Forsetamerki skáta var afhent í 50. sinn við hátíðlega afhöfn á Bessastöðum 11. október sl. Við það tilefni flutti Ólafur Ásgeirsson handhafi merkis nr. 1 ávarp þar sem hann rifjaði upp tíðarandann þegar hann vann að þessu starfsmerki skáta.

Ólafur sagði að hann hefði verið svo lánsamur að klára fyrstur og því verið fyrstur í röðinni að fá merkið úr hendi þáverandi forseta Íslands hr. Ásgeirs Ásgeirssonar í Bessastaðakirkju.

Öskrandi stórhríð

Ólafur rifjaði upp aðdragandann. „Við dróttskátarnir á Akureyri frá þessum tíma vorum svo heppnir að hafa foringja sem við dáðum og litum upp til á allan hátt. Hann var ekki aðeins foringi okkar og leiðtogi heldur get ég fullyrt að hann mótaði lífsferil okkar allra að einhverju leyti. Það var hinn þekkti skátaforingi og skólastjóri Tryggvi Þorsteinsson,“ sagði hann.

Tryggvi Þorsteinsson skátaforingi er Ólafi minnisstæður
Tryggvi Þorsteinsson skátaforingi er Ólafi minnisstæður

Ólafur sagði að þótt Tryggvi hefði verið vinur þeirra kom ekki til greina að þeir fengju forsetamerkið auðveldlega. „Við skyldum svo sannarlega fá að vinna fyrir því,“ sagði hann og rifjaði upp skilyrðin, en í þá daga þurfti að ná 40 stigum til að ná merkinu og flest verkefni gáfu eitt til tvö stig. Þannig gaf fimm daga páskaútilega í snjóhúsum með skíðaferð á hverjum degi heil fjögur stig. Og það var öskrandi stórhríð alla dagana, rifjaði Ólafur upp.

Ólafur Ásgeirsson rifjaði upp stefnumótafræðslu sem hann naut í skátastarfinu
Ólafur Ásgeirsson rifjaði upp stefnumótafræðslu sem hann naut í skátastarfinu

Á deit í skátunum

„Eitt merkilegasta námskeiðið sem við sóttum var haldið af Tryggva og stóð það í viku og kennt á hverju kvöldi. Það var námskeið í mannasiðum,“ sagði Ólafur og var greinilegt að þetta var honum í fersku minni. „Á hverju kvöldi voru fyrirlestrar um hina ýmsu siði í samkiptum við annað fólk. Við strákarnir vorum allir komnir á þann aldur að vera farnir að hugsa um hitt kynið og samskiptin við stelpur voru líka á dagskrá námskeiðsins. Tryggvi vissi alveg hvað við vorum að hugsa og á síðasta kvöldi námskeiðsins, laugardagskvöldi skyldum við allir bjóða með okkur dömu út að borða á Hótel KEA og síðan á dansleik á eftir“.

Ólafur sagði að Tryggvi hefði verið búinn að leggja drengjunum línuna. „Í fyrstu skyldum við ákveða hvaða dömu við vildum bjóða út. Margir sem höfðu verið drjúgir með sig urðu ekki eins öruggir þegar að þessu kom. Við áttum að undirstinga dömuna hvort hún vildi koma með okkur. Siðan tala við móðurina og fá hennar leyfi fyrir stúlkunni,“ rifjar Ólafur upp. Samkvæmt leiðbeiningum skyldu þeir svo sækja stúlkuna heim skömmu áður en borðhaldið byrjaði og þá að fara með eina rós til móðurinnar. Þegar á hótelið kom varð að passa að draga fram stólinn fyrir hana þegar hún settist, passa að hún fengi alltaf mat á undan okkur o.s.fr.v. Þegar síðan kæmi að dansleik á eftir skyldi bjóða stúlkunni formlega upp og síðan þakka fyrir dansinn, og alltaf að muna að draga stólinn hennar fram og til baka.

Þeir sem fengu Forsetamerkið fyrir 49 árum var boðið til afhendingar merkisins í ár.
Þeir sem fengu Forsetamerkið fyrir 49 árum var boðið til afhendingar merkisins í ár.

Ólafur segir að Tryggvi og Rakel konu hans verið með þeim allt kvöldið og fylgst með vökulum augum og séð til þess að allt færi vel fram. Þegar dansleik lauk var dömunum fylgt heim en þar með var ekki allt búið, því daginn eftir skyldi farið með blóm til móðurinnar með þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvista við dótturina.

„Þessu fylgdi töluverður kostnaður í blómum og mat og margir okkar voru bara fátækir unglingar. Þess vegna var það að ég og vinur minn Þorsteinn Pétursson við buðum með okkur tveimur systrum og þannig gátum við sparað okkur eitt sett af blómum því að sjálfsögðu sendum við mömmunni blómin saman þar er við þökkuðum fyrir dömurnar,“ sagði Ólafur í ræðunni.

Forsetamerkisafhending
Forsetamerkisafhending

Strax á næsta mánudagskvöldi var fundur með Tryggva þar sem hann fór yfir kvöldið en hafði lítið út á að setja þar sem allir höfðu lagt sig mjög fram og þar með voru fjögur stig til forsetamerkis í höfn.

Reykköfun, boðhlaup og foringjastörf

Hópurinn sem hlaut forsetamerkið í fyrsta sinn var allur í miklu skátastarfi, meðal annars sem sveitarforingjar og var það metið til forsetamerkisins. Ólafur rifjaði einnig upp aðra þætti sem voru hluti af því skátastarfi sem leiddi til forsetamerkisins, en það var meðal annars framhaldsnámskeið í Hjálp í viðlögum, námskeið í umferðarlögum hjá lögreglunni, reykköfun og slökkvistarf hjá slökkviðiðinu og boðhlaup til Dalvíkur. Ólafur segir að flestir hafi verið starfandi í Flugbjörgunarsveitinni og sótt þar námskeið og æfingar ásamt því að vera þar í fyrsta útkallsflokki.

Ólafur brýndi fyrir þeim sem nú fengu merkið að þau ættu eftir að upplifa miklar breytingar og líklega meiri en hans kynslóða. „Ég bið ykkur samt að fara aldrei á lífsleiðinni fram úr ykkur sjálfum og ávalt að virða það sem áður er gengið,“ sagði Ólafur og þó margar ákvarðanir sem teknar hefðu verið virtust í dag vera rangar, þá skyldi hafa í huga að það ástand sem ríkti þegar ákvörðun var tekin.

Árlega koma skátar til Bessastaða og fagna góðum árangri
Árlega koma skátar til Bessastaða og fagna góðum árangri

Skáti er tryggur

„Ég bið ykkur kæru skátar að temja ykkur góða siði og að ganga hægt um gleðinnar dyr. Skátar eiga alltaf að vera til fyrirmyndar í okkar samfélagi. Berum skátabúninginn okkar með reisn og stolti svo eftir verði tekið. Í gömlu skátalögunum, annarri grein að mig minnir stóð Skáti er tryggur. Verið alltaf tryggir og trúir sannfæringu ykkar og haldið alltaf fram því er þið teljið vera réttur málstaður,“ sagði Ólafur.
Ólafur sagðist ljúka ávarpi sínu á sömu orðum og Tryggvi Þorsteinsson við skólaslit í Barnaskóla Akureyrar, en þá sagði hann alltaf:

Vertu tungunni trúr.
Tryggur og hreinn í lund.

Forsetamerkishafar nú í ár og fyrir hálfri öld
Forsetamerkishafar nú í ár og fyrir hálfri öld