Skátafélagið Mosverjar í Mosfellsbæ sér um tjaldbúð World Scout Moot á Þingvöllum. Þar er nú risið 400 manna fjölþjóðlegt þorp sem fellur eins og flís við rass í skipulag þjóðgarðsins, litrík prýði og umgengni öll til fyrirmyndar.

Svæðið skartaði sínu fegursta þegar blaðamann Skátamála bar að garði. Tjaldbúðir skátanna snyrtilegar og vel skipulagðar, sól skein í heiði og kjarrið grænt inn í Bolabás. Ármannsfellið sannarlega fagurblátt og fannir Skjaldbreiðar blöstu við. Hraunið fyrir sunnan Eyktarás var reyndar hvergi sýnilegt enda er það örnefni uppspuni bræðranna Jónasar og Jóns Múla úr leikritinu Deleríum búbónis og kemur fyrir í laginu „Einu sinni á ágústkvöldi”. Bræðurna hefur eflaust vantað eitthvað snjallt til að ríma á móti „Bolabás” – góð hugmynd og eiginlega synd að við séum ekki fyrir löngu búin að skýra einhvern hraunklattann þessu góða nafni „Eyktarás”.

Eiríkur „bæjarstjóri” nýjasta úthverfis Mosfellsbæjar

Bæjarstjóri í sjálfboðavinnu

„Ég hef nú ekki haft samband við bæjarstjóra Mosfellsbæjar varðandi starfsheiti mitt hér í þessu nýjasta úthverfi Mosfellsbæjar en ég titla mig bæjarstjóra hér” segir Eiríkur Eiríksson Hjartar sem leiðir öflugt starf sjálfboðaliða úr Mosverjum og hóp af erlendu starfsliði á svæðinu.

„Ég er í símanum nánast allan daginn í minni vinnu og þykir sumum nóg um en ég held að ég hafi náð að toppa það algjörlega hér á Þingvöllum því ég er búinn að vera stöðugt í símanum til að greiða úr allskonar viðfangsefnum sem upp hafa komið” segir Eiríkur.

Eiríkur er einn af hundruðum sjálfboðaliða fullorðins fólks sem hefur ákveðið að leggja World Scout Moot lið með því að gefa sitt sumarleyfi í undirbúning, framkvæmd og frágang þessa umfangsmikla verkefnis.

90 prósent í góðu lagi – restin reddast

„Þetta er að slípast allt til, eðlilega margt sem kemur upp með svona stóran hóp og flókið dæmi en ég held að ég geti fullyrt að við séum 90% réttu megin við strikið – svo eru einhver 10% af veseni sem þarf að glíma við og því þarf bara að mæta og leysa úr – án þess væri þetta ekki nein alvöru áskorun. Úrlausnin á þessum 10% verður okkar háskólapróf í viðburðastjórnun” segir Eiríkur.

Skátar í matinn?

„Nei þetta er algjör misskilningur” segir Eiríkur þegar blaðamaður bendir á matseðil kvöldsins en þar stendur stórum stöfum: „Scout Bolognese”. „Ég fékk flott nautahakk sem ég nota í kvöldmatinn og það fara engir skátar ofan í þann pott”. Þess má geta að Eiríkur er annálaður matgæðingur og samhliða því að stýra tjaldbúðinni á Þingvöllum er hann öllum stundum í matartjaldinu að gera og græja.

Guðmundur Þór (t.v.) leggur á ráðin með Gunnari Mosverja.

Mögnuð dagskrá

„Við erum á frábærum stað og með magnaða dagskrá” segir Guðmundur Þór, einn af lykilmönnum nýja bæjarfélagsins. „Gönguferðir á Ármannsfell, Leggjabrjót frá Botnsdal og ferðir á Botnssúlur fyrir þá hressustu svo ekki sé minnst á ferð í Adrenalín-garðinn. Fræðslugöngur af ýmsu tagi eru í boði, landbætur á svæðinu, málstofa um sögu lýðræðis á Íslandi og fleira mætti nefna en kannski er mest um vert að vera og njóta félagsskaparins sem er hreint frábær” bætir Guðmundur við.

„Lokapunkturinn hérna verður svo dúndrandi kvöldvaka á föstudagskvöld hér á helgasta stað okkar Íslendinga og við vonumst til að með kröftugum söng og gleði náum við að endurvekja stemmninguna sem ríkti hér á þingum áður fyrr” segir Guðmundur og rýkur í burt til að skipuleggja sundferð fyrir sitt lið.

Marcin og Aleksandra frá Póllandi

Bíða eftir vaktaskiptum…og svo…

„Við eigum aðeins fimm mínútur eftir af okkar öryggisvakt og ætlum þá að smella okkur í rómantíska gönguferð eftir Almannagjá og inn að Öxarárfossi” segja þau Marcin og Aleksandra frá Póllandi en þau eru hér sem sjálfboðaliðar í alþjóðlegu starfsliði mótsins.

„…þetta ljúfa leyndarmál…”

Hvað sem öllu líður þá er greinilega í mörg horn að líta í þessu nýjasta úthverfi Mosfellsbæjar sem Mosverjar stýra með glæsibrag en eitt er víst að sitthvað mun gerast í dulitlu dragi, dulítið sem enginn veit.

Nánari upplýsingar um Moot á Þingvöllum veitir Eiríkur Eiríksson Hjartar: 897 1682.

/gp