íslenskt samfélag og tryggja margvíslega þjónustu sem hugsanlega væri ella ekki sinnt eða kostnaður vegna hennar væri margfalt meiri. Þannig er björgunarsveitarfólk Slysavarnafélagsins Landsbjargar til taks allan sólarhringinn til að aðstoða í neyð, foreldrar og gamlir félagar tryggja snurðulausa framkvæmd íþróttaviðburða, listamenn halda listsýningar til stuðnings verðugum verkefnum, sóknarbörn sinna hjálparstarfi innan þjóðkirkjunnar og fullorðnir foringjar tryggja gæða leiðtogaþjálfun í skátahreyfingunni, svo einhver dæmi séu tekin.

Oftast fara störf sjálfboðaliða fram utan hefðbundins vinnutíma þ.e. á þeim tíma sem fólk almennt sinnir fjölskyldu sinni og öðru því sem fylgir að reka heimili. Það veldur því óneitanlega að annað heimilisfólk þarf að taka á sig auknar skyldur s.s. vegna ummönnunar barna, heimilisstörf og jafnvel tekjuöflun. Að jafnaði er það maki sjálfboðaliðans sem tekur á sig þessar auknu byrðar til að sjálfboðaliðinn geti sinnt störfum sínum með sóma. Sjaldan er sjónum beint að þessum bakhjörlum sjálfboðaliðanna og jafnan fá þeir ekki þá viðurkenningu sem þeir verðskulda.

Á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans þann 5. desember vil ég því nota tækifærið og þakka betri helmingi sjálfboðaliða fyrir þann skilning, þolinmæði og stuðning sem hann sýnir starfi sjálfboðaliðans. Án þessa stuðnings gætu sjálfboðaliðar landsins ekki sinnt sínum störfum sem skyldi og íslenska þjóðin færi á mis við framlag þeirra til samfélagsins.