Samskipti við foreldra

Gott samstarf þarf að vera á milli skátahreyfingarinnar og foreldra. Ef náið samstarf er á milli skátafélaga og foreldra skapast traust og skilningur milli foreldra, þeirra sem stjórna skátastarfinu og skátanna sjálfra. Skátafélög sjá til þess að foreldrar fái tækifæri til að kynnast markmiðum og leiðum hreyfingarinnar og því sem efst er á baugi í starfinu hverju sinni.

Gott umtal gulli betra

Einn besti ávinningur sem skátastarf hefur af samstarfi við foreldra er gott umtal meðal fólks. Gæði þeirra starfa sem skátaforingjar leggja af mörkum eru skátastarfinu mikil lyftistöng og góð auglýsing. „Hér fer fram gott starf, það er mikilvægt að leyfa barninu sínu að vera með í þessu skátafélagi“.

Almenningi eru störf skátahreyfingarinnar alls ekki eins vel þekkt og t.d. störf íþróttahreyfingarinnar sem sífellt birtast í fjölmiðlum. Því er mörgum foreldrum óljóst hvernig skátafélög starfa og gera sér í mörgum tilvikum litla grein fyrir siðum og venjum í skátastarfi. Skátahreyfingin álítur mikilvægt að byggja brú á milli heimilis og skátafélagsins og opna fyrir meiri þátttöku foreldra í starfinu.

Samstarf er nauðsynlegt

Samstarf er nauðsynlegt til þess að:

 • Foringjarnir geti tekið tillit til séreinkenna og heilsu barnanna og óska foreldra.
 • Heimilin skilji uppeldisgildi skátastarfs og þær leiðir sem farnar eru í skátastarfi (t.d. hlutverk flokksforingja og skátaflokka, börn stjórni börnum og „athafnanám“).
 • Foreldrar hvetji börnin til virkrar þátttöku í skátastarfi og efli áhuga þeirra.
 • Foreldrar og skátahreyfingin stuðli í sameiningu að því að börnin sýni frumkvæði, ábyrgð og sjálfstæði vekja áhuga foreldra á skátastarfinu sem gæti leitt til þess að þau taki að sér foringja- eða stjórnunarstörf.

Hvernig byrjum við?

Það er mikilvægt að foreldrar taki þátt í samstarfi strax frá upphafi. Ef barn t.d. biður um inngöngu í hreyfinguna þá ættu foreldrar að afla sér upplýsinga um skátastarfið, s.s. lög og heit, væntanlegan kostnað, tíðni funda, ferðalög og fleira. Síðan ættu foreldrar að tilkynna skriflega að þau séu samþykk því að barn þeirra taki þátt í skátastarfinu og foreldrarnir séu tilbúnir að skuldbinda sig til einhverrar þátttöku í starfinu, t.d. aðstoð við fjáraflanir, akstur í útilegur o.þ.h.

Dæmi um verkefni sem foreldrar gætu sinnt fyrir sveitina og félagið:

 • skipulagning og framkvæmd fjáraflana
 • aðstoða við efnisöflun
 • útvega sambönd og ráðgjafa
 • aðstoð við útilegur
 • aðstoð við einstaka viðburði hjá félaginu
 • tenging milli skáta og foreldra (foreldraflokkur)
 • foringjastörf

Nokkrar hugmyndir um foreldrasamstarf

Foreldrastarf getur farið fram með ýmsu móti. Hér á eftir eru gefin nokkur dæmi:

 • Sveitarforingjar senda inn á heimilin starfsáætlun sveitarinnar og flokksins ásamt upplýsingum um fundarstað og tíma, nöfn, heimilisföng og símanúmer félags-, deildar-, sveitar- og flokksforingja.
 • Sveitarforingi sendir einnig til foreldra útilegu- og ferðaáætlanir þar sem fram kemur brottfarar- og komutími ásamt lista yfir útbúnað og sundurliðaðri kostnaðaráætlun ef tekið er gjald.
 • Félagið og/eða sveitin gefur út blað eða opnar heimasíðu. Blaðið er fyrst og fremst ætlað foreldrum og skátunum og því fjallar það einna helst um starfið í sveitunum.
 • Haldinn er foreldrafundur þar sem sveitarforingi skýrir foreldrum frá starfsáætlun sveitarinnar og starfsaðferðum skáta.
 • Skátadagar geta verið gagnlegir og þar má sýna bæði foreldrum og almenningi hvernig sveitin eða félagið starfar.
 • Fjölskyldudagur sveitarinnar, þar sem allir fara t.d. í fjallgöngu með markferðaverkefnum eða jafnvel keppni í skátaíþróttum fyrir alla fjölskylduna, getur haft mikið að segja um skilning foreldra á starfsaðferðum skáta.
 • Gaman er að halda fjölskyldubingó eða félagsvist þar sem allir leggja sitt af mörkum til veitinga.
 • Sveitarforingi leitar eftir aðstoð foreldra við lausn einstakra verkefna. Þetta getur verið kennsla eða bein aðstoð í útilegu eða dagsferð.
 • Sveitin stendur fyrir fjölskyldubúðum í tengslum við skátamót, t.d. landsmót, og heimsóknir foreldra á útilegustaði.
 • Ef ástæða þykir er hægt að stofna foreldrafélag eða foreldraráð, en það skal ekki gera nema í stærstu skátafélögunum. Foreldrafélögin aðstoða skátaforingjana og styðja við störf sveitarinnar, t.d. við fjáraflanir, akstur, skálavörslu, efnisútvegun og hvatningu við störf sveitarforingja.
 • Flokksfundur á heimili. Sveitarforingi ætti að hvetja foreldra til að bjóða flokki barns síns heim til fundarhalds, t.d. í sambandi við afmælisdag eða einhverjar hátíðir.
 • Skoðanakannanir, sem gefa til kynna hug foreldra gagnvart hinum ýmsum þáttum skátastarfsins, geta verið sveitarforingjum mikið hjálpartæki.

Hvatning til foreldra

Foreldrar eru því hér með hvattir til að sýna skátastarfinu áhuga og bjóða fram aðstoð sína.  Sveitarforingjar eru oft ungir, algengt á aldrinum 18-22 ára og því flestir ennþá í foreldrahúsum og eru því kannski feimnir við að biðja foreldra skátanna um aðstoð.  Eins og bent hefur verið á eru fjölmargir möguleikar á aðkomu foreldra í skátastarfinu þó engir séu áhorfendabekkirnir.  Því er hér með skorað á foreldra að bjóða fram aðstoð sína því það er barnið þeirra sem verið er að vinna með.