Námskeiðið fjallar um viðburða- og verkefnastjórnun og er þátttaka þér að kostnaðarlausu.  Fyrri hluti námskeiðsins verður laugardaginn 29. mars kl. 9 – 16:30 í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 og síðari hlutinn þann 10. maí nk.

Ekki er nauðsynlegt að hafa sótt Gilwell námskeið til að taka þátt í framhalds- og símenntunarnámskeiðum Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar.

Á námskeiðinu verður farið yfir aðferðarfræði verkefnisstjórnunar og skipulagningu verkefna. Áhersla er lögð á undirbúning, skipulag, framkvæmd og eftirvinnsla viðburða. Rýnt er í viðburði hreyfingarinnar. Fjallað er um lög, reglur og öryggisatriði. Skoðuð eru tengsl frístunda, tómstunda og ferðaþjónustu, sem og uppeldislegt- og samfélagslegt gildi viðburða og efnahagsleg áhrif þeirra.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur:

  • Kynnist faglegum vinnubrögðum í viðburða- og verkefnastjórnun.
  • Tileinki sér aðferðir verkefnisstjórnunar til að geta aukið skilvirkni í daglegum störfum, stýrt verkefnum og byggt þau upp á faglegan hátt.
  • Verði hæfari í að skipuleggja, undirbúa, framkvæma og meta stóra og litla viðburði á vettvangi skátahreyfingarinnar og annarra.

Hæfniviðmið námskeiðsins:

Við lok námskeiðs er miðað við að þátttakendur:

  • Þekki, geti lýst og beitt vinnuaðferðum verkefnastjórnunar.
  • Geti haldið viðburði sem feli í sér ferlið frá hugmynd til framkvæmdar.
  • Geti metið eigin viðburð og kynnt hann fyrir öðrum.
  • Geti greint og fært rök fyrir ýmiskonar áhrifum viðburða.

Stjórnendur:  Halldóra G Hinriksdóttir, MBA  – Forstöðumaður / Verkefnastofa og stefnumótun LÍ og Jakob Frímann Þorsteinsson, MA – Formaður námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræði HÍ

Skráning á námskeiðið fer fram hér!