Frábær áfangi náðist í dag þegar nýr vefur skáta var opnaður, en hann er vettvangur fyrir fréttir af daglegu starfi skáta, tilkynningar um viðburði og veitir aðgengi að stuðningsefni, verkefnavef skáta, félagatali og viðburðaskráningarkerfi.

Vefurinn nýi er þriðji stóri áfanginn í vefmálum skáta á þessu ári.  Í ágúst var opnaður almennur kynningarvefur einkum fyrir þá sem vilja byrja í skátastarfi.  Þegar leið á haustið fengu skátafélögin vefgrunn til að byggja á og vinna áfram með hvert á sínum forsendum. Vefurinn  sem var opnaður nú hefur yfirskriftina Skátamál.  Þó hann sé einkum vettvangur fyrir starfandi skáta er hann öllum opinn sem vilja kynna sér uppbyggingu starfsins.

Þrefalt h-t-t-p fyrir Gumma Páls

Mesta vinnan við vefina nýju hefur mætt á Guðmundi Pálssyni upplýsingameistara og vefhönnuði. Að hætti skáta er rétt að gefa honum gott hróp og hlítur stóra h t t p – hrópið að vera vel viðeigandi.

Gummi var mjög ánægður með áfangann í verkefninu. ,,Við erum að setja ný viðmið, nýja sýn og nýja nálgun á hvernig við segjum frá og komum fram. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vera með í því!” sagði hann glaður í bragði.

Stuðningur við skátadagskrána

Auk Guðmundar hafa starfsmenn Skátamiðstöðvar unnið efni og einnig hefur stýrihópur um vefmál skáta stutt starfið með ráðum og dáð.  Benjamín Axel Árnason formaður upplýsingaráðs segir að vefurinn nýi sé frábær áfangi og mikilvægur í uppbyggingarstarfi skátahreyfingarinnar. ,,Í forgrunni upplýsingamála er stuðningur við skátastarfið og leiðtoga þess. Markmið er að tryggja reglubundna og lifandi upplýsingagjöf, ásamt skoðanaskiptum um skátastarfið. Einnig viljum við bæta stuðning við dagskrána og nú þegar er búið að laga dagskrárvefinn og á nýju ári gerum við enn betur í þeim efnum,“ segir Benjamín.

Efnisþættirnir á nýja vefnum segja til um áherslurnar: Skátafélagið, skátastarfið, sjálfboðaliðar, samskipti og alþjóðastarf. Á næstu dögum og vikum verður efnið slípað enn betur til og hvetja þeir félagar skáta til að hafa samband um það sem betur má fara.  Nýi vefurinn er settur upp í WordPress og eru þeir sem hafa áhuga á að læra á það forrit og leggja nýja vefnum lið beðnir um rétta fram litlaputtann með tölvupósti á skatar@skatar.is.

Guðmundur og félagar verða á vaktinni næstu daga til að bæta og lagfæra og eru skátar hvattir til að koma ábendingum á framfæri við þau með tölvupósti á netfangið gudmundur@skatar.is.