Skátavefir

Það er nauðsynlegt fyrir hvert skátafélag að vera sýnilegt á netinu. Árangursríkasta leiðin er samþætting heimasíðu við samfélagsvefi eins og t.d. Facebook og það er einmitt sú leið sem BÍS hefur farið við endurgerð á sínum vefjum. [quote_right]Aukin og bætt upplýsingaþjónusta BÍS með tilkomu nýrra vefsíðna[/quote_right]

Í mars 2013 var skipaður vinnuhópur á vegum Upplýsingaráðs og stjórnar BÍS sem fékk það verkefni að skoða samskiptamál skáta í víðu samhengi og var áhersla lögð á að taka fyrst til endurskoðunar vefsíður á vegum BÍS með það að markmiði að tryggja reglubundna og lifandi upplýsingagjöf. Það vefumsjónarkerfi sem notað hefur verið um árabil hefur svo sannarlega staðið fyrir sínu en ljóst var að breytinga var þörf á þeim þáttum og var ákveðið að færa vefi BÍS yfir í WordPress-vefumsjónarkerfið.

Skátarnir.is

Fyrstu ávextir þessarar vinnu litu svo dagsins ljós í ágúst 2013 þegar vefsíðan www.skatarnir.is fór í loftið en markmið þeirrar vefsíðu er að kynna almenningi skátastarfið og virka sem kynningartæki fyrir skátafélögin. Með tilkomu www.skatarnir.is var þeim sem áhuga hafa á að kynna sér skátastarfið og taka þátt í því gert kleyft að fá góðar og gagnlegar upplýsingar á einum stað. Undanfarin ár hafa skátarnir endurnýjað starfsgrunn sinn og var orðið tímabært að uppfæra vefinn til samræmis við hann og með þessum áfanga eignuðumst við vef sem gefur góða mynd af starfinu eins og það er í boði í dag.

:: Skoða skatarnir.is

Vefsíður skátafélaga

Samhliða vinnu við gerð kynningarvefsins www.skatarnir.is var unnið að gerð vefsíðu fyrir skátafélögin. Skátafélögin höfðu leitað til skrifstofu BÍS og óskað eftir aðstoð við gerð vefsíðu og með þessu verkefni var þeirri þörf mætt.  Vinnuhópurinn á vegum Upplýsingaráðs og stjórnar BÍS skoðaði heimasíður skátafélaganna og í kjölfarið var unnið að gerð vefsíðu sem gæti verið „dæmigerð“ og býðst öllum skátafélögum að taka þessa vefsíðu í notkun sér að kostnaðarlausu.

Þau skátafélög sem vilja nýta sér þetta tilboð eru hvött til leita sér nánari upplýsinga með því að hafa samband við Guðmund Pálsson 696 4063 eða senda tölvupóst á netfangið gudmundur@skatar.is, en hann annast um þessa þjónustu fyrir hönd BÍS.

Hér eru dæmi um vefi skátafélaga sem nýtt hafa sér þessa þjónustu:

:: Skátafélagið Vífill
:: Skátafélagið Kópar
:: Skátafélagið Skjöldungar
:: Skátafélagið Árbúar
:: Skátasamband Reykjavíkur

Nýr skátavefur í loftið

Þann 24. desember 2013 náðist svo frábær áfangi þegar nýr vefur skáta var opnaður, en hann er vettvangur fyrir fréttir af daglegu starfi skáta, tilkynningar um viðburði og veitir aðgengi að stuðningsefni, verkefnavef skáta, félagatali og viðburðaskráningarkerfi.  Nýi vefurinn leysir af hólmi eldri vef sem þjónað hafði hlutverki sínu og að sumra mati jafnvel gott betur.

Vefurinn  ber yfirskriftina Skátamál og er einkum vettvangur fyrir starfandi skáta, en einnig er hann öllum opinn sem vilja kynna sér uppbyggingu skátastarfsins.

:: Skoða nýjan skátavef

Vertu með!

BÍS leggur metnað sinn í að þessar nýju vefsíður bjóði upp á góða upplýsingagjöf og aukna upplýsingamiðlun. Til að þeim markmiðum verði náð er mikilvægt að margir leggi hönd á plóg enda eru handtökin fjölmörg í vexti og viðhaldi þessara vefsíðna. Það þarf að skrifa fréttir, greinar og ýmis konar efni, taka ljósmyndir og myndbönd, vinna grafíska vinnu og svo mætti lengi telja.

Ef þú hefur áhuga á að leggja þessu skemmtilega starfi lið hvetjum við þig til að hafa samband með tölvupósti á netfangið skatar@skatar.is.

Árangursrík vefsíðugerð

Það er að mörgu að hyggja þegar farið er af stað í þá vinnu að setja upp vefsíðu. Tilgangur og markmið þurfa að vera skýr og vönduð undirbúningsvinna skilar sér í betri árangri.

Hér á eftir fylgir krækja í gátlista sem þú skalt skoða vandlega og fylla út eftir bestu getu. Hann er engan veginn tæmandi en er til þess fallinn að koma þér á sporið.

:: Lesa meira

Af hverju WordPress?

Sú leið sem stjórn BÍS ákvað að fara varðandi val á vefumsjónarkerfi byggðist á vandaðri skoðun á þeim kerfum sem í boði voru og við valið var haft að leiðarljósi að taka í notkun kerfi sem væri með mikla útbreiðslu, væri aðgengilegt fyrir umsjónarfólk, krefðist ekki mikillar tækniþekkingar og að stofn- og rekstrarkostnaður væri í lágmarki. Fljótlega bárust böndin að opnum kerfum á borð við Joomla, Drupal og WordPress og var að lokum ákveðið að velja WordPress, m.a. vegna þess hve þekking á notkun þess kerfis hefur náð mikilli og almennri útbreiðslu hérlendis á síðustu misserum.

Fróðleiksmolar um WordPress

WordPress vefumsjónarkerfið er útbreiddasta vefumsjónarkerfi (Content Management System) heims (Heimild: W3TECHS 07.01.2014 – Skoða).

Margar ástæður eru fyrir vinsældum WordPress, þeirra á meðal þessar:

  • Vefumsjónarkerfið er ókeypis. Notandinn þarf því ekki að leggja út í umtalsverðan stofnkostnað né að greiða mánaðarleg gjöld fyrir afnot af kerfinu.
  • WordPress er mjög notendavænt og ekki þarf sértæka þekkingu til þess að annast um uppfærslur, innsetningu efnis og daglegt viðhald. Margir notendur kjósa þó að fá sérfræðiaðstoð í upphafi frá aðilum eins og Kontent sem aðstoða við þarfagreiningu, skipulag og uppsetningu á grunnsíðum og útliti en að því loknu geta notendur annast sín mál sjálfir.
  • Öll virkni WordPress sem snýr að leitarvélabestun er afar fullkomin og aðgengileg. Þetta skiptir mjög miklu máli því þegar öllu er á botnin hvolft skiptir mestu máli að vefsíðan komi upp í niðurstöðum leitarvéla. Það er því ekki þörf á að kaupa að dýra sérfræðiþjónustu við leitarvélabestun.
  • Tengingar við samfélagsmiðla svo sem Facebook, Twitter og Google+ eru mjög aðgengilegar í gegnum WordPress vefumsjónarkerfið. Þetta er afar mikilvægt því samþætting vefsíðu við einn eða fleiri samfélagsmiðla skiptir sköpum fyrir þá sem vilja ná verulegum árangri í sýnileika á netinu.
  • Margvísleg viðbótarvirkni (plugins) er fáanleg inn í WordPress vefumsjónarkerfið og skipta þessar lausnir þúsundum og eru flestar þeirra í boði án endurgjalds. Það er ekki óalgengt að sérsniðnar veflausnir bjóði upp á viðbótarvirkni svo sem auglýsingabirtingar, myndbönd, póstlista, starfsmannalista, fréttakerfi, fyrirspurnarkerfi og fleira.