Kæru skátasystkini,

Gengið hefur verið frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta. Staða framkvæmdastjóra var auglýst og eftir ráðningaferli var ákveðið að ráða Kristinn Ólafsson viðskiptafræðing og starfandi framkvæmdastjóra Grænna skáta.

Kristinn hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, framkvæmdastjóri hjá augnlæknastöðinni Sjónlagi og sem verkefnastjóri hjá Capacent Gallup.

Kristinn starfaði sem skáti með Ægisbúum hér á árum áður og hefur verið virkur í Hjálparsveit skáta í Reykjavík í 37 ár. Á árunum 2014-2016 var Kristinn gjaldkeri í stjórn BÍS.

Stjórn BÍS þakkar Hermanni Sigurðssyni fráfarandi framkvæmdastjóra BÍS fyrir hans góðu störf. Hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og óskum við honum velfarnaðar í starfi.


Kristinn mun hefja störf sem framkvæmdastjóri BÍS 1. nóvember. Við bjóðum hann innilega velkominn til aukinna starfa fyrir skátana á Íslandi og hlökkum til að vinna öll saman að því að efla skátastarf á Íslandi.