Í gær gerðust þau tíðindi á skátaþingi að nýtt skátaheit var samþykkt, en undanfarin ár hefur stækkandi hópur skáta hvatt mjög til að þeim hluta skátaheitis sem innifelur „guð og ættjörðina“ yrði breytt.

Nýja skátaheitið gefur hverjum skáta val. Lagabreytingin sem var  samþykkt hljóðar svo:

Íslenska skátaheitið er eitt heit í tveimur útfærslum. Sérhverjum skáta er frjálst að velja á milli þeirra valkosta sem hér eru skáletraðir. Heitið er svohljóðandi:

Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess;
að gera skyldu mína við guð/samvisku og ættjörðina/samfélag,
að hjálpa öðrum og að halda skátalögin.

 

Tillagan og greinargerð með henni má sjá á upplýsingasíðum skátaþings – Skoða tillögu og greinargerð

„Virðing, virðing, virðing“

Arnór Bjarki Svarfdal,  Guðrún Häsler, Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir og Vilborg Norðdahl báru tillöguna fram og að baki þeim var stór hópur sem gladdist innilega þegar úrslitin lágu fyrir.  Sjaldan hefur fjöldi broskalla í Facebook grúppu hópsins verið jafn mikill og tilfinningar sterkar.  „Orð fá því ekki lýst hversu mikla þýðingu þetta hefur fyrir mig.“, og „Hér er langþráðu takmarki náð. Þetta eru bestu úrslit sem hugsast getur. Enginn vanvirðir skoðanir annars. Virðing, virðing, virðing. Við höfum sigrað, íslenska skátahreyfingin hefur sigrað.“ og „Snilld!! Pláss fyrir alla.“

 

Tengdar fréttir:

Umræðu og vinnugleði á skátaþingi

Stóru málin afgreidd í mikilli sátt

Stefnumótunardans á skátaþingi

Skátar horfa til framtíðar