Skyndihjálp er í hávegum höfð á Úlfljótsvatni. Það er ekki nóg með að allir sumarstarfsmenn á Úlfljótsvatni fái þjálfun í skyndihjálp heldur hafa nú hafa tveir af föstum starfsmönnum þar lokið „meiraprófi“ í faginu. Gestir Úlfljótsvatns eru því sannarlega í öruggum höndum.
Þátttakendur í skólabúðum í fjallgöngu. Hvað gæti svo sem gerst, en best að vera viss.
Þátttakendur í skólabúðum í fjallgöngu. Hvað gæti svo sem gerst, en best að vera viss.
Kominn með réttindi
Kominn með réttindi

Guðmundur Finnbogason framkvæmdastjóri lauk nýlega námskeiði sem heitir Vettvangshjálp í óbyggðum, eða Wilderness First Responder. Námskeiðið sem  Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur í umboði bandarísku samtakanna Wilderness Medical Associates er 76 klukkustunda langt.  Elín Esther Magnúsdóttir, dagskrárstjóri Úlfljótsvatns, er með sömu þjálfun og lauk endurþjálfun fyrir ári síðan

„Þetta námskeið er eitt ítarlegasta skyndihjálparnámskeið sem völ er á, að minnsta kosti fyrir þá sem eru ekki sérhæft heilbrigðisstarfsfólk, og er til dæmis krafa hjá undanförum í björgunarsveitum og mörgum fyrirtækjum sem eru með ferðir í óbyggðum, þar sem meira en tveir klukkutímar eru í sérhæfða hjálp,“ segir Guðmundur Finnbogason, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns.

Fyrirbyggjandi hugsun ríkir á Úlfljótsvatni

Guðmundur segir að slík þekking eigi mjög vel heima á stað eins og Úlfljótsvatni. „Við erum meðvituð um að fólk getur orðið fyrir óhöppum þegar það stundar útivist og ævintýradagskrá eins og þá sem við bjóðum upp á Úlfljótsvatni. Á síðustu árum höfum við gert mikinn skurk í fyrirbyggjandi aðgerðum, eins og verklagsreglum og áhættugreiningu, en við viljum líka vera eins vel viðbúin og við getum á hinum endanum, ef eitthvað gerist.“

Í umgengni við klifurturninn gilda ákveðnar reglur til að fyrirbyggja slys.
Í umgengni við klifurturninn gilda ákveðnar reglur til að fyrirbyggja slys.

Námskeiðið veitir réttindi í samræmi við  starfsreglur sem Landlæknir gefur út. „Réttindin gilda í þrjú ár og þá á maður að sækja endurþjálfun,“ útskýrir Guðmundur. „Þetta er eitt af því sem við viljum standa framarlega í og nálgast með heildrænum hætti – að skilja mögulega áhættu í starfi okkar, fara í fyrirbyggjandi aðgerðir en vera líka eins vel undirbúin og hægt er til að takast á við hugsanleg óhöpp. Sem dæmi fær sumarstarfsfólkið okkar þjálfun sem miðast við að tryggja öryggi eins og unnt er, og allir starfsmenn okkar fara á skyndihjálparnámskeið á vorin. Og núna má segja að við Elín séum með eins konar meirapróf í skyndihjálp,“ segir Guðmundur léttur í bragði.

Rétt viðbrögð við óhöppum og slysum

Hvað er kennt á námskeiði í skyndihjálp í óbyggðum? „Námskeiðið snýst um að kenna góð viðbrögð við óhöppum, slysum og veikindum í óbyggðum þar sem getur verið langt í læknishjálp, bæði í tíma og rúmi. Áhersla er lögð á að geta metið hversu alvarlegt ástandið er, frekar en nákvæmar sjúkdómsgreiningar, og að koma í veg fyrir að sjúklingum hraki áður en þeir komast undir læknishendur, jafnvel þó það taki einhverja daga,“ segir Guðmundur og bætir við að þó þjálfunin leggi áherslu á aðstæður í óbyggðum, nýtist hún jafn vel í matsalnum í JB-skála.

„Þetta er þekking sem er alltaf gott að búa að, og ég hvet alla skáta til að læra eins mikla skyndihjálp og þeir geta. Vonandi þurfum við aldrei að nota hana, en hún getur bjargað mannslífum.“

Björgunarsveitir þjálfa á Úlfljótsvatni. Samningur um það handsalaður.
Björgunarsveitir þjálfa á Úlfljótsvatni. Samningur um það handsalaður.